Trúarbragð
Allmörg samsett nafnorð hafa orðið -bragð sem seinni lið. Mörg þessara orða eru einkum notuð í fleirtölu þótt eintölumyndum bregði fyrir af þeim flestum og séu jafnvel gefnar upp í orðabókum – þetta eru orð eins og aflabrögð, bolabrögð, fangbrögð, hvílubrögð, vinnubrögð o.fl. Eitt fárra orða af þessu tagi sem nánast aldrei komu fyrir í eintölu til skamms tíma er trúarbrögð. Elsta dæmi um eintöluna á tímarit.is er í Morgunblaðinu 1980: „Þjónkun og tilbeiðsla á manna-guðum og er komma-guðinn áhrifamestur sem trúarbragð. […] En Jesú Kristur er ekki trúarbragð.“ Í Morgunblaðinu 1984 segir: „Hún er kristið verkefni, því kristni er trúarbragð friðarins.“ Í Pressunni 1991 segir: „hann er kynntur eins og æsandi trúarbragð.“
Þetta eru einu dæmin um eintöluna trúarbragð sem ég finn fram til aldamóta á tímarit.is, en í Risamálheildinni er hátt á áttunda hundrað dæma frá þessari öld – flest af samfélagsmiðlum en þó um þrjátíu úr öðrum textum, nær öll frá síðustu tíu árum. Sem dæmi má nefna „Íþróttin er trúarbragð hér“ á fótbolti.net 2012, „Fyrir múslima er Íslam ekki nýtt trúarbragð“ á Vísi 2015, „Aðspurður segir hann að tilgangur stofnunar trúfélagsins hafi verið að iðka elsta trúarbragð í heimi“ á mbl.is 2019, og „Fyrir margan Íslendinginn er áfengi hálfgert trúarbragð“ í Skessuhorni 2019. Á samfélagsmiðlum er hins vegar fjöldi dæma strax á upphafsárum þeirra upp úr aldamótum sem bendir til þess að eintalan hafi verið orðin algeng í talmáli fyrir aldamót.
Þessi breyting er í sjálfu sér mjög eðlileg og skiljanleg. Það er ekkert í merkingu orðsins trúarbrögð sem kallar á fleirtölu – ekki frekar en í orðunum forföll og mistök sem ég hef áður skrifað um. Þvert á móti – trúarbrögð er samheiti við trú sem er vitanlega eintöluorð. Orðið trúarbrögð vísar til afmarkaðs teljanlegs fyrirbæris – það er hægt að tala um tvenn trúarbrögð, mörg trúarbrögð o.s.frv. Þess vegna er ekki undarlegt að málnotendum finnist eðlilegt að nota eintöluna trúarbragð þegar vísað er til eins fyrirbæris af þessari tegund en noti trúarbrögð í vísun til fleiri slíkra – í Íslenskri orðabók er m.a.s. tekið fram að trúarbrögð sé „stundum notað sem flt. af trú“ enda er ekki hægt að nota trú í fleirtölu í þessari merkingu.
Öðru máli gegnir um hin orðin sem nefnd voru hér að framan – eintölumyndirnar aflabragð, bolabragð, fangbragð, hvílubragð og vinnubragð koma ýmist aldrei eða örsjaldan fyrir. Það er eðlilegt vegna þess að öfugt við trúarbrögð vísa þau ekki til afmarkaðra teljanlegra fyrirbæra – það er ekki talað um *tvenn vinnubrögð, *mörg vinnubrögð eða neitt slíkt heldur fjölbreytt vinnubrögð eða eitthvað slíkt. Þess vegna er ekkert sem kallar á aðgreiningu eintölu og fleirtölu í þessum orðum, öfugt við trúarbrögð, og því engin þörf fyrir sérstakar eintölumyndir. Eintalan trúarbragð er orðin a.m.k. aldarfjórðungs gömul og er greinilega töluvert útbreidd og í mikilli sókn. Hún er fullkomleg eðlileg og rökrétt og ég sé enga ástæðu til að amast við henni.