Posted on Færðu inn athugasemd

Víðförli víkinga

Á yfirferð um vefmiðla áðan staldraði ég við fyrirsögnina „Sjö nýfundin armbönd frá víkingatímum merk heimild um víðförli þeirra“ á vef Ríkisútvarpsins. Orðmyndin víðförli er vitanlega algeng sem beygingarmynd (karlkyn í veikri beygingu) af lýsingarorðinu víðförull og einnig notuð sem viðurnefni – Þorvaldur víðförli, Eiríkur víðförli og fleiri. En í umræddri fyrirsögn er greinilega um nafnorð að ræða og það er ekki algengt – er t.d. ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók en hins vegar í Íslenskri orðabók, skýrt 'það að vera víðförull' og gefið bæði sem kvenkyns- og hvorugkynsorð. Í fyrirsögninni er orðið í þolfalli og því fylgir ekkert ákvæðisorð þannig að ómögulegt er að sjá hvort um kvenkyn eða hvorugkyn er að ræða.

Orðið víðförli kemur fyrir í fornu máli og er þar kvenkynsorð – „setti þar sterka stólpa til marks sinnar víðförli“ segir í Trójumanna sögu. Flest nýrri dæmi þar sem hægt er að greina kynið eru líka kvenkyns. Í Vísi 1933 segir: „þá hefur honum komið víðförlin að góðum notum.“ Í Æskunni 1937 segir: „Vegna víðförli Jóns var Kátur orðinn furðu þekktur.“ Í Vísi 1943 segir: „Frú Inga Laxness nýtur í hlutverki sínu víðförli og tungumálakunnátttu.“ Í Morgunblaðinu 1997 segir: „Víðförli Steins Elliða er hins vegar frekar gefin til kynna með öðrum hætti.“ Í Morgunblaðinu 2002 segir: „Sá er mikill fagurkeri og nýtir víðförli sína sem skipstjóri.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 2003 segir: „Hefur þessi víðförli komið þér að gagni við þýðingarstörfin?“

Eina ótvíræða dæmið sem ég hef fundið um víðförli í hvorugkyni er í kvæðinu „Norðmenn“ eftir Stephan G. Stephansson í Heimskringlu 1925: „Ennþá vakir vorra feðra andi: / Víðförlið og trú á eigin kraft.“ En vegna þess að greinislausar myndir orðsins í kvenkyni og hvorugkyni falla saman í öllum föllum nema eignarfalli er sjaldnast hægt að ákvarða kyn þess með vissu. Það á við um dæmi eins og „Víðförli höf. er á marga fiska“ í Lögréttu 1917, „En ein stjett manna hefir þó jafnan tekið flestum öðrum fram, að því er víðförli snertir“ í Fálkanum 1931, „Til þess að öðlast rétt sjálfs- og gildisskyn þarf að rækta vit sitt með víðförli“ í Skírni 2005 og „Dyggðir kvenna voru ekki útrásargjarnar líkt og hugrekki og víðförli“ í Lesbók Morgunblaðsins 2007.

Vegna þess að aðeins hefur fundist eitt ótvírætt dæmi um hvorugkynið verður að telja líklegt að flest eða öll dæmi þar sem ekki er hægt að ákvarða kynið séu í raun hugsuð sem kvenkyns. Reyndar er einnig til karlkynsorðið víðförli en það merkir annað, þ.e. 'víðförull maður' – „Þeir „lærðu víðförlar“ Banks og Solander heimsóttu Bjarna landlækni Pálsson að Nesi við Seltjörn“ segir t.d. í Heilbrigðu lífi 1945. En kvenkynsorðið víðförli er mjög sjaldgæft – aðeins eitt dæmi í Ritmálssafni Árnastofnunar, dæmin á tímarit.is eru aðeins milli tuttugu og þrjátíu, og í Risamálheildinni eru aðeins fimm dæmi um orðið frá þessari öld. Þess vegna kom skemmtilega á óvart að sjá orðið í áðurnefndri fyrirsögn – þetta er gott orð sem mætti nota meira.

