Að planta kartöflum – eða sá – eða gróðursetja

Í Málvöndunarþættinum var nýlega nefnt að í fréttum Ríkisútvarpsins hefði verið talað um að planta út kartöflum – í fréttinni var raunar sagt „plantað út útsæði“ en það kemur út á eitt. Þetta minnti mig á að fyrir fimm árum var talað um það í sjónvarpsfrétt að gróðursetja kartöflur sem einnig vakti nokkur viðbrögð í Málvöndunarþættinum. Í báðum tilvikum hefur verið bent á að þessi athöfn heiti að setja niður kartöflur og vissulega er það hið venjulega orðalag og hefur verið lengi. Við nánari athugun kemur þó í ljós að orðafar um þessa athöfn er í raun mun fjölbreyttara og séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal, frumkvöðull í kartöflurækt á Íslandi, notar sögnina planta í riti sínu Atli eða ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn frá 1783.

Þar segir: „Sé eigi korn til, þá skal þar í planta jarðepli, ef þau er að fá.“ Hér er heitið jarðepli notað um kartöflur eins og algengt var áður fyrr. Sögnin planta sem nú tekur með sér andlag í þágufalli stýrði áður þolfalli þannig að jarðepli er þarna þolfall í fleirtölu. Í Norðanfara 1873 segir: „síðan verður plantað helzt jarðepli.“ Í Ísafold 1896 segir: „Árið 1596 plantaði enski plöntufræðingurinn Gerard kartöflur fyrstur manna hjer í álfu.“ Í Lögbergi 1929 segir: „Hann plantaði kartöflur á öllum tímum árs.“ Í Morgunblaðinu 1950 segir: „Er þá hægt, seinna um vorið að planta kartöflunum út, eins og hverri annari pottaplöntu.“ Nýleg dæmi má einnig finna: „Það má planta kartöflum vel fram í júní“ segir garðyrkjufræðingur í Morgunblaðinu 2015.

Það er líka gamalt orðalag – en sjaldgæft – að tala um að gróðursetja kartöflur. Í Leifi 1886 segir: „Hundrað ára kartöpluhátíð var haldin á Frakklandi í vikunni sem leið, í minningu þess, að þá voru liðin 100 ár frá því hin fyrsta kartapla var gróðursett þar.“ Í Búnaðarritinu 1888 segir: „Sá, sem fyrstur gróðursetti kartöflur hér á landi, var […] Björn prófastur Halldórsson í Sauðlauksdal.“ Í Frey 1932 segir: „Björn Halldórsson var hinn fyrsti er gróðursetti jarðepli á Íslandi 1758.“ Í Búfræðingnum 1944 segir: Eini gallinn við að gróðursetja kartöflurnar úti í garðinum svo snemma, sem hér er gert ráð fyrir, er frosthættan.“ Í DV 2005 segir: „En þeir sem eiga kjallara með stöðugu og háu hitastigi geta gróðursett kartöflur í bréfpoka.“

Einnig hefur lengi tíðkast að einhverju marki að tala um að sá kartöflum ­– enda alltaf talað um útsæði eða útsæðiskartöflur. Í Nýjum félagsritum 1873 segir: „Sumstaðar er það venja, að sá kartöplum fyrsta árið sem jörðin er plægð.“ Í Norðlingi 1881 segir: „Sáð kartöplum í 80 ferfaðma af því sem ræktað var.“ Í Lögbergi 1889 segir: „Landar hjer ljetu flestir plægja smábletti næstl. vor og sáðu kartöflum og fleiru.“ Í Morgunblaðinu 1929 segir: „Um 20. mars var byrjað að sá kartöflum á Akureyri.“ Í Búnaðarritinu 1967 segir: „en það hefði þó verið illskárra en að sá kartöflum eftir þann tíma.“ Í DV 2010 segir: „Þeir sem ætla að sá kartöflum þurfa að kaupa útsæði (eða nota eigin kartöflur) í verslunum og láta þær forspíra.“

Sögnin setja hefur lengi verið notuð í þessu samhengi, en framan af er hún oft höfð ein sér, án niður. Í Gesti Vestfirðingi 1848 segir: „geta menn þá sett jarðeplin í 5. viku sumars.“ Í millifyrirsögn í Nýjum félagsritum 1853 segir: „Um aðferðina við að setja jarðeplin“ og í greininni segir: „Tvennslags aðferð má hafa til að setja kartöflur.“ Í Ingólfi 1853 segir: „Hinn þriðji átti að setja jarðepli í nokkra reiti.“ Í greininni „Um kartöplur“ í Íslendingi 1863 segir „og skal setja þær svo að frjóangarnir snúi upp“ en annars er miðmyndin setjast notuð í greininni, t.d. „Kartöplurnar ættu helzt að setjast í beinar raðir eptir vað“. Í Þjóðólfi 1870 segir: „Hann lætr frjóangann snúa niðr, þegar hann setr kartöfluna.“ En þessi notkun virðist löngu horfin.

Elsta dæmi sem ég finn um sambandið setja niður í tengslum við kartöflurækt er í bæklingnum Fáein orð um ræktun jarðepla eftir Jónas Benediktsson frá 1856. Þar er kaflafyrirsögnin „Hvernig stinga skuli upp eplagarða, setja niður í þá og fleira“. Í kaflanum segir: „Nær setja skuli niður jarðeplin, er undir tíðarfarinu komið.“ Í Norðanfara 1879 segir: „Skal svo setja niður í blettinn kartöflur.“ Í Búnaðarritinu 1888 segir: „Á flestum stöðum í sýslunni eru kartöflur settar mikið of þétt niður.“ Í Lýð 1889 segir: „Kýr víða komnar á beit, sáðgarðar yrktir og jarðepli niðursett.“ Í Þjóðólfi 1889 segir: „Lítið var sett niður af kartöflum.“ Í Búnaðarritinu 1900 segir: „fyrst fyrir alvöru var farið að sá 20. dag maímán. og settar niður kartöflur.“

Eftir aldamótin 1900 virðist setja niður kartöflur hafa orðið algengasta orðalagið um þessa athöfn og hefur verið það síðan, og vitanlega er engin ástæða til annars en mæla með því að svo verði áfram. Á hinn bóginn er ljóst að þótt samböndin planta kartöflur/kartöflum, sá kartöflum og gróðursetja kartöflur séu sjaldgæf eiga þau sér langa og samfellda sögu – það fyrstnefnda allt frá upphafi kartöfluræktunar á Íslandi á átjándu öld en hin frá seinni hluta nítjándu aldar. Notkun þeirra stafar ekki af fákunnáttu eins og marka má af því að dæmi eru úr Búnaðarritinu, Búfræðingnum og Frey, og frá garðyrkjufræðingi. Það er því engin ástæða til annars en fólk sem hefur vanist því að nota þessi sambönd haldi því áfram. Við þurfum ekkert öll að tala eins.