Frjálslyndi eða ergelsi

Ég veit að mörgum í þessum hópi – og miklu fleiri utan hans – finnst ég alltof frjálslyndur í málfarslegum efnum. Ég amast ekki við ýmsum þekktum „málvillum“, nýjungum í máli og enskum „slettum“ eða mæli þeim jafnvel bót – meðal þess sem ég hef nýlega fjallað um á jákvæðan hátt er fleirtalan menningar, eintalan trúarbragð, sögnin tana, framburðurinn tvem, orðið reiðhjólamaður, framsöguháttur í stað viðtengingarháttar, og svo mætti lengi telja. Ég hef líka varið málbreytingar í nafni kynhlutleysis, erlendan hreim og ófullkomna íslensku þeirra sem eru að læra málið. Mér finnst mjög skiljanlegt að þetta gangi fram af fólki sem alið er upp við hefðbundin íslensk málvöndunar- og málhreinsunarviðhorf – eins og við erum flest.

Þessi afstaða stafar ekki af andstöðu við íslenska málhefð en ekki heldur af sérstöku frjálslyndi heldur byggist á raunsæju viðhorfi til tungumálsins og breytinga á því. Í viðtali á Bylgjunni um daginn var ég spurður hvort það væri eitthvað í nútímamáli sem færi gríðarlega í taugarnar á mér og ég svaraði: „Nei. Ég er hættur að láta nokkuð fara í taugarnar á mér. Ég gerði það áður, ég lét allt mögulegt fara í taugarnar á mér. En ég áttaði mig á því að það skilar engu og ef eitthvað svona gerir sig líklegt til að fara í taugarnar á mér þá fer ég að skoða það – hvernig það er notað, uppruni og eitthvað svoleiðis.  Og þá endar oft með því að mér finnst þetta mjög áhugavert og átta mig á því að þetta er í raun og veru eitthvað sem er mjög áhugavert.“

Það sem ég er að reyna að gera í pistlum mínum er sem sé að fjalla um hvaðeina í máli, málfræði og málfari á fræðilegan hátt, en þó þannig að það sé skiljanlegt fólki sem ekki hefur sérmenntun í málfræði og er farið að ryðga í skólamálfræðinni – stundum mistekst það örugglega. En ég hef þá bjargföstu trú að fræðsla sé betri en fordómar, skilningur betri en hneykslun. Ef við áttum okkur á uppkomu og eðli einhverrar tiltekinnar málbreytingar eða nýjungar sjáum við kannski að hún er ekki einhver tilviljanakennd rökleysa eða málspjöll, heldur á sér eðlilegar og röklegar skýringar. Það kann jafnvel að leiða til þess að við tökum þessa breytingu eða nýjung í sátt í stað þess að eyða tíma og orku í að ergja okkur á henni – sem skilar hvort eð er engu.

Þótt ég komist oft að þeirri niðurstöðu í pistlum mínum að sú breyting eða nýjung sem er til umfjöllunar sé saklaus eða jafnvel eðlileg er það í raun aukaatriði og mér alveg að meinalausu þótt fólk sé mér ósammála um það. Fræðslan er aðalatriðið, og jafnvel þótt lesendur verði áfram andsnúnir breytingunni eða nýjunginni eftir lestur pistils um hana tel ég samt að fræðslan gagnist þeim vegna þess að þekking á óvininum er alltaf mikilvæg. Það er auðveldara að berjast gegn breytingum og nýjungum ef fólk áttar sig á eðli þeirra og ástæðum þess að þær koma upp og ef ég tel að andóf gegn tiltekinni breytingu eða nýjung í íslensku sé í þágu málsins hika ég ekki við að segja það – og hef lagst gegn ýmsum breytingum sem ég hef skrifað um.

En málið hefur alltaf verið að breytast og verður að breytast til að þjóna samfélagi hvers tíma, og ég er sannfærður um að einstrengingsleg barátta gegn öllum breytingum og nýjungum í máli er til bölvunar vegna þess að hún fær málnotendur upp á móti málinu. Ef sífellt er verið að amast við málfari fólks, segja því að það tali vitlaust, kunni ekki íslensku o.s.frv., er það ekki til þess fallið að skapa jákvætt viðhorf til málsins. Baráttu fyrir íslenskunni verður þess vegna að reka á jákvæðum nótum með því að stuðla að notkun málsins við allar aðstæður, með því að hvetja fólk til að nota málið, tala saman, lesa og skrifa á íslensku – og ekki síst tala við börnin, lesa fyrir þau og veita þeim jákvætt og auðugt máluppeldi. En sleppa því að ergja sig.