Stakstætt fólk og sjálfstæðir foreldrar

Í  frétt í Morgunblaðinu í dag segir: „Fækkað hefur í þessum hópi að undanförnu, en þetta hafa gjarnan verið pör eða stakstætt barnlaust fólk.“ Vakin var athygli á þessu orðalagi í Málvöndunarþættinum þar sem fólk kannaðist ekki við að hafa séð stakstætt notað um fólk og það er vissulega rétt – það er ekki venja. Lýsingarorðið stakstæður virðist upphaflega hafa verið myndað sem grasafræðilegt íðorð – er merkt „bot.“ í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og eingöngu skýrt þannig, 'spredt (sparsus)'. Sama máli gegnir um Íslenska orðabók – þar er orðið merkt „grasafr.“ og skýrt 'þegar aðeins eitt blað er á hverju blaðstæði'. En í íðorðasöfnum úr læknisfræði og líffræði í Íðorðabankanum er það skýrt 'sem stingur sér niður á stangli'.

Skýringin í Íslenskri nútímamálsorðabók er hins vegar 'sem stendur einn og sér, stakur' með dæminu stakstætt tré og þannig held ég að orðið sé venjulega notað í almennu máli. Elsta dæmi um það á tímarit.is er í tónlistargagnrýni í Alþýðublaðinu 1944: „hún leysir því heildræna áferð upp í smáeiningar stakstæðra tilfinningabólstra.“ Í Morgunblaðinu 1947 segir: „þá sjáum við ekki lengur hina gömlu, grónu ávölu grashæð, aðeins holt og stakstæða steina.“ Í Vísi 1948 segir: „Barrtrén njóta sín yfirleitt vel stakstæð í grasflötum.“ Í Tímanum 1959 segir: „Það eru sem sé margir lýsandi deplar (ljóskastarar) á líkama fisksins, annaðhvort raðstæðir eða stakstæðir.“ En annars er orðið oft notað í hinni grasafræðilegu merkingu í eldri dæmum.

Frá því um 1970 hefur orðið verið notað í ýmsu samhengi. Auk stakstæðra trjáa er mjög oft talað um stakstæð hús og stakstæða bílskúra en einnig stakstæð fjöll, stakstæðar tölvur, stakstætt stórgrýti, stakstæðan bakarofn, stakstæða minningargrein og ýmislegt fleira. Í öllum þessum tilvikum er augljóst út frá samhengi hvað orðið merkir og þá sjaldan svo er ekki er það skýrt: „Stakstætt peð (einstæðingur) kallast það peð, sem ekki hefur peð af sama lit á línunum beggja vegna við sig“ segir í skákþætti Æskunnar 1969. Það má meira að segja finna dæmi um að orðið sé notað um fólk: „Aðrir einstaklingar geta lent í þessu, einkum þeir sem eru á einhvern hátt stakstæðir í deild“ segir í grein Sigríðar Þorgeirsdóttur í Hug 2009.

Merking orðsins í fréttinni sem var vísað til í upphafi er líka alveg ljós. Vitanlega má halda því fram að þarna hefði verið hægt að nota einhver önnur orð og tala um ógift barnlaust fólk, einhleypt barnlaust fólk eða einstætt barnlaust fólk í staðinn fyrir að tala um stakstætt barnlaust fólk – það orðalag eigi sér enga hefð. En þetta merkir samt ekki endilega það sama – þarna er verið að tala um setur fyrir fólk sem hefur sótt um alþjóðlega vernd og það gæti vel átt maka sem væri þó ekki með í för og fólkið þess vegna stakstætt á Íslandi. Það er fráleitt að hafna orðinu stakstætt í þessu samhengi á þeim forsendum að ekki sé hefð fyrir því að nota það um fólk – við verðum að vera opin fyrir gagnlegum nýjungum í máli og málnotkun.

Þessu tengt má líka minna á að margt fólk sem elur eitt upp börn sín vill fremur tala um sig sem sjálfstæða foreldra en einstæða foreldra eins og áður var gert. Þótt einstæður merki þarna 'sem er hvorki í sambúð né hjónabandi' minnir það óneitanlega á orðið einstæðingur sem merkir 'sá eða sú sem á engan að, hvorki nána fjölskyldu né vini' og skiljanlegt að fólk vilji forðast þau hugrenningatengsl. Elsta dæmi sem ég finn um þetta er í grein Sonju B. Jónsdóttur í DV 1984: „Sjálfstæðar mæður (ég nota bara þetta orð þar til einhver stingur upp á öðru betra).“ Það virðist samt ekki hafa fundist neitt betra því að fjörutíu árum seinna er enn talað um sjálfstæðar mæður, sjálfstæða feður og sjálfstæða foreldra – og það er í góðu lagi, rétt eins og stakstætt fólk.