Að heitbinda sig til
Ég rakst á setninguna „Bergþór Másson hlaðvarpsstjórnandi hefur heitbundið sig til að borða ekkert nema kjöt, smjör og egg í hálft ár“ á Vísi í gær. Ég hélt fyrst að þarna væri verið að rugla saman sögnunum heitbinda og skuldbinda vegna þess að lýsingarorðið heitbundinn þekkti ég aðeins í merkingunni 'trúlofaður' eins og það er skýrt bæði í Íslenskri nútímamálsorðabók og Íslenskri orðabók. Samsvarandi sögn kemur reyndar aðallega fram í miðmyndinni heitbindast sem er skýrð 'trúlofast' í Íslenskri orðabók en germyndin kemur líka fyrir í sömu merkingu – „Í vor tók hann þá ákvörðun að heitbinda sig ágætri stúlku“ segir í Munin 1958, „Ungur skipstjóri tekur upp á því að heitbinda sig ungri stúlku“ segir í Þjóðviljanum 1964.
En germyndin heitbinda hefur reyndar víðari merkingu – hún er skýrð 'binda heiti um, lofa' í Íslenskri orðabók. Við athugun kom í ljós að sambandið heitbinda sig til er gamalt í málinu í nákvæmlega sömu merkingu og það hefur í umræddri frétt. Í Sameiningunni 1886 segir: „stúdentarnir þyrptust fram til þess að heitbinda sig til að vinna fyrir Krist.“ Í Fróða 1885 segir: „ekki gæti jeg gengið í flokkinn, ef jeg þyrfti að heitbinda mig til að halda fram öllu því sem þar er nefnt.“ Í Sameiningunni 1897 segir: „Séra Jón Helgason skýrir frá því […] að nokkrir prestar hefði heitbundið sig til þess að veita honum ofanígjöf.“ Í Aldamótum 1897 segir: „þeir menn […] hafa […] að sjálfsögðu heitbundið sig til að reynast henni hollir og trúir.“
Flest dæmin um heitbinda sig til á tímarit.is eru frá síðustu áratugum nítjándu aldar. Eitt dæmi er frá miðri tuttugustu öld – í Stjörnunni 1952 segir: „Hann mundi árið 1953 heitbinda sig til að verða munkur og ganga í klaustur.“ Í Risamálheildinni er dæmi úr Vísi 2014: „Agi þýðir að segja satt, að heitbinda sig til einhvers, að mæta fyrir sig og aðra í það sem við höfum heitbundið okkur til að gera.“ Í öllum undanfarandi dæmum myndi ég nota sambandið skuldbinda sig sem er skýrt ‚lofa, heita e-u fastlega‘ í Íslenskri orðabók. En „ruglingurinn“ sem ég þóttist sjá í umræddri frétt Vísis reyndist sem sé enginn ruglingur, heldur eiga sér skýr, gömul fordæmi. Þetta er góð áminning um að hrapa ekki að ályktunum og fara sér hægt í hneykslun.