Lágvöruverðsverslun, lágvöruverslun, lágverðsverslun
Í tengslum við opnun verslunarinnar Prís hafa orðin lágvöruverðsverslun og lágvöruverslun enn einu sinni komið til umræðu í málfarshópum. Það er svo sem ekki furða – þetta eru stórskrítin orð. Orðið lágvöruverslun er ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók en lágvöruverðsverslun er þar hins vegar og skýrt 'stórverslun þar sem vöruverð er lágt en vöruframboð takmarkað og þjónusta ekki mikil'. Þriðja orðið af þessum toga er lágverðsverslun – það er ekki í almennum orðabókum en er hins vegar að finna í Hagfræðiorðasafni í Íðorðabankanum í merkingunni 'discount store'. Öll þessi orð eru álíka gömul í málinu, frá þeim tíma sem fyrirbærið sem þau vísa til var að ryðja sér til rúms á árunum upp úr 1990.
Margsamsett orð eru venjulega mynduð þannig að einum og einum orðhluta í einu er bætt framan eða aftan við orð sem fyrir er í málinu – í skrifstofubúnaður er búnaður bætt við samsetta orðið skrifstofa, í súpueldhús er súpu bætt framan við eldhús, o.s.frv. En hvorki *lágvöruverð né *lágvara er til, og ekki heldur *verðsverslun eða *vöruverðsverslun – og svo sem ekki ljóst hvað þessi orð gætu merkt, ef til væru. Hlutarnir sem lágvöruverslun og lágvöruverðsverslun virðast vera búnir til úr koma því aldrei fyrir einir og sér. Aftur á móti er lágverðsverslun eðlileg orðmyndun því að þótt orðið lágverð sé sjaldgæft er það til – „við höfum tekið allan reksturinn á Miklagarði við Sund og breytt honum í markað með lágverð“ segir t.d. í Alþýðublaðinu 1992.
Þrátt fyrir þetta er lágverðsverslun langsjaldgæfast af orðunum þremur – um það eru rúm 300 dæmi í Risamálheildinni, rúm 1500 um lágvöruverslun og rúm 2000 um lágvöruverðsverslun. Víkverji í Morgunblaðinu hefur margsinnis amast við þessum orðum og sagði t.d. 2008: „Orðið lágvöruverð er ekki orð heldur orðskrípi“ og „Ef rýnt er nánar í orðskrípið lágvöruverslun þá mætti halda að til væri ákveðin vörutegund sem kölluð væri lágvara.“ Í Málfarsbankanum segir: „Betur fer á að segja sparverslun en „lágvöruverðsverslun“.“ Orðið Sparverslun var notað sem sérnafn á fyrsta áratugi þessarar aldar en ég finn aðeins eitt dæmi um sparverslun sem samnafn, í DV 2013: „Flest þau sveitarfélaga sem hér eru skoðuð búa að einni sparverslun eða fleiri.“
Það er eðlilegt að velta því fyrir sér hvernig orðin lágvöruverslun og lágvöruverðsverslun hafi orðið til, þvert á íslenskar orðmyndunarreglur að því er virðist. Þá er rétt að athuga að það sem einkennir fyrirbærið sem orðin vísa til er fernt – þetta er verslun sem selur vörur á verði sem er lágt. Allir þessir merkingarþættir koma fram í orðinu lágvöruverðsverslun þótt málfræðileg uppbygging orðsins sé ekki samkvæmt venjulegum reglum – en frá sjónarmiði merkingarlegs gagnsæis má halda því fram að þetta sé mjög gott orð. Sama gildir um lágverðsverslun – þar vantar að vísu vöru en það segir sig sjálft að verð hefur þarna merkinguna 'vöruverð'. Í orðið lágvöruverslun vantar hins vegar merkingarþáttinn verð sem er eiginlega grundvallaratriði.
Þótt orðin lágvöruverslun og lágvöruverðsverslun séu „órökrétt“ og myndun þeirra ekki í samræmi við íslenskar orðmyndunarreglur hafa þau unnið sér sess í málinu og við vitum öll hvað þau merkja. Ótal orð í daglegu máli okkar eru „órökrétt“ ef við förum að leysa þau upp og greina merkingu einstakra orðhluta, en það truflar okkur ekki vegna þess að við þekkjum þau og skynjum sem heild, og vitum til hvers þau vísa. Ef þessi orð væru að koma upp núna fyndist mér ástæða til að reyna að finna einhver betri. En þegar orð hafa verið notuð áratugum saman og eru vel þekkt er yfirleitt þýðingarlaust og jafnvel til bölvunar að reyna að losna við þau. Mér finnst samt full ástæða til að halda myndinni lágverðsverslun á lofti.