Málstefna ferðamála
Í nýsamþykktri þingsályktun „um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til ársins 2030“ er kafli sem hefur yfirskriftina „Aukin áhersla á sanngildi og sérstöðu íslenskar menningar“ og í greinargerð segir: „Sýnileiki og notkun íslenskrar tungu er […] órjúfanlegur þáttur upplifunar um sanngildi.“ Sem „dæmi um verkþætti aðgerðar“ er nefnt: „Að stuðlað verði að því að íslenska heyrist og sjáist sem víðast, í samvinnu og samráði við lykilaðila í ferðaþjónustu.“ En engar tillögur um ákveðnar afmarkaðar og tímasettar aðgerðir í þágu íslenskunnar er að finna í þingsályktuninni sjálfri – aðeins sagt að starfshópi verði falið marka stefnu og innleiða hvata „til þess að auka áherslu á sanngildi og sérstöðu íslenskrar menningar í ferðaþjónustu á Íslandi“.
Veik staða íslenskunnar innan ferðaþjónustunnar er mikið áhyggjuefni frá sjónarmiði tungumálsins – en hún ætti líka að vera áhyggjuefni fyrir ferðaþjónustuna. Mikil enskunotkun í almannarými veldur sívaxandi pirringi íslensk almennings, ekki síst gagnvart skorti á íslenskukunnáttu hjá fólki í þjónustustörfum. Líklegt er að þessi pirringur sé m.a. ástæða fyrir þeim áhyggjum af stöðu íslenskunnar sem komu fram í áðurnefndri könnun og liti líka viðhorf til greinarinnar. Síðast en ekki síst hlýtur staða íslenskunnar í ferðaþjónustu að vera áhyggjuefni fyrir stjórnvöld – bæði vegna þeirrar ábyrgðar sem þau bera á íslenskunni samkvæmt lögum, og einnig vegna þess að aukinn pirringur almennings getur ýtt undir skaðlega útlendingaandúð.
Vitanlega er eðlilegt að kynningar- og markaðsstarf erlendis sé rekið á ensku eða öðrum erlendum málum, og erlend mál séu notuð í leiðsögn innanlands. En mikilvægur hluti af þeirri upplifun að koma í nýtt land og nýja menningu er einmitt að heyra og sjá tungumálið sem þar er talað og það er ástæðulaust að halda íslenskunni algerlega frá ferðafólki – eða forða því frá íslenskunni. Það á að vera grundvallaratriði að íslenska sé alltaf notuð samhliða ensku á matseðlum, skiltum og hvers kyns merkingum. Það er líka fráleitt að láta erlend heiti koma í stað gamalgróinna íslenskra örnefna. Við leggjum oft áherslu á það að tungumálið sé ein helsta réttlæting fyrir sérstöðu okkar og sjálfstæði – hvers vegna flöggum við ekki þessari sérstöðu?
Það er óheppilegt að svo stór og mikilvæg atvinnugrein þar sem tungumálið leikur lykilhlutverk skuli ekki hafa sett sér málstefnu þar sem tungumálum – íslensku og ensku, og öðrum málum eftir atvikum – sé markaður bás. Þess vegna skora ég á ferðamálaráðherra, Ferðamálastofu, Rannsóknarmiðstöð ferðamála, Samtök ferðaþjónustunnar og Íslenska málnefnd að taka nú höndum saman og beita sér fyrir því að málstefna ferðamála verði samin og samþykkt. Það er ljóst að fólk og fyrirtæki í ferðaþjónustu skortir skýra leiðsögn um meðferð og notkun tungumála í greininni, og vel hugsuð og útfærð málstefna – sem vitaskuld þyrfti síðan að fylgja eftir á einhvern hátt – gæti einmitt verið slík leiðsögn.