Illtyngd, illtyngi, illtyngja og illtyngdur

Í fróðlegum pistli Jóhannesar B. Sigtryggssonar á vef Árnastofnunar sem deilt var hér nýlega er fjallað um ýmis fornmálsorð sem ekki tíðkast lengur í íslensku. Frétt mbl.is um þennan pistil var deilt hér í morgun og í framhaldi af því skapaðist umræða um nafnorðið illtyngd sem er eitt þeirra orða sem nefnd eru í pistlinum. Þetta orð sem merkir ‘baktal, illmælgi’ kemur aðeins einu sinni fyrir í fornum textum, í Grágás þar sem það er reyndar í fleirtölu, illtyngdir. Engin dæmi eru um orðið í síðari alda máli og það er ekki að finna í neinum orðabókum. Orðið er myndað með viðskeytinu -d og i-hljóðvarpi af tunga, á sama hátt og þyngd af þungur. Ekki finnast önnur dæmi um möguleg afleidd orð með -d af tunga, svo sem *tvítyngd eða *fjöltyngd.

Í umræðum var nefnt orðið illtyngi sem kemur fyrir í Ormsbók og er flettiorð í Index linguæ veteris scytho-scandicæ sive gothicæ eftir Oulaus Verelius frá 1691, en þekkist ekki í yngra máli eða orðabókum. Nokkur orð mynduð á sama hátt eru notuð í nútímamáli – eintyngi, fjöltyngi, margtyngi og tvítyngi. Einnig er sögnin illtyngja í merkingunni 'rægja' í Ritmálssafni Árnastofnunar með dæmum úr viðbótum Björns Halldórssonar við orðabók sína frá seinni hluta 18. aldar – „Svo er hann lastsamur hann illtyngir hvern mann“ og „Skömm er að illtyngja fróman mann um óráðvendni“. Orðið er einnig í Ordabók, sem inniheldr flest fágiæt, framandi og vandskilinn ord, er verda fyrir í dønskum bókum eftir Gunnlaug Oddsen frá 1819.

Í umræðum um illtyngd var einnig spurt hvort orðið gæti ekki líka verið lýsingarorð, sem væri þá illtyngdur í karlkyni. Það orð kemur ekki fyrir í fornmáli og ekki heldur í textum frá seinni öldum eða orðabókum um síðari alda mál. Í nútímamáli koma þó fyrir nokkur lýsingarorð mynduð á þennan hátt – eintyngdur, fjöltyngdur, fleirtyngdur, margtyngdur, tvítyngdur og þrítyngdur – og illtyngdur hefur verið til því að það er nefnt í Íslenzkum rjettritunarreglum eftir Halldór Kr. Friðriksson frá 1859 þar sem verið er að mæla fyrir um ritun orða með gnd og ngd – „tyngdur, í illtyngdur, tvítyngdur, af tunga“. Það er um að gera að endurvekja nafnorðið illtyngd og ættingja þess – nafnorðið illtyngi, sögnina illtyngja og lýsingarorðið illtyngdur.