„Start your impossible“

Á undan útsendingum frá Ólympíuleikunum er oft sýnd auglýsing frá Toyota sem væntanlega styrkir útsendingarnar. Þar er íþróttafólki okkar óskað góðs gengis en endað á ensku setningunni „Start your impossible“ sem er bæði lesin og birtist með stóru letri á skjánum en er ekki þýdd á íslensku, hvorki í tali né texta. Ég sé ekki betur en þetta brjóti í bága við þriðju málsgrein sjöttu greinar Laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu: „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.“ Þessari auglýsingu er augljóslega beint til íslenskra neytenda en vissulega má halda því fram að vegna þess að það séu engar upplýsingar til neytenda í umræddri setningu skipti engu máli að hún sé ekki þýdd.

Þess vegna veit ég að ýmsum mun finnast þetta ástæðulaust nöldur um smáatriði sem engu máli skiptir – og ég skil það sjónarmið svo sem. En þetta er prinsipmál sem snýst fyrst og fremst um það hvor við sættum okkur við að erlend stórfyrirtæki ákveði það fyrir okkur að þau megi valta yfir íslensk lög og íslenska tungu – ég hef séð það haft eftir forstjóra Toyota-umboðsins að hann geti ekkert gert því að auglýsingin komi frá höfuðstöðvum Toyota og sé birt svona um allan heim. Mér finnst að íslensk fyrirtæki og Ríkisútvarpið eigi ekki að lúffa fyrir einhverjum slíkum skilyrðum – það eigi einfaldlega að hafna þeim, jafnvel þótt það kosti það að auglýsingin verði ekki notuð á Íslandi og Ríkisútvarpið missi hugsanlega af styrktarsamningi.