Blendigras, grasblendi, blendingsgras
Í dag var undirrituð viljayfirlýsing um framtíðaruppbyggingu þjóðarleikvanga í Laugardal. Í fyrirsögn um þetta á Vísi segir: „Leggja hybrid gras á Laugardalsvöll og frjálsíþróttir fá aðra aðstöðu.“ Í fréttinni sjálfri segir: „Laugardalsvelli verður breytt og þar lagt hybrid gras, það er að segja blanda af grasi og gervigrasi, í stað grasvallarins sem þar hefur verið.“ Sambandið hybrid gras er svo notað í því sem eftir er af fréttinni. Í fyrirsögn á mbl.is segir: „Blandað gras verður lagt á Laugardalsvöll“ – en leitarvélar sýna að upphafleg fyrirsögn fréttarinnar hefur verið „Hybrid-gras verður lagt á Laugardalsvöll“. Í fréttinni segir: „Blandað gras eða svokallað Hybrid-gras verður lagt á Laugardalsvöll“ og „Hybrid-gras er blanda af grasi og gervigrasi“.
Fyrirsögnin á vef Ríkisútvarpsins er „Frjálsíþróttirnar fluttar og nýtt gras lagt á Laugardalsvöll“ og í fréttinni segir „Fram kom að leggja ætti svokallað hybrid-gras á Laugardalsvöll, blöndu af grasi og gervigrasi.“ Fyrirsögn DV er „Hybrid-gras lagt á Laugardalsvöll“ og í fréttinni sjálfri (sem raunar er tekin orðrétt upp úr fréttatilkynningu á vef Stjórnarráðsins án þess að þess sé getið) segir „Fyrsti áfangi í uppbyggingu Laugardalsvallar verður að skipta út núverandi grasi á vellinum fyrir blandað gras (svokallað hybrid-gras)“ og „Með ákvörðun um notkun hybrid-grass á Laugardalsvelli er þar með útilokuð keppni í kastgreinum frjálsíþrótta“. Á fótbolti.net er fyrirsögnin „Hybrid gras verður lagt á Laugardalsvöll“.
Enska orðið hybrid getur verið nafnorð og má þá þýða sem 'blendingur' en einnig lýsingarorð sem þýða mætti 'blandaður'. Þetta er ekkert flókið eða erfitt í þýðingu enda útskýrt í öllum framangreindum miðlum hvað hybrid gras er. Þess vegna er óskiljanlegt að sumir miðlanna hampi þrátt fyrir það enska orðinu eins og dæmin sýna. Eðlilegt væri að hafa íslensku í fyrirsögn en enska orðið gæti komið inni í fréttinni – sem skýring á því íslenska, en ekki öfugt. Svo er spurning hvaða orð eða orðasamband er best að nota á íslensku um þetta fyrirbæri. Í dæmunum að framan er talað um blandað gras og blöndu af grasi og gervigrasi en einnig má hugsa sér grasblendi, blendigras og blendingsgras – íslenskan er ekki í vandræðum með þetta.