Þetta gengur brösu(g)lega

Ég sá í Málvöndunarþættinum umræðu um atviksorðið brösuglega sem nefnt var að oft væri sagt og skrifað brösulega – þ.e. án g. Sama gildir um samsvarandi lýsingarorð, brösu(g)legur. Í Málfarsbankanum segir: „Ritað er brösuglega en ekki „brösulega““ og væntanlega gert ráð fyrir að þessi orð séu leidd af lýsingarorðinu brösugur sem í Íslenskri orðabók er sagt vera „staðbundið“ og notað um veður. Hvort tveggja virðist tekið beint úr Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 þar sem orðið er sagt notað „om Vejrliget“ og merkt „Af.“, þ.e. austfirskt. Dæmi á tímarit.is sýna þó að notkunarsvið orðsins er mun víðara og ekki að sjá að það sé staðbundið núorðið. Í seinni tíð er það mjög algengt í fótboltamáli – brösugt gengi, brösug byrjun o.fl.

Myndirnar brösulega og brösuglega eru báðar tilfærðar í Íslenskri orðabók en aðeins sú síðarnefnda í Íslenskri nútímamálsorðabók, og hvorug hefur lýsingarorðið brösu(g)legur. Orðin virðast ekki ýkja gömul í málinu – elsta dæmi um atviksorðið brösulega á tímarit.is er frá 1949, en um lýsingarorðið brösulegur frá 1955. Alls eru um 1330 dæmi um þessi orð samtals. Elsta dæmi um atviksorðið brösuglega er frá 1961, en lýsingarorðið brösuglegur sést ekki fyrr en 1980. Alls eru rúmlega 2300 dæmi um þessi orð samtals. Fá dæmi eru um báðar gerðirnar fram til 1980 en notkun beggja stóreykst upp úr því, og í báðum tilvikum eru langflest dæmanna um atviksorðin – dæmi um lýsingarorðin eru sárafá. Atviksorðin eru nær alltaf notuð með ganga.

Séu orðin leidd af lýsingarorðinu brösugur eru þau alveg hliðstæð við atviksorðið sköru(g)lega og lýsingarorðið sköru(g)legur sem virðast leidd af horfna lýsingarorðinu *skörugur samkvæmt Íslenskri orðsifjabók. En þá bregður svo við að báðir rithættir eru viðurkenndir og ekki gert upp á milli þeirra. Í Íslenskri stafsetningarorðabók segir undir skörulegur „einnig ritað sköruglegur“ og undir sköruglegur segir „einnig ritað skörulegur“. Hliðstætt er um atviksorðið sköru(g)lega. Sama gildir um nauðu(g)lega og nauðu(g)legur – þar eru báðir rithættir viðurkenndir í Íslenskri stafsetningarorðabók. Eina ástæðan sem séð verður til að meðhöndla brösu(g)lega/-legur öðruvísi en þessi orð er sú að í þeim síðarnefndu koma báðir rithættir fyrir í fornu máli.

En svo er alls óvíst að brösulega sé leitt af brösugur. Til er í málinu kvenkynsorðið brösur sem aðeins er notað í fleirtölu og einkum í sambandinu eiga í brösum (við/með). Það er ekkert því til fyrirstöðu að líta svo á að fyrri liður brösulega sé ekki brösugur heldur brösur í eignarfalli eintölu. Það er alþekkt að í fyrri lið samsetninga er oft notað eignarfall eintölu af veikum kvenkynsorðum þar sem búast mætti við fleirtölu – stjörnuskoðun, perutré, gráfíkjukaka o.s.frv. Þetta gildir meira að segja þótt orðið sé venjulega ekki notað í eintölu, eins og t.d. (hjól)börur – það er talað um börukjálka, hjólböruhjól o.s.frv. en ekki *bar(n)akjálka, *hjólbar(n)ahjól. Á sama hátt getur brösu- í brösulega vel verið eignarfall eintölu þótt það sé ekki notað sjálfstætt.

Eins og áður er nefnt eru elstu dæmi um brösulega/brösulegur heldur eldri en elstu dæmi um brösuglega/brösuglegur þótt vissulega muni ekki miklu. Báðir rithættir eru mjög algengir – í Risamálheildinni eru um 2070 dæmi um myndir með g en um 1700 um myndir án g. Þótt ekki kæmi annað til ættu aldur og tíðni því í sameiningu að vera nægileg réttlæting fyrir því að viðurkenna rithátt án g eins og gert er í sambærilegum orðum. Þegar við bætist að eins víst er að g-lausu myndirnar séu alls ekki leiddar af brösugur heldur af brösur liggur niðurstaðan beint við: Þótt brösulega/-ur og brösuglega/-ur séu sömu merkingar eru þetta mismunandi orð sem eru mynduð á mismunandi hátt, og eðlilegt að stafsetningin endurspegli það.