Posted on Færðu inn athugasemd

Lágvöruverðsverslun, lágvöruverslun, lágverðsverslun

Í tengslum við opnun verslunarinnar Prís hafa orðin lágvöruverðsverslun og lágvöruverslun enn einu sinni komið til umræðu í málfarshópum. Það er svo sem ekki furða – þetta eru stórskrítin orð. Orðið lágvöruverslun er ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók en lágvöruverðsverslun er þar hins vegar og skýrt 'stórverslun þar sem vöruverð er lágt en vöruframboð takmarkað og þjónusta ekki mikil'. Þriðja orðið af þessum toga er lágverðsverslun – það er ekki í almennum orðabókum en er hins vegar að finna í Hagfræðiorðasafni í Íðorðabankanum í merkingunni 'discount store'. Öll þessi orð eru álíka gömul í málinu, frá þeim tíma sem fyrirbærið sem þau vísa til var að ryðja sér til rúms á árunum upp úr 1990.

Margsamsett orð eru venjulega mynduð þannig að einum og einum orðhluta í einu er bætt framan eða aftan við orð sem fyrir er í málinu – í skrifstofubúnaður er búnaður bætt við samsetta orðið skrifstofa, í súpueldhús er súpu bætt framan við eldhús, o.s.frv. En hvorki *lágvöruverð né *lágvara er til, og ekki heldur *verðsverslun eða *vöruverðsverslun – og svo sem ekki ljóst hvað þessi orð gætu merkt, ef til væru. Hlutarnir sem lágvöruverslun og lágvöruverðsverslun virðast vera búnir til úr koma því aldrei fyrir einir og sér. Aftur á móti er lágverðsverslun eðlileg orðmyndun því að þótt orðið lágverð sé sjaldgæft er það til – „við höfum tekið allan reksturinn á Miklagarði við Sund og breytt honum í markað með lágverð“ segir t.d. í Alþýðublaðinu 1992.

Þrátt fyrir þetta er lágverðsverslun langsjaldgæfast af orðunum þremur – um það eru rúm 300 dæmi í Risamálheildinni, rúm 1500 um lágvöruverslun og rúm 2000 um lágvöruverðsverslun. Víkverji í Morgunblaðinu hefur margsinnis amast við þessum orðum og sagði t.d. 2008: „Orðið lágvöruverð er ekki orð heldur orðskrípi“ og „Ef rýnt er nánar í orðskrípið lágvöruverslun þá mætti halda að til væri ákveðin vörutegund sem kölluð væri lágvara.“ Í Málfarsbankanum segir: „Betur fer á að segja sparverslun en „lágvöruverðsverslun“.“ Orðið Sparverslun var notað sem sérnafn á fyrsta áratugi þessarar aldar en ég finn aðeins eitt dæmi um sparverslun sem samnafn, í DV 2013: „Flest þau sveitarfélaga sem hér eru skoðuð búa að einni sparverslun eða fleiri.“

Það er eðlilegt að velta því fyrir sér hvernig orðin lágvöruverslun og lágvöruverðsverslun hafi orðið til, þvert á íslenskar orðmyndunarreglur að því er virðist. Þá er rétt að athuga að það sem einkennir fyrirbærið sem orðin vísa til er fernt – þetta er verslun sem selur vörur á verði sem er lágt. Allir þessir merkingarþættir koma fram í orðinu lágvöruverðsverslun þótt málfræðileg uppbygging orðsins sé ekki samkvæmt venjulegum reglum – en frá sjónarmiði merkingarlegs gagnsæis má halda því fram að þetta sé mjög gott orð. Sama gildir um lágverðsverslun – þar vantar að vísu vöru en það segir sig sjálft að verð hefur þarna merkinguna 'vöruverð'. Í orðið lágvöruverslun vantar hins vegar merkingarþáttinn verð sem er eiginlega grundvallaratriði.

Þótt orðin lágvöruverslun og lágvöruverðsverslun séu „órökrétt“ og myndun þeirra ekki í samræmi við íslenskar orðmyndunarreglur hafa þau unnið sér sess í málinu og við vitum öll hvað þau merkja. Ótal orð í daglegu máli okkar eru „órökrétt“ ef við förum að leysa þau upp og greina merkingu einstakra orðhluta, en það truflar okkur ekki vegna þess að við þekkjum þau og skynjum sem heild, og vitum til hvers þau vísa. Ef þessi orð væru að koma upp núna fyndist mér ástæða til að reyna að finna einhver betri. En þegar orð hafa verið notuð áratugum saman og eru vel þekkt er yfirleitt þýðingarlaust og jafnvel til bölvunar að reyna að losna við þau. Mér finnst samt full ástæða til að halda myndinni lágverðsverslun á lofti.