Misgóðar málbreytingar – eða misvondar

Eins og hér hefur margoft verið rætt er það eðli tungumála að taka breytingum. Þau verða í raun að gera það til að þjóna þörfum málsamfélaganna sem nota þau, þótt vissulega séu breytingar misjafnlega nauðsynlegar og sumar séu ekki til bóta. Sumum finnst reyndar allar breytingar á málinu til bölvunar og það held ég að sé skaðlegt viðhorf. Ég held að það sé gagnlegt að reyna að flokka málbreytingar og átta sig á eðli þeirra – meta hvort ástæða sé til að amast við þeim eða jafnvel berjast gegn þeim af öllu afli. Þess vegna set ég hér fram tillögu að fjórum flokkum breytinga. Ég veit vel að margt í þessari flokkun orkar tvímælis og þykist vita að mörgum þyki mega setja ýmislegt af því sem ég nefni í öðrum flokki í þriðja eða jafnvel fjórða flokk.

  1. Þarfar eða nauðsynlegar breytingar. Undir þetta falla nær eingöngu breytingar á orðaforða. Á öllum tímum eru að koma til ný fyrirbæri og athafnir sem þurfa heiti, nýjar hugmyndir og hugtök sem þarf að vera hægt að tala um, og þess vegna þarf sífellt að vera að auka orðaforðann, annaðhvort með nýmyndunum eða tökuorðum. Um þetta er vitanlega almenn sátt í málsamfélaginu þótt fólk geti verið misánægt með nýju orðin. En önnur mikilvæg breyting á orðaforða felst í því að hætta að nota orð sem fela í sér fordómafulla afstöðu eða eru niðurlægjandi fyrir tiltekna einstaklinga og hópa – orð eins og negri, fáviti, kynvilla o.þ.h. Þótt flestum finnist þetta eðlilegt að einhverju marki er oft ágreiningur um hve langt skuli ganga.
  2. Eðlilegar og meinlausar breytingar. Undir þetta falla langflestar breytingar sem eru að verða og hafa orðið á málinu, svo sem hvers kyns breytingar á fallstjórn (mig langar > mér langar, spá í það > spá í því), fallendingum (drottningar > drottningu, læknar > læknirar), framburði (ána > ánna, hugsa [hʏxsa] > huggsa [hʏksa]), setningagerð (ég var barinn > það var barið mig), orðanotkun (brauðrist > ristavél), samtengingum (fyrst > víst, við hliðina á > hliðiná) eintölu- og fleirtöluorðum (trúarbrögð / trúarbragð, keppni / keppnir), o.s.frv. Vitanlega mæta flestar þessar breytingar andstöðu – við erum íhaldssöm og viljum halda málinu eins og við lærðum það. En þær eru flestar rökréttar og skiljanlegar og raska ekki málkerfinu.
  3. Óheppilegar eða óæskilegar breytingar. Undir þetta falla breytingar sem draga úr fjölbreytni og raska samfellu málsins á einhvern hátt. Það má t.d. segja að sú breyting þegar svokallaðir u-stofnar hættu að beygjast á sérstakan hátt og þolfall fleirtölu fjörðu, skjöldu o.s.frv. varð firði, skildi o.s.frv. falli undir þetta – dró úr fjölbreytni beygingakerfisins án þess þó að raska grundvelli þess. Það má líka segja að samfall i/í og y/ý á sínum tíma hafi verið óheppilegt, og ein ástæða baráttu gegn svokölluðu „flámæli“ var að það hefði getað leitt til samfalls ýmissa orðmynda (skyr / sker, flugur / flögur). Undir þetta getur einnig fallið ástæðulaus notkun enskættaðra orða og orðasambanda þar sem til eru góð og gild íslensk orð.
  4. Skaðlegar breytingar. Undir þetta falla breytingar sem raska grundvallaratriðum málkerfisins. Það væri t.d. ef lýsingarorð hættu að beygjast, eða eignarfall hyrfi úr málinu, eða frumlag setninga stæði alltaf í nefnifalli, eða hefðbundin þolmynd hyrfi úr málinu, eða verulegar breytingar yrðu á framburði vegna samlögunar og brottfalls hljóða, o.s.frv. Sem betur fer er ekki að sjá að neitt af þessu sé að fara að gerast á næstunni, en þessi atriði eru þó ekki nefnd alveg út í bláinn og mikilvægt að vera á verði. En undir þetta falla ekki síður breytingar á málumhverfi eða viðhorfi málnotenda sem valda því að íslenska verði ekki lengur nothæf eða notuð á tilteknum sviðum. Slíkar breytingar eru langmesta ógnin við íslensku um þessar mundir.

Þegar ég sá um þáttinn „Daglegt mál“ í Ríkisútvarpinu um tveggja mánaða skeið sumarið 1984, fyrir fjörutíu árum, sagði ég í einum þættinum: „Ég held að það sé hvorki nauðsynlegt né skynsamlegt að berjast af sama krafti gegn öllum breytingum, heldur verði að vega það og meta hverju sinni, hvort málstaðurinn sé baráttunnar virði. Á því hafa menn auðvitað mismunandi skoðanir, en ég get t.d. hugsað mér þrjár gildar ástæður fyrir að vilja sporna gegn ákveðinni málbreytingu; að hún geri okkur erfiðara um vik að skilja málfar undangenginna kynslóða, að hún minnki fjölbreytni málsins, og að hún raski grundvallarþáttum málkerfisins – sem að vísu gæti reynst erfitt að skilgreina hverjir séu.“ Ég er enn sama sinnis.