Kirkjugarðar og grafreitir
Orðið garður hefur tvær meginmerkingar í íslensku – 'ræktað svæði (t.d. kringum hús) með runnum, blómum og trjám' og 'þykkur veggur hlaðinn úr steini' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. Samsetningin kirkjugarður hefur einnig tvær merkingar sem svara til þessa. Orðið kemur fyrir í fornu máli og merkir þar annars vegar 'veggur utan um kirkju' og hins vegar 'afgirtur grafreitur kringum kirkju' segir í orðabók Fritzners. Fyrrnefnda merkingin var algeng áður fyrr – „Bænhús er sagt hjer hafi að fornu verið, og er hjer ein dálítil girðíng við bæinn, sem kallast kirkjugarður“ segir t.d. í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, og „undir kirkjugarðinum þar sem hann var nýhlaðinn“ segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar.
Í seinni tíð hefur orðið hins vegar nær alltaf síðarefndu merkinguna, og var yfirleitt notað bókstaflega, þ.e. um garð kringum kirkju. Fyrsti kirkjugarðurinn sem kirkja stóð ekki í var væntanlega kirkjugarðurinn við Suðurgötu í Reykjavík, Hólavallagarður, sem var tekinn í notkun 1838. Á tuttugustu öld var svo gerður fjöldi kirkjugarða í þorpum og bæjum án þess að kirkja stæði í görðunum, en til sveita eru kirkjugarðar yfirleitt ennþá kringum kirkjur. En vegna þess að hlutverk garðanna er óbreytt hefur orðið haldist þrátt fyrir að ekki sé alltaf hægt að skilja það bókstaflega núorðið. Nú er orðabókaskýring orðsins því ekki tengd kirkjum sérstaklega, heldur er 'grafreitur þar sem látnir eru jarðsettir' í Íslenskri orðabók.
Það er vitanlega ekkert óeðlilegt og fyrir því eru ótal fordæmi í málinu að eðli fyrirbæris breytist en heiti þess haldist þótt það sé ekki lengur „rökrétt“. Ég hef oft tekið dæmi af orðinu eldhús – í því felast bæði eldur og hús, en nú á tímum er sjaldnast eldað yfir opnum eldi, og eldhúsið er ekki sérstakt hús eins og eitt sinn var, heldur herbergi eða svæði í húsi. Samt finnst okkur engin ástæða til að skipta um orð og þetta truflar okkur ekkert. Það er hægt að líta á orðið kirkjugarður sem orð yfir grafreit án þess að tengja það við önnur orð og ég held að tengingin við kirkju sem hús trufli fólk ekki – valdi því ekki að fólki finnist óeðlilegt að tala um kirkjugarð þótt engin sé kirkjan. En kirkja er ekki bara hús, heldur líka trúarstofnun og þar kann að gegna öðru máli.
Vegna ákvæða laga um að skylt sé „að greftra lík í lögmætum kirkjugarði“ er fólk sem ekki játar kristna trú jarðsett í kirkjugörðum, og skiljanlegt að einhverjum finnist tenging þeirra við kristni óheppileg. Þetta kom fram í sjónvarpsviðtali við framkvæmdastjóra Kirkjugarða Reykjavíkur í gær þar sem hann benti á að garðarnir væru ekki aðeins fyrir kristið fólk og sagði: „Orðið er til dæmis bara eitt. Kirkjugarður. Á þetta að heita kirkjugarður? Á þetta að heita minningarreitur? Grafreitur?“ Hann benti einnig á „að kirkjugarðarnir séu sjálfseignarstofnun, sem sé ótengd trúarfélagi. Orðið kirkjugarður geti hins vegar gefið til kynna að þeir séu tengdir þjóðkirkjunni“. Út af þessu viðtali hefur orðið mikið fjaðrafok og sumt fólk farið fram úr sér.
Vitanlega er eðlilegt að fólki sé ekki sama um orð sem hefur verið í málinu í þúsund ár og er órjúfanlegur hluti af íslenskum orðaforða og íslenskri menningu. En framkvæmdastjórinn var ekki að leggja til að þessu orði væri hafnað þótt hann velti því fyrir sér hvort það væri heppilegt í ákveðnu samhengi, og það er ekkert óeðlilegt að skoða hvort stundum væri e.t.v. betra að nota eitthvert annað orð sem hefði engin tengsl við tiltekin trúarbrögð, hvorki sögulega né samtímalega. Mér finnst orðið grafreitur sem framkvæmdastjórinn nefndi koma vel til greina. Það er lipurt og lýsandi, tengist engum sérstökum trúarbrögðum og hefur lengi verið notað um heimagrafreiti sem eru í raun kirkjugarðar án kirkju – eins og margir kirkjugarðar nútímans.
Tilvikum af þessu tagi, þar sem gamalgróin orð verða óheppileg eða ónothæf að sumra mati vegna einhverra breytinga á þjóðfélagi eða viðhorfum, hefur farið fjölgandi á undanförnum árum, og mun halda áfram að fjölga – það er óhjákvæmilegur fylgifiskur aukinnar fjölbreytni í íbúasamsetningu og menningu, sem og aukinna réttinda og aukins sýnileika ýmissa jaðarsettra hópa. Þarna verða iðulega árekstrar milli ólíkra sjónarmiða – annars vegar þeirra sem vilja breyta orðum eða orðanotkun af tillitssemi við ákveðna hópa og hins vegar þeirra sem vilja halda í málhefðina og hafna því að breyta málinu vegna ofurviðkvæmni einhverra. Á þessu er engin einföld lausn en mikilvægt að aðilar ræði málin og reyni að skilja sjónarmið hvor annars.