Posted on Færðu inn athugasemd

„Start your impossible“

Á undan útsendingum frá Ólympíuleikunum er oft sýnd auglýsing frá Toyota sem væntanlega styrkir útsendingarnar. Þar er íþróttafólki okkar óskað góðs gengis en endað á ensku setningunni „Start your impossible“ sem er bæði lesin og birtist með stóru letri á skjánum en er ekki þýdd á íslensku, hvorki í tali né texta. Ég sé ekki betur en þetta brjóti í bága við þriðju málsgrein sjöttu greinar Laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu: „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.“ Þessari auglýsingu er augljóslega beint til íslenskra neytenda en vissulega má halda því fram að vegna þess að það séu engar upplýsingar til neytenda í umræddri setningu skipti engu máli að hún sé ekki þýdd.

Þess vegna veit ég að ýmsum mun finnast þetta ástæðulaust nöldur um smáatriði sem engu máli skiptir – og ég skil það sjónarmið svo sem. En þetta er prinsipmál sem snýst fyrst og fremst um það hvor við sættum okkur við að erlend stórfyrirtæki ákveði það fyrir okkur að þau megi valta yfir íslensk lög og íslenska tungu – ég hef séð það haft eftir forstjóra Toyota-umboðsins að hann geti ekkert gert því að auglýsingin komi frá höfuðstöðvum Toyota og sé birt svona um allan heim. Mér finnst að íslensk fyrirtæki og Ríkisútvarpið eigi ekki að lúffa fyrir einhverjum slíkum skilyrðum – það eigi einfaldlega að hafna þeim, jafnvel þótt það kosti það að auglýsingin verði ekki notuð á Íslandi og Ríkisútvarpið missi hugsanlega af styrktarsamningi.

Posted on Færðu inn athugasemd

Auðvitað á fólk að vanda sig

Í framhaldi af fimm ára gömlum pistli sem ég endurbirti hér í gær, og viðbrögðum við honum bæði nú og fyrir fimm árum, vil ég taka fram að tilgangurinn með pistlinum var eingöngu að vekja athygli á því að ungt fólk, þar á meðal fjölmiðlafólk, er alið upp í þjóðfélagi sem er á flestum sviðum gerólíkt því sem sem var á máltökuskeiði okkar sem erum komin yfir miðjan aldur. Þess vegna er engin furða, og ekkert óeðlilegt við það, þótt unga fólkið skripli stundum á skötu í orðalagi sem tengist lífsháttum og atvinnuháttum sem það hefur engin kynni haft af – og það er ekki heldur nein furða, og ekki ámælisvert, að unga fólkið noti ýmis tilbrigði í máli sem hafa tíðkast áratugum saman og það hefur tileinkað sér á máltökuskeiði.

En tilgangur pistilsins var alls ekki að afsaka óvönduð vinnubrögð fjölmiðla eins og einhver töldu. Síður en svo – við eigum kröfu á að fólk sem hefur það að atvinnu að skrifa texta vandi sig. Annað er óvirðing og ókurteisi við lesendur. Því miður sjást alltof oft í fjölmiðlum afbrigði í stafsetningu og máli sem ekki er hægt að kalla annað en hroðvirkni og slóðaskap og eiga sér engar málsbætur. Ég veit að fjölmiðlafólk vinnur oft undir tímapressu en það er engin afsökun vegna þess á undanförnum árum hefur orðið gerbreyting í rafrænum aðgangi að hvers kyns hugbúnaði og hjálpargögnum sem auðvelda fólki að skila frá sér skammlausum texta og eru mjög fljótleg og þægileg í notkun – en greinilega er oft misbrestur á að þetta sé nýtt.

Þar má einkum nefna tvennt: Annars vegar er Málið frá Stofnun Árna Magnússonar (https://malid.is/) þar sem er ókeypis aðgangur að Íslenskri nútímamálsorðabók, Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, Íslenskri stafsetningarorðabók, Íslensku orðaneti, Málfarsbankanum, Íðorðabankanum, Íslenskri orðsifjabók, Ritmálssafni, ISLEX-orðabókinni milli íslensku og Norðurlandamála, o.fl. Hins vegar er Málstaður frá Miðeind (https://malstadur.mideind.is/) þar sem m.a. er boðið upp á málrýni, þ.e. yfirlestur á stafsetningu og málfari (Málfríður), talgreiningu (Hreimur) og spurningasvörun (Svarkur). Aðgangur er ókeypis, en einnig er hægt að kaupa áskrift og fá þá aðgang að meiri þjónustu.

