Kjöldrögn

Í hópnum Skemmtileg íslensk orð var í gær vitnað í íþróttafrétt þar sem sagt var að úrslit tiltekins leiks hefðu verið algjör „kjöldrögn“ – og sagt að þetta orð væri ekki til í íslensku. Orðið hefur reyndar verið til umræðu í þessum hópi – í innleggi frá 2021 segir: „Þegar Liverpool vann ManUtd fimm núll var það kjöldrögn, sagði víst einhver íþróttafréttamaður. Þetta orð ku vera til í íþróttafréttaíslensku.“ Elstu dæmi sem ég finn um orðið eru á twitter 2012 – „Kjöldrögn í skjólinu í kvöld!“, „lærðu að tala ekki svo fljótt eftir kjöldrögn“, o.fl. Sama ár segir á fótbolti.net: „Willum verður rekinn eftir þessa kjöldrögn“ og á vefsíðunni Blikar.is er fyrirsögn: „Kjöldrögn á KR velli.“ Fyrirsögn á Vísi 2017 er: „Kjöldrögn í KR-slagnum í Danmörku.“

En orðið er vissulega sjaldgæft í rituðu máli – dæmin í Risamálheildinni eru ekki nema 29, öll úr íþróttaumfjöllun og öll nema þrjú af twitter, og orðið er ekki að finna í neinum orðabókum. Þrátt fyrir það er augljóst hvað það merkir – þetta er verknaðarnafnorð af sögninni kjöldraga. Í athugasemdum var bent á að til væri nafnorðið kjöldráttur í þessari merkingu og það er vissulega rétt. En það orð er samt ekki heldur að finna í helstu orðabókum, aðeins tvö dæmi eru um það í Ritmálssafni Árnastofnunar, ellefu á tímarit.is og 21 í Risamálheildinni – færri en dæmin um kjöldrögn. Það eru engin rök gegn kjöldrögn að til sé annað orð í málinu með sömu merkingu – slíkt er algengt í málinu og ýmsar tvímyndir t.d. til með viðskeytunum -ing og -un.

Orðið kjöldrögn má bera saman við orð eins og lögn, sögn og þögn sem öll eru líka verknaðarnafnorð mynduð með viðskeytinu -n af sögnunum leggja, segja og þegja. Þær höfðu allar rótarsérhljóðið a í germönsku, eins og draga, en viðskeytið breytir því í ö. Í sumum tilvikum er þessi breyting hljóðrétt afleiðing u-hljóðvarps sem horfið u olli en í öðrum er um að ræða áhrifsbreytingu – hljóðbreytingin fór að tengjast viðskeytinu (eins og með viðskeytið -ótt- sem veldur sömu breytingu þótt ekkert u sé í því lengur, sbr. sköllóttur). Þetta viðskeyti er gamalt í málinu og yfirleitt ekki lengur notað til nýmyndunar – en vitanlega er samt ekkert því til fyrirstöðu að nýta það. Orðið kjöldrögn er rétt myndað og mér finnst það fyrirmyndarorð.