Posted on Færðu inn athugasemd

Spúla eða smúla?

Í gær var hér spurt hvort fólk notaði sögnina spúla eða smúla. Þessi spurning kemur öðru hvoru upp bæði í þessum hópi og öðrum málfarshópum og þess vegna fannst mér mál til komið að gera þessu skil. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sögnin smúla flettiorð en ekki skýrð heldur vísað á spúla sem er skýrð 'skola eða þvo (e-ð) með vatnsbunu'. Í Íslenskri orðabók er smúla skýrð 'þrífa með kraftmikilli vatnsbunu (þilfar, gólf og borð í fiskvinnslu, síldarplan o.þ.h.), spúla', en einnig er þar gefin merkingin 'smygla' sem merkt er „gamalt“. Í þeirri merkingu er sögnin komin af smugle í dönsku – elsta dæmi um hana er í Stefni 1895: „Afleiðingin yrði, að slíkt lagabann hefði spillandi áhrif á þjóðina, kenndi henni að smúla vörum.“

Í merkingunni 'spúla' virðist smúla „ekki eiga sér samsvörun í grannmálunum, en er líkl. ísl. frb.tilbrigði af spúlasegir í Íslenskri orðsifjabók, en spúla er komin af spule í dönsku. Það er trúlegt að hún hafi verið notuð um tíma í talmáli áður en hún komst á prent, eins og títt er um tökuorð, en elsta dæmi um hana á tímarit.is er í Alþýðublaðinu 1938: „Þeir skrúbba og splæsa og spúla dekk.“ Í Vísi 1939 segir: „Eg held, að þér ættuð að byrja að „spúla“ þilfarið.“ Í Vísi 1940 segir: „tveir sjómenn komu inn með fötur fullar af vatni, skvettu því á gólfið og byrjuðu að „spúla“ það.“ Í Vísi 1944 segir: „Það er víst óþarfi að „spúla dekk“ á þessum tundurspilli.“ Notkunin vex svo um miðjan fimmta áratuginn en framan af er sögnin oft höfð innan gæsalappa.

En elsta dæmi sem ég finn um smúla í merkingunni 'spúla' á tímarit.is er í Eyjablaðinu 1947: „Fyrst er að þvo bátinn, smúla eins og við segjum.“ Í viðtali í Morgunblaðinu 1961 segir: „Góðan dag, þið eruð að smúla gangstéttarnar.“ Í þetta er vísað í Íslendingi viku síðar og sagt: „Þá er sagt í sömu grein frá mönnum, er voru að þvo gangstéttar með því að dæla á þær vatni. En þeir eru ekki látnir vera að þvo stéttarnar heldur smúla þær. Ég hef spurt nokkra menn um sögnina að smúla í merkingunni þvo, og kannast enginn þeirra við.“ Eftir þetta fer dæmum um smúla í þessari merkingu smátt og smátt fjölgandi þótt sögnin sé oftar notuð í merkingunni 'smygla' fram um 1980, en yngsta dæmi sem ég fann um þá merkingu í smúla er frá 1989.

Hvernig stendur á því að spúla varð smúla? Hljóðin p [p] og m [m] eru mjög skyld – bæði varahljóð, mynduð með því að loka vörunum og stöðva þannig loftstrauminn frá lungunum. Munurinn er sá að í p er alger lokun, en í m fer loftstraumurinn út um nefið í staðinn. Það er vel þekkt að í orðum þar sem nefhljóð (m eða n) eða hliðarhljóð (l) fer næst á eftir s í upphafi orðs kemur stutt lokhljóð á eftir s vegna þess að lokað er fyrir loftstrauminn í munni áður en opnað er fyrir strauminn um nef (í m og n) eða til hliðar við tunguna (í l). Þetta lokhljóð er stundum kallað „sníkihljóð“ vegna þess að það sníkir sér þarna inn – þetta er hljóð sem við ætlum ekkert að mynda og gerum okkur oftast ekki grein fyrir því að það kemur þarna á milli.

Orð sem byrja á sm- í stafsetningu eins og smár og smíða eru iðulega borin fram spmár [spmauːr] og spmíða [spmiːða] þótt við tökum venjulega ekki eftir því vegna þess að við erum svo bundin við stafsetninguna. Eðlilegur framburður orðs eins og smúla er því spmúla [spmuːla] og breytingin frá spúla [spuːla] er því mjög lítil. Guðrún Kvaran nefnir í grein á Vísindavefnum að hugsanlega geti tilvist smúla í merkingunni 'smygla' „hafa valdið því að hliðarmyndin varð til“. Mér finnst það ekki trúlegt þar sem merkingin er óskyld, en vissulega eru þau tengsl þarna á milli að notendahópurinn var svipaður í upphafi – smygl tengdist oft sjómönnum og spúla var í upphafi einkum notuð um þvott á sjó, í samböndum eins og spúla dekk / þilfar / lest o.s.frv.

Í nútímamáli virðast myndirnar spúla og smúla vera notaðar nokkuð jöfnum höndum – í Risamálheildinni eru rúm 1400 dæmi um þá fyrrnefndu en tæp 1200 um þá síðarnefndu. Áðurnefnd grein Guðrúnar Kvaran á Vísindavefnum er svar við spurningunni „Er réttara að segja „spúla“ eða „smúla“ um að skola plan, dekk á báti eða stétt með kraftmikilli vatnsslöngu?“ en Guðrún svarar því í raun ekki.  Í Málfarsbankanum er engin athugasemd gerð við orðin, aðeins sagt: „Orðið smúla er sömu merkingar og spúla.“ Aldursmunur orðanna er lítill, og það má m.a.s. alveg færa rök fyrir því að smúla sé í vissum skilningi „íslenskara“ orð en spúla vegna þess að það er einhvers konar íslensk nýmyndun en ekki bein endurómun dansks orð.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.