Posted on Færðu inn athugasemd

Báðir málstaðirnir

Í grein í Morgunblaðinu 1980 sagði Helgi Hálfdanarson: „Nú er mjög farið að segja […] „Báðir málstaðirnir eru slæmir“ í stað „hvortveggi málstaður er slæmur““ og í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 sagði Helgi: „Heyrst hefur: Báðir málstaðirnir eru góðir. RÉTT VÆRI: Hvortveggi málstaðurinn er góður.“ Í skýringu segir: „Orðið málstaður er ekki til í fleirtölu. Þess vegna ekki: tveir málstaðir, heldur tvennur málstaður; ekki margir málstaðir, heldur margur málstaður.“ Það má þó finna slæðing af dæmum um fleirtöluna frá ýmsum tímum á tímarit.is, það elsta í Ísafold 1891: „Sumir segja, að hjer kunni launráð undir búa, og stjórnin ætli sjer svigrúm, ef hún þykist þurfa að skerast í leikinn þar syðra og velja um málstaði.“

Það má líka finna dæmi um sambandið tveir málstaðir. Í Dagsbrún 1944 segir: „En ekkert varpaði þó jafn skæru ljósi á hina tvo málstaði eins og yfirlýsing Helga Hannessonar.“ Í Þjóðvörn 1949 segir: „Það er erfitt að tala fyrir tveim málstöðum í sömu ræðunni.“ Í Samvinnunni 1968 segir: „En Churchill varð ævinlega að þjóna tveimur málstöðum samtímis.“ Halldór Laxness hikaði ekki heldur við að tala um tvo málstaði – í ræðu 1940 sagði hann: „milli málstaðar mannkynsins og málstaðar kapítalismans er engin brú og ekkert kraftaverk getur skapað brú milli þessara tveggja málstaða“ og í Kristnihaldi undir Jökli frá 1968 segir: „Ég hef aldrei heyrt annað en í stríði séu tveir málstaðir: illur og góður.“

Nokkur dæmi eru einnig um sambandið báðir málstaðir, t.d. í Vísi 1917: „báðir málstaðirnir standa jafnt að vígi.“ Í Degi 1925 segir: „Verður ef til vill síðar hér í blaðinu gerð grein fyrir þeim grundvallarmun er liggur að rótum beggja málstaða.“ Í Læknablaðinu 1929 segir: „Lick hefur metið báða málstaði.“ Í ræðu á Alþingi 1951 segir: „Ég hef hlýtt á rök beggja málstaðanna.“ Í Ský 1999 segir: „báðir málstaðir höfðu sitthvað til síns máls.“ Á Bland.is 2006 segir: „Er eitthvað að því að barist sé fyrir báðum málstöðum?“ Á mbl.is 2010 segir: „Réttar upplýsingar hljóta alltaf að þjóna báðum málstöðum.“ Á mbl.is 2014 segir: „Það er auðvelt að skilja báða málstaði.“. Á Vísi 2018 segir: „Báðir málstaðir þóttu vondir.“

Á tímarit.is eru engin dæmi um tvennur málstaður nema úr framangreindri ábendingu Gætum tungunnar sem birtist oft í dagblöðum. Engin dæmi eru heldur um margur málstaður án greinis en fáein um margur málstaðurinn með greini, t.d. „Enda er margur málstaðurinn góður“ í Vísi 1981, „Rangar baráttuaðferðir hafa spillt fyrir mörgum málstaðnum“ í Morgunblaðinu 2007 og „Hún hefur komið ótal sinnum fram til stuðnings mörgum málstaðnum“ í Morgunblaðinu 2008. Örfá dæmi eru um marga málstaði – í Skólablaðinu 1985 segir: „en það eru svo margir málstaðir góðir og margir sannleikar til í þessum heimi“ og í DV 2014 segir: „Það er úr ótalmörgum flokkum að velja í forritinu og hver þeirra inniheldur marga málstaði.“

