Fjárlagafrumvarpið frá sjónarhóli íslenskunnar
Ég var að skoða fjárlagafrumvarp ársins 2025 sem lagt var fram í morgun og leita að vísbendingum um fjárveitingar til að efla íslenskuna, ekki síst kennslu í íslensku sem öðru máli. Í skýrslu OECD um innflytjendur sem var birt í síðustu viku kom fram að fjárveitingar til kennslu í þjóðtungunni á Íslandi eru ekki nema brot af því sem þær eru annars staðar á Norðurlöndum. Jafnframt kom fram að kunnátta innflytjenda í þjóðtungunni væri minni en í nokkru öðru landi OECD. En þótt skýrslan sé nýkomin og hafi ekki haft áhrif á fjárlagafrumvarpið hefur vitanlega verið vitað lengi að við stæðum okkur illa á þessu sviði, og þess vegna mátti vænta þess að einhverra breytinga sæi stað í fjárlagafrumvarpinu.
Ég fann einkum tvær tillögur sem ástæða er til að fagna. Undir lið 22.10, „Leikskóla- og grunnskólastig“, segir: „Fjárheimild málaflokksins er aukin um 500 m.kr. vegna inngildingar barna af erlendum uppruna.“ Trúlegt er að megninu af þessu verði varið til stuðnings við íslenskunám og þetta er því gífurlega mikilvægt. Undir lið 22.20, „Framhaldsfræðsla og menntun óflokkuð á skólastig“, segir: „Fjárheimild málaflokksins er aukin tímabundið um 250 m.kr. til eflingar íslenskukennslu fyrir útlendinga.“ En undanfarin tvö ár hefur verið samþykkt 115 milljóna króna aukning í þennan lið, tímabundin til eins árs í hvort skipti, og mig grunar að það megi draga frá og raunaukning frá síðustu árum sé því 135 milljónir en ekki 250.
Undir lið 29.70, „Málefni innflytjenda og flóttafólks“, segir: „Fjárheimild málaflokksins er aukin tímabundið um 150 m.kr. vegna aðgerðaáætlunar ríkisstjórnar frá febrúar 2024 um inngildingu innflytjenda og flóttafólks í íslenskt samfélag.“ Í aðgerðaáætluninni er að finna margar aðrar fjárfrekar aðgerðir þannig að ólíklegt er að mikið af þessu fari til íslenskukennslu. Undir lið 14.10, „Ferðaþjónusta“, segir: „Fjárheimild málaflokksins hækkar um 200 m.kr. sem er varanlegt framlag til að vinna aðgerðaáætlun ferðamálastefnu til 2030.“ Eitt markmið stefnunnar er vissulega „Aukin áhersla á sanngildi og sérstöðu íslenskrar tungu og menningar“. En í aðgerðaáætluninni eru yfir 40 aðgerðir og hæpið að mikið fé fari til að bæta stöðu íslensku.
Í fjárlögum þessa árs segir undir lið 18.30, „Menningarsjóðir“: „Fjárheimild málaflokksins er aukin tímabundið til eins árs um 75 m.kr. vegna aðgerðaáætlunar í málefnum íslenskrar tungu.“ Undir markmiðinu „Efla stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu“ í sama lið í nýja frumvarpinu segir: „Unnið samkvæmt aðgerðaáætlunum í málefnum íslenskrar tungu og táknmáls.“ Þrátt fyrir það er ekki gert ráð fyrir framhaldi á þessari aukningu. Í frumvarpinu segir: „Fjárheimild málaflokksins hækkar um 153,2 m.kr. þar sem tímabundin framlög ganga til baka“ – væntanlega eru umræddar 75 milljónir inni í þeirri tölu. Það er því ekki að sjá að neitt fé sé ætlað í aðgerðaáætlunina sem er þó rétt að fara af stað því að henni seinkaði um heilt ár.
Auk þessa má nefna fleira sem kemur íslenskunni til góða að einhverju leyti, einkum tvennt undir lið 18.30: „Fjárheimild málaflokksins er aukin varanlega um 125 m.kr. til hækkunar á starfslaunum listamanna“ og „Fjárheimild málaflokksins er aukin varanlega um 170 m.kr. til að efla Kvikmyndasjóð, Myndlistarsjóð, Sviðslistasjóð og Bókasafnssjóð höfunda“. Á móti koma niðurfellingar tímabundinna framlaga til menningarmála upp á 620 milljónir en ég veit ekki hversu mikið af því fé gagnaðist íslenskunni. Það verður að hafa þann fyrirvara að framsetning frumvarpsins er ekki með þeim hætti að auðvelt sé að átta sig á þessu og því kann eitthvað að hafa farið fram hjá mér, en í heildina sýnist mér íslenskan koma skár út úr þessu en í fyrra.