Að hitta læknirinn
Alltaf öðru hverju sé ég amast við „rangri“ beygingu karlkynsorða sem enda á -ir í nefnifalli eintölu – orða eins og frystir, hellir, læknir o.s.frv. Í þessum orðum endar stofninn á -i-, frysti-, helli-, lækni-, en -r er ending nefnifalls og á því ekki að koma fram í öðrum beygingarmyndum. Þolfallið er því frysti, helli, lækni – og þágufallið líka því að hin venjulega þágufallsending –i getur ekki bæst við stofn sem endar á -i. Eignarfallið er svo frystis, hellis, læknis, en í fleirtölunni fellur -i alltaf brott úr stofninum vegna þess að allar beygingarendingar hefjast á sérhljóði og tvö áherslulaus sérhljóð geta ekki staðið saman. Við fáum því frystar, um frysta, frá frystum, til frysta – og samsvarandi fyrir hin orðin. Þannig beygðust orð af þessu tagi í fornu máli.
En á fimmtándu öld fór beyging þessara orða að breytast og myndir eins og hellir í þolfalli og hellirs í eignarfalli að koma upp, og þessu ferli lauk ekki fyrr en á sautjándu öld. Ástæðurnar fyrir því eru ýmsar hljóðbreytingar sem höfðu áhrif á beygingu sterkra karlkynsorða og ollu því að það var ekki lengur augljóst fyrir málnotendur að -r væri ending nefnfalls, heldur lá beinna við að álykta að það væri hluti stofnsins og ætti því að haldast í allri beygingunni – eins og í t.d. akur. Hreinn Benediktsson hefur rakið þessa þróun skilmerkilega í grein í Afmælisriti Jóns Helgasonar frá 1969 og hér er ekki vettvangur til að fara nánar út í það. Aðalatriðið er að breyting var fullkomlega eðlileg og rökrétt afleiðing af öðrum breytingum í málinu.
Í málfræði Jóns Magnússonar frá fyrri hluta átjándu aldar, Grammatica Islandica, er breytingin gengin í gegn. Þar segir (í þýðingu Jóns Axels Harðarsonar frá 1997): „Orð, sem enda á -er, halda sérhljóði lokasamstöfu nefnifalls í allri beygingunni, sem hér: herser, þf. herser, þgf. herser, ef. hersers; flt.nf. herserar, þf. hersera, þgf. herserum, ef. hersera.“ Síðan nefnir Jón hvernig orðin beygðust í fornmáli, en þessi beyging virðist hafa verið einhöfð á hans dögum – og væntanlega fram í lok nítjándu aldar eða byrjun þeirrar tuttugustu í ritmáli, og mun lengur í talmáli. En á seinni hluta nítjándu aldar var farið að amast við breyttu beygingunni – Halldór Kr. Friðriksson gefur aðeins fornmálsbeyginguna í Íslenzkri málmyndalýsingu frá 1861.
Jón Ólafsson segir í Litlu móðurmálsbókinni frá 1920: „Rangmælis-myndir eru: læknirs, læknirar o.s.frv.; sömuleiðis: hellirar (og) hellrar.“ Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 eru myndir með -r í eignarfalli eintölu og nefnifalli fleirtölu gefnar af flestum orðum af þessu tagi en merktar sem talmál. Valtýr Guðmundsson gefur fornmálsbeyginguna á læknir í Islandsk Grammatik frá 1922 en segir svo um sambærileg orð: „de alle […] ogsaa (i Talespr.) kan böjes som bjór […] idet -r betragtes som hörende til stammen.“ Jakob Jóh. Smári segir í Íslenzkri málfræði frá 1932: „Beygingin er þannig í fornmáli og í ritmáli nú (talmáls-myndir í svigum fyrir aftan)“ – og sýnir svo fornmálsbeyginguna en yngri beyginguna innan sviga.
Baráttan við yngri beyginguna hefur staðið í hálfa aðra öld. Í fyrstu útgáfu af Íslenzkri málfræði Björns Guðfinnssonar frá 1937 segir um læknir og sambærileg orð: „Slík orð eru oft ranglega beygð.“ Í Íslenzkri málfræði Halldórs Halldórssonar frá 1956 segir: „Fjölmargir beygja þessi orð eins og r-ið væri stofnlægt […]. Þótt finna megi gömul dæmi um þessa beygingu, er hún ekki talin rétt.“ Gísli Jónsson sagði þó í Morgunblaðinu 1991: „Þessi „læknira“-fleirtala hefur nú verið bannfærð og henni að mestu útrýmt, og ekki ætla ég að mæla með henni. Sum orð í þessum beygingaflokki eru þó þess eðlis, að slík fleirtala er myndarlegri og „áhrifameiri“ einhvern veginn.“ Gísli nefnir þar orð eins og drellirar í stað drellar og skelmirar í stað skelmar.
Ég hef áður sagt gamla sögu af því þegar ég hitti afa heitinn, sem var fæddur 1898, einhvern tíma á námsárum mínum. Hann vissi auðvitað að ég væri í íslenskunámi og fór að ræða við mig um málfar og býsnast yfir því hvað mál unglinga í Reykjavík væri orðið spillt – t.d. segðu þeir nú mér langar, mér vantar og annað eftir því. Ég spurði á móti hvort honum fyndist þá í lagi að tala um að hitta læknirinn. Hann varð hvumsa við, en sagðist ekki vita betur en það væri fullkomlega eðlilegt og rétt mál. Ég sagði honum þá að það mætti ekki á milli sjá hvor „villan“ þætti verri í setningunni mér langar að hitta læknirinn. Hann þagnaði um stund, en kvað svo upp úr með það að seinni villan væri miklu minni því að hún væri norðlenska en hin sunnlenska.
Hvorug „villan“ er reyndar landshlutabundin, en það er annað mál. En ég er sem sagt alinn upp við „nýju“ eða „röngu“ beyginguna á læknir og hliðstæðum orðum – afi og bræður hans notuðu hana, og ég held að foreldrar mínir hafi oftast gert það líka. Ég hélt samt lengi vel að ég hefði alltaf notað „réttu“ beyginguna en í dagbók sem ég hélt um tíma þegar ég var þrettán ára fann ég setningarnar „Setti hraðamælir á hjólið“ og „Gerði við hraðamælirinn“. Þar fór það. En vegna þessa hlýnar mér alltaf um hjartaræturnar þegar ég heyri „röngu“ beyginguna en fæ sting í hjartað þegar ég sé amast við henni. Þessi beyging á sér fimm hundruð ára sögu og var nær einhöfð í tvær eða þrjár aldir. Það er fráleitt að fordæma hana og tala um hana sem „rangt mál.“