Að tana
Í innleggi hér fyrr í dag var sagt „Í mínu ungdæmi talaði maður um að fara í sólbað en í dag tanar fólk“ – og spurt hvaða skoðanir fólk hefði á sögninni tana sem hefur verið töluvert notuð á síðustu árum. Elstu dæmi um hana á samfélagsmiðlum eru frá 2005 en hún fer smátt og smátt að sjást í öðrum textum á næstu árum eftir það. Á fótbolti.net 2008 segir: „Eftir æfingu fór liðið úr næstum hverri spjör og tanaði grimmt fyrir leikinn á morgun.“ Á DV 2012 segir: „Þar er merkilega sólríkt allan ársins hring og auðvelt að tana sig í tætlur.“ Á mbl.is 2015 segir: „Á hlýjum sólardögum má svo fá sér sundsprett í lauginni og tana smá.“ Á Vísi 2021 segir: „Hugmyndin kom upp þegar ég var með sameiginlegum vinkonum okkar úti að tana.“
Í umræðum um þetta kom fram að sumum finnst sögnin tana óþörf – á íslensku sé talað um að liggja í sólbaði eða sóla sig. Sögnin er vissulega tökuorð úr ensku, tan, og merkir þar 'to become brown, or to make someone's body or skin, etc. brown, from being in the sun', þ.e. 'að verða brúnt, eða gera líkama einhvers eða húð o.s.frv. brúnt af dvöl í sólinni'. Ef sögnin tana merkir það sama í íslensku, eins og hún virðist yfirleitt gera, þá jafngildir hún ekki því að liggja í sólbaði – bæði vegna þess að hægt er að liggja í sólbaði án þess að hafa brúnku að markmiði, og líka vegna þess að hægt er að fá brúnku á annan hátt en liggja í sólinni. Á Hugi.is 2009 segir: „Hvernig helduru eiginlega að fólk hafi tanað áður en ljósabekkir komu til?“
Sögnin tana þjónar því ákveðnu hlutverki sem önnur orð ná ekki yfir. Hún fellur ágætlega að málinu og hefur sömu stofngerð og beygingu og ýmsar aðrar sagnir – ana, bana, flana, mana, spana, stjana, trana, vana o.fl. Hún hefur líka getið af sér lýsingarorðið tanaður sem er mjög algengt – „Massaður og tanaður, eina leiðin til að lifa“ segir í DV 2005; „ef ég vil vera tönuð þá fer ég bara í ljós sko“ segir á Hugi.is 2006. Nafnorðið tan er einnig algengt – „Ég nennti ekki alveg að fara í útskriftarferð sem er nánast einungis til að skemmta sér og næla sér í tan“ segir á Vísi 2008; „Guli búningurinn er fínn við tanið“ segir á fótbolti.net 2015; „Hér áður fyrr var ég hrædd um að missa af taninu ef ég væri með sólarvörn“ segir á mbl.is 2019.
Vitanlega er það rétt sem nefnt var í umræðum að sögnin tana er ekki gagnsæ, í þeim skilningi að við áttum okkur á merkingu hennar út frá skyldum orðum þótt við þekkjum hana ekki. Sögnin á sér ekki frændgarð í íslensku þótt hún sé byrjuð að byggja hann upp í orðunum tanaður og tan. En „gagnsæi“ íslenskunnar er goðsögn eins og Þórarinn Eldjárn skrifaði í Morgunblaðinu 2015: „Ekkert orð er gagnsætt nema það sé samsett úr öðrum orðum eða leitt af öðru orði. Ef samsetningarnar eru leystar upp eða frumorðið fundið endum við alltaf á orðum sem eru ekkert frekar gagnsæ í íslensku en í öðrum málum.“ Hann mælti með tökuorðum og sagði: „Hvorugkynsnýyrðið app, fleirtala öpp, er […] mun betra orð en hið „gagnsæja“ smáforrit.“