Mér finnst ástæða til að hvetja fjölmiðlafólk – og auðvitað öll sem vinna með tungumálið – til að nýta sér þessi hjálpartæki. En jafnframt finnst mér sjálfsagt að hvetja almenna málnotendur til að benda fjölmiðlafólki á það sem betur mætti fara – að því tilskildu að slíkum ábendingum sé komið á framfæri við þau sem hlut eiga að máli, í stað þess að birta þær í opnum hópum á netinu til að hneykslast og í leiðinni upphefja sig sjálf en niðurlægja höfund textans. Ég hef oft skrifað fjölmiðlafólki og bent á einhver atriði sem mætti laga og undantekningarlaust hefur verið brugðist vel við – ég hef fengið þakkir og viðkomandi atriði verið breytt umsvifalaust. Ég hef þá trú að fólk vilji yfirleitt vanda sig og betra sé að liðsinna því við það en skammast.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að heitbinda sig til

Ég rakst á setninguna „Bergþór Másson hlaðvarpsstjórnandi hefur heitbundið sig til að borða ekkert nema kjöt, smjör og egg í hálft ár“ á Vísi í gær. Ég hélt fyrst að þarna væri verið að rugla saman sögnunum heitbinda og skuldbinda vegna þess að lýsingarorðið heitbundinn þekkti ég aðeins í merkingunni 'trúlofaður' eins og það er skýrt bæði í Íslenskri nútímamálsorðabók og Íslenskri orðabók. Samsvarandi sögn kemur reyndar aðallega fram í miðmyndinni heitbindast sem er skýrð 'trúlofast' í Íslenskri orðabók en germyndin kemur líka fyrir í sömu merkingu – „Í vor tók hann þá ákvörðun að heitbinda sig ágætri stúlku“ segir í Munin 1958, „Ungur skipstjóri tekur upp á því að heitbinda sig ungri stúlku“ segir í Þjóðviljanum 1964.

En germyndin heitbinda hefur reyndar víðari merkingu – hún er skýrð 'binda heiti um, lofa' í Íslenskri orðabók. Við athugun kom í ljós að sambandið heitbinda sig til er gamalt í málinu í nákvæmlega sömu merkingu og það hefur í umræddri frétt. Í Sameiningunni 1886 segir: „stúdentarnir þyrptust fram til þess að heitbinda sig til að vinna fyrir Krist.“ Í Fróða 1885 segir: „ekki gæti jeg gengið í flokkinn, ef jeg þyrfti að heitbinda mig til að halda fram öllu því sem þar er nefnt.“ Í Sameiningunni 1897 segir: „Séra Jón Helgason skýrir frá því […] að nokkrir prestar hefði heitbundið sig til þess að veita honum ofanígjöf.“ Í Aldamótum 1897 segir: „þeir menn […] hafa […] að sjálfsögðu heitbundið sig til að reynast henni hollir og trúir.“

Flest dæmin um heitbinda sig til á tímarit.is eru frá síðustu áratugum nítjándu aldar. Eitt dæmi er frá miðri tuttugustu öld – í Stjörnunni 1952 segir: „Hann mundi árið 1953 heitbinda sig til að verða munkur og ganga í klaustur.“ Í Risamálheildinni er dæmi úr Vísi 2014: „Agi þýðir að segja satt, að heitbinda sig til einhvers, að mæta fyrir sig og aðra í það sem við höfum heitbundið okkur til að gera.“ Í öllum undanfarandi dæmum myndi ég nota sambandið skuldbinda sig sem er skýrt ‚lofa, heita e-u fastlega‘ í Íslenskri orðabók. En „ruglingurinn“ sem ég þóttist sjá í umræddri frétt Vísis reyndist sem sé enginn ruglingur, heldur eiga sér skýr, gömul fordæmi. Þetta er góð áminning um að hrapa ekki að ályktunum og fara sér hægt í hneykslun.