Auðvitað á fólk að vanda sig

Í framhaldi af fimm ára gömlum pistli sem ég endurbirti hér í gær, og viðbrögðum við honum bæði nú og fyrir fimm árum, vil ég taka fram að tilgangurinn með pistlinum var eingöngu að vekja athygli á því að ungt fólk, þar á meðal fjölmiðlafólk, er alið upp í þjóðfélagi sem er á flestum sviðum gerólíkt því sem sem var á máltökuskeiði okkar sem erum komin yfir miðjan aldur. Þess vegna er engin furða, og ekkert óeðlilegt við það, þótt unga fólkið skripli stundum á skötu í orðalagi sem tengist lífsháttum og atvinnuháttum sem það hefur engin kynni haft af – og það er ekki heldur nein furða, og ekki ámælisvert, að unga fólkið noti ýmis tilbrigði í máli sem hafa tíðkast áratugum saman og það hefur tileinkað sér á máltökuskeiði.

En tilgangur pistilsins var alls ekki að afsaka óvönduð vinnubrögð fjölmiðla eins og einhver töldu. Síður en svo – við eigum kröfu á að fólk sem hefur það að atvinnu að skrifa texta vandi sig. Annað er óvirðing og ókurteisi við lesendur. Því miður sjást alltof oft í fjölmiðlum afbrigði í stafsetningu og máli sem ekki er hægt að kalla annað en hroðvirkni og slóðaskap og eiga sér engar málsbætur. Ég veit að fjölmiðlafólk vinnur oft undir tímapressu en það er engin afsökun vegna þess á undanförnum árum hefur orðið gerbreyting í rafrænum aðgangi að hvers kyns hugbúnaði og hjálpargögnum sem auðvelda fólki að skila frá sér skammlausum texta og eru mjög fljótleg og þægileg í notkun – en greinilega er oft misbrestur á að þetta sé nýtt.

Þar má einkum nefna tvennt: Annars vegar er Málið frá Stofnun Árna Magnússonar (https://malid.is/) þar sem er ókeypis aðgangur að Íslenskri nútímamálsorðabók, Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, Íslenskri stafsetningarorðabók, Íslensku orðaneti, Málfarsbankanum, Íðorðabankanum, Íslenskri orðsifjabók, Ritmálssafni, ISLEX-orðabókinni milli íslensku og Norðurlandamála, o.fl. Hins vegar er Málstaður frá Miðeind (https://malstadur.mideind.is/) þar sem m.a. er boðið upp á málrýni, þ.e. yfirlestur á stafsetningu og málfari (Málfríður), talgreiningu (Hreimur) og spurningasvörun (Svarkur). Aðgangur er ókeypis, en einnig er hægt að kaupa áskrift og fá þá aðgang að meiri þjónustu.

Mér finnst ástæða til að hvetja fjölmiðlafólk – og auðvitað öll sem vinna með tungumálið – til að nýta sér þessi hjálpartæki. En jafnframt finnst mér sjálfsagt að hvetja almenna málnotendur til að benda fjölmiðlafólki á það sem betur mætti fara – að því tilskildu að slíkum ábendingum sé komið á framfæri við þau sem hlut eiga að máli, í stað þess að birta þær í opnum hópum á netinu til að hneykslast og í leiðinni upphefja sig sjálf en niðurlægja höfund textans. Ég hef oft skrifað fjölmiðlafólki og bent á einhver atriði sem mætti laga og undantekningarlaust hefur verið brugðist vel við – ég hef fengið þakkir og viðkomandi atriði verið breytt umsvifalaust. Ég hef þá trú að fólk vilji yfirleitt vanda sig og betra sé að liðsinna því við það en skammast.