Þótt orðið málstaður sé vissulega oftast haft í eintölu í nútímamáli hefur það ekki alltaf verið svo. Í einu elsta varðveitta íslenska handritinu, Stokkhólms hómilíubókinni frá því um 1200, segir: „Þó að þér finnið á því sanna málstaði.“ Í Skafinskinnu, Njáluhandriti frá seinni hluta 14. aldar, segir: „féllu hálfar bætur niður fyrir sakir málstaða þeirra, er hann þótti að eiga.“ Fleiri dæmi eru um fleirtöluna í fornu máli. Þarna er merkingin vissulega eilítið önnur en þó náskyld – 'álitamál', 'umræðuefni' eða eitthvað slíkt – reyndar gat orðið einnig merkt 'ræðustóll' áður fyrr. Það er merkingarlega eðlilegt að nota orðið í fleirtölu og hún er gefin í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Það er því engin ástæða til annars en nota hana.

Posted on Færðu inn athugasemd

Heimilispersóna

Eftir að umræða um breytingar á íslensku máli í átt til kynhlutleysis fór á flug fyrir fáum árum virðast andstæðingar þessara breytinga oft sjá skrattann í hverju horni og fordæma ýmislegt sem jafnvel hefur tíðast lengi í málinu vegna þess að þeir telja að um sé að ræða „afkynjun“ tungumálsins. Skýrt dæmi um þetta mátti sjá í innleggi í Málvöndunarþættinum í dag: „Heimilispersóna – nýjasta í atlögunni að tungumálinu – Mogginn í gær.“ Þar var greinilega vísað í fyrirsögn í Morgunblaðinu: „Saumavél var eins og heimilispersóna.“ Þetta er tilvitnun í viðmælanda blaðsins sem hefur rannsakað sögu saumavéla á Íslandi og segir: „Saumavélin var eins og heimilispersóna, svo eðlilegur hlutur þótti hún fljótlega upp úr aldamótum.“

Í umræðunni í Málvöndunarþættinum var reyndar bent á að orðið er ekki nýtt – í Ritmálssafni Árnastofnunar eru skráð tvö dæmi um það, frá sautjándu og átjándu öld. Elsta dæmið er þó í bréfi frá 1660 sem er prentað í Blöndu 1918: „Og meðkendu þær heimilispersónur, sem þar voru þá, fyrir prestinum og oss, sem greptran veittum hennar líkama, að síra Eiríkur Hallsson hefði þar ei heima verið, þá hennar afgangur skeði.“ Í Lögbergi 1916 segir líka: „Þessar tvær heimilispersónur voru henni mjög góðar.“ Ýmsir þátttakendur í umræðunni voru samt sárhneykslaðir og spurðu hvort ekki mætti lengur tala um heimilisfólk, hvort það væri of særandi fyrir einhverja. En notkun orðsins heimilispersóna í áðurnefndri grein á sér eðlilega skýringu.

Í meistararitgerð viðmælanda Morgunblaðsins um saumavélar á Íslandi er nefnilega vitnað í svar konu fæddrar 1911 við spurningaskrá Þjóðminjasafnsins frá 1990 um fatnað og sauma (svarið birtist einnig í Iðnnemanum 1999): „Því miður þrýtur hér vitneskju mína um þennan þarfahlut sem í barnsaugum mínum var nánast sem ein heimilispersónan.“ Þetta er vissulega óvenjulegt orðalag, og einmitt þess vegna er ekkert undarlegt að viðmælandi blaðsins noti það í frásögn sinni – og ekki er heldur óeðlilegt að það sé tekið upp í fyrirsögn vegna þess að einn tilgangur fyrirsagna er að vekja forvitni og fá fólk til að lesa meira. En þetta hefur sem sé engin tengsl við kynhlutlaust mál – ekki frekar en margt annað sem reynt er að klína á það.