Skúrinn, skúrin – og skúrið
Í Íslenskri nútímamálsorðabók fær nafnorðið skúr tvær flettur – annars vegar karlkynsorð sem skýrt er 'lítil og óvönduð bygging, einkum til geymslu' og hins vegar kvenkynsorð sem skýrt er 'regn sem stendur fremur stutta stund í einu'. Þetta samræmist væntanlega málnotkun þorra málnotenda en í Íslenskri orðsifjabók kemur fram að síðarnefnda orðið er stundum haft í karlkyni, og einnig er fyrrnefnda orðið stundum í kvenkyni en sú notkun er sögð staðbundin. Þar kemur einnig fram að orðin eiga sér mismunandi uppruna sögulega séð en hafa fallið saman í íslensku vegna ýmissa hljóðbreytinga. Þau eru misgömul í málinu – síðarnefnda orðið er algengt í fornu máli en elstu dæmi um það fyrrnefnda eru frá því um miðja átjándu öld.
Í grein á Vísindavefnum um síðarnefnda orðið segir Guðrún Kvaran: „Notkunin var áður fyrr nokkuð staðbundin. Karlkynið var einkum notað á Norðurlandi, það er einhverjir skúrar, en kvenkynið sunnanlands, einhverjar skúrir.“ Þetta er gamalt – í handriti frá um 1700 segir: „Skur er fyrir nordann mascul. hann skurinn, mikill skur. fyrir vestan og sunnan fæm. hun skurin, mikil skur“ og í Skýríngum yfir fornyrði lögbókar þeirrar, er Jónsbók kallast eftir Pál Vídalín frá upphafi 18. aldar segir: „Norðlínga kennum vér af generibus vocum grammaticis, svosem „skúr“ er hjá þeim karlkennt, en kvennkennt hjá Sunnlíngum.“ En eins og Guðrún segir: „Nú eru mörkin ekki jafn glögg og áður og heyra má til dæmis bæði kynin nánast jafnt í Reykjavík.“
Það er hins vegar miklu sjaldgæfara og staðbundnara að hafa fyrrnefnda orðið í kvenkyni. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er kvenkynið merkt „Dýrf.“, en það hefur þó væntanlega verið notað víða á Vestfjörðum – og er enn. Í Þjóðviljanum sem Skúli Thoroddsen gaf út á Ísafirði segir 1906: „2. þ. m. kviknaði í skúr, sem var áföst við húseign í Ingólfsstræti […], og brann skúrin til kaldra kola.“ Fáein önnur vestfirsk dæmi eru einnig í Ritmálssafni Árnastofnunar. Í Bæjarins besta 2007 segir: „Pétur leggur ríka áherslu að þetta sé skúrin í kvenkyni, upp á góða vestfirsku.“ Í Morgunblaðinu 2020 segir frá nýrri samfélagsmiðstöð á Flateyri: „Skúrin, sem er stytting á kvenkynsnafnorðinu beitningaskúr, verður fyrirtækjahótel.“
Kvenkynsorðið skúr í merkingunni 'regndemba' hefur líklega alltaf fleirtöluna skúrir en í máli þeirra sem nota það í merkingunni 'smáhýsi' hefur það sennilega fleirtöluna skúrar – a.m.k. segir í frétt í Morgunblaðinu 1981 frá fréttaritara blaðsins á Ísafirði: „Þá höfðu þeir orð á því að blaðamaður Þjóðviljans hefði komið í skúrarnar.“ Í athugasemd við karlkynsorðið skúr í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir: „Orðið skúr í merkingunni 'regndemba' er yfirleitt haft í kvenkyni en karlkyni bregður einnig fyrir og þá er fleirtalan skúrir.“ Þetta er þó ekkki alveg einhlítt – einhver gömul dæmi eru um fleirtöluna skúrar í þessari merkingu. Í Austra 1894 segir: „Veðrátta er nú mjög góð, hitar miklir […] og ágætir gróður skúrar í milli.“
Ekki nóg með þetta – orðið er líka til í hvorugkyni í báðum merkingum. Í Æfisögu Jóns Ólafssonar Indíafara frá 1661 segir: „Lík þessarar kvinnu […] stóð þar í tveimur kistum á líkbörum undir einu skúri.“ Þarna er skúr greinilega í hvorugkyni og hefur merkinguna 'skyggni framan við dyr' sem er afbrigði af merkingunni 'smáhýsi' samkvæmt Íslenskri orðsifjabók. Þetta er þó eina dæmið um hvorugkyn í þessari merkingu í Ritmálssafni Árnastofnunar, en í umræðu um orðið skúr í merkingunni ‚regndemba‘ í Morgunblaðinu 2013 segir Trausti Jónsson veðurfræðingur: „Og orðið er líka til í hvorugkyni. Það skúrið.“ Spurður um aldur segir hann: „Frá nítjándu öld – eins og flest.“ En ég hef ekki fundið dæmi um hvorugkynið í textum.
Þetta er skemmtilegt dæmi um tilbrigði – eitt og sama orðið til í tveimur merkingum, báðar merkingar koma fyrir í öllum kynjum, og bæði í karlkyni og kvenkyni hefur orðið tvenns konar beygingu. Vegna þess að mikið samfall er í beygingunni milli mynda af mismunandi kynjum er oft útilokað að ákvarða kyn orðsins í einstökum dæmum. Myndin skúr getur formsins vegna verið í hvaða kyni sem er og ýmis orð eru til með sömu stofngerð – dúr, lúr, múr, túr o.fl. í karlkyni, búr, flúr og úr í hvorugkyni, en ekki virðist vera til neitt annað kvenkynsorð sem endar á -úr. Þetta samfall veldur því einnig að erfitt er að leita að dæmum á rafrænan hátt og því er trúlegt að fleiri dæmi séu í textum um ýmsar sjaldgæfar myndir en mér hefur tekist að finna.