Reiðhjólamenn/-fólk og hjólreiðamenn/-fólk

Í gær mátti lesa á Vísi fyrirsögnina „Reiðhjólamaður féll af kletti við Jökulsárgljúfur“ og orðið reiðhjólamaður er einnig notað einu sinni í fréttinni sjálfri. Í Málvöndunarþættinum var gerð athugasemd við reiðhjólamaður og sagt „„hjólreiðamaður“ er gamla góða orðið um þetta fyrirbrigði!“. Það orð er reyndar notað í myndatexta með sömu frétt, „Þyrlan hífði hjólreiðamanninn upp úr gljúfrinu“ og kemur tvisvar fyrir í fréttinni sjálfri. Það er vissulega rétt að hjólreiðamaður er það orð sem venjulega er notað í merkingunni 'sá eða sú sem ferðast um á reiðhjóli' eins og orðið er skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók reiðhjólamaður er ekki í bókinni en er þó ekki óþekkt og er t.d. að finna í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls.

Við athugun kemur í ljós að reiðhjólamaður er hundrað ára gamalt orð – sést fyrst í auglýsingu í  Morgunblaðinu 1923: „Eins og allir gamlir reiðhjólamenn kannast við, er „Brennabor“ eitt af allra þektustu reiðhjólategundum fyrir gæði.“ Í Vísi 1929 segir: „Vísir sagði frá því nýlega, að lögreglan ætlaði að ganga eftir því, að reiðhjólamenn hefði ljós og bjöllur á hjólum sínum í vetur“ – í sömu frétt er einnig talað um hjólamenn. Nokkur dæmi eru um reiðhjólamaður á næstu áratugum en fer fjölgandi samfara auknum hjólreiðum um 1980 og eru samtals rúm 300 á tímarit.is. Elstu dæmi um hjólreiðamaður eru nokkru eldri, frá 1896 – í Dagskrá það ár segir: „Emil Zola er hjólreiðamaður mikill, þótt hann sje nú farinn að eldast og orðinn þungfær.“

Vitanlega eru dæmin um hjólreiðamaður margfalt fleiri – rúmlega 5.200 á tímarit.is og tæplega 8.600 í Risamálheildinni. En þar eru einnig rúm 600 dæmi um reiðhjólamaður, þar af aðeins rúmlega hundrað af samfélagsmiðlum, sem sýnir að orðið hefur fest sig í málinu og tengist óformlegu málsniði ekki sérstaklega. Samsvarandi samsetningar með -fólk eru einnig til – elsta dæmi um hjólreiðafólk er í Sovétvininum 1935: „Hjólreiðafólk frá verksmiðjunni „Elektrosila“ i Leningrad.“ Elsta dæmi um reiðhjólafólk er mun yngra, í Morgunblaðinu 1962: „Á miðjum þessum breiða grasrenningi, sé ég að komið hefur verið fyrir stíg fyrir reiðhjólafólk.“ Dæmin um hjólreiðafólk á tímarit.is eru rúmlega 1250 en um reiðhjólafólk tæplega 150.

Orðin hjólreiðamaður og hjólreiðafólk eru mynduð af samsetta nafnorðinu hjólreið sem langoftast er notað í fleirtölu, hjólreiðar, en orðin reiðhjólamaður og reiðhjólafólk eru mynduð af samsetta nafnorðinu reiðhjól. Það er vitaskuld fullgild orðmyndun enda eru aldrei gerðar athugasemdir við hliðstæða orðmyndun af öðrum samsetningum með -hjól sem seinni lið, svo sem bifhjól, mótorhjól, vélhjól o.fl. Orðið bifhjólamaður kemur fyrst fyrir 1920, mótorhjólamaður 1930 og vélhjólamaður 1965 – samsvarandi samsetningar með -fólk eru einnig til en nokkru yngri. Á seinustu árum hafa bæst við ýmis orð af þessu tagi – fjallahjólafólk, götuhjólafólk, rafhjólafólk, torfæruhjólafólk o.fl. – og samsvarandi orð með -maður.

Frá orðmyndunarlegu sjónarmiði er því ekkert við reiðhjólamaður og reiðhjólafólk að athuga. Það er ekki heldur hægt að amast við orðunum á þeim forsendum að þau séu óþörf því að orð sömu merkingar, hjólreiðamaður og hjólreiðafólk, séu fyrir í málinu – vitanlega er aragrúi samheita í málinu og það hefur venjulega verið talið kostur fremur en galli að hægt sé að grípa til fleiri en eins orðs til að tjá sömu merkingu. Ef til vill gæti einhverjum dottið í hug að segja að þessi orð væru ekki einasta óþörf heldur ættu sér enga hefð í málinu og ryddust inn á svið orðanna hjólreiðamaður og hjólreiðafólk. En eins og hér hefur komið fram er reiðhjólamaður hundrað ára gamalt og reiðhjólafólk 90 ára – þau hafa löngu unnið sér hefð sem íslensk orð.