Posted on Færðu inn athugasemd

Kjöldrögn

Í hópnum Skemmtileg íslensk orð var í gær vitnað í íþróttafrétt þar sem sagt var að úrslit tiltekins leiks hefðu verið algjör „kjöldrögn“ – og sagt að þetta orð væri ekki til í íslensku. Orðið hefur reyndar verið til umræðu í þessum hópi – í innleggi frá 2021 segir: „Þegar Liverpool vann ManUtd fimm núll var það kjöldrögn, sagði víst einhver íþróttafréttamaður. Þetta orð ku vera til í íþróttafréttaíslensku.“ Elstu dæmi sem ég finn um orðið eru á twitter 2012 – „Kjöldrögn í skjólinu í kvöld!“, „lærðu að tala ekki svo fljótt eftir kjöldrögn“, o.fl. Sama ár segir á fótbolti.net: „Willum verður rekinn eftir þessa kjöldrögn“ og á vefsíðunni Blikar.is er fyrirsögn: „Kjöldrögn á KR velli.“ Fyrirsögn á Vísi 2017 er: „Kjöldrögn í KR-slagnum í Danmörku.“

En orðið er vissulega sjaldgæft í rituðu máli – dæmin í Risamálheildinni eru ekki nema 29, öll úr íþróttaumfjöllun og öll nema þrjú af twitter, og orðið er ekki að finna í neinum orðabókum. Þrátt fyrir það er augljóst hvað það merkir – þetta er verknaðarnafnorð af sögninni kjöldraga. Í athugasemdum var bent á að til væri nafnorðið kjöldráttur í þessari merkingu og það er vissulega rétt. En það orð er samt ekki heldur að finna í helstu orðabókum, aðeins tvö dæmi eru um það í Ritmálssafni Árnastofnunar, ellefu á tímarit.is og 21 í Risamálheildinni – færri en dæmin um kjöldrögn. Það eru engin rök gegn kjöldrögn að til sé annað orð í málinu með sömu merkingu – slíkt er algengt í málinu og ýmsar tvímyndir t.d. til með viðskeytunum -ing og -un.

Orðið kjöldrögn má bera saman við orð eins og lögn, sögn og þögn sem öll eru líka verknaðarnafnorð mynduð með viðskeytinu -n af sögnunum leggja, segja og þegja. Þær höfðu allar rótarsérhljóðið a í germönsku, eins og draga, en viðskeytið breytir því í ö. Í sumum tilvikum er þessi breyting hljóðrétt afleiðing u-hljóðvarps sem horfið u olli en í öðrum er um að ræða áhrifsbreytingu – hljóðbreytingin fór að tengjast viðskeytinu (eins og með viðskeytið -ótt- sem veldur sömu breytingu þótt ekkert u sé í því lengur, sbr. sköllóttur). Þetta viðskeyti er gamalt í málinu og yfirleitt ekki lengur notað til nýmyndunar – en vitanlega er samt ekkert því til fyrirstöðu að nýta það. Orðið kjöldrögn er rétt myndað og mér finnst það fyrirmyndarorð.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.