Að sammæla(st)

Í grein í Heimildinni á föstudaginn stendur: „„Stóra málið eru efnahagsmálin,“ útskýrði þingmaður Viðreisnar í sjónvarpsfréttum RÚV síðar um kvöldið. Við hlið hans stóð umhverfis-, orku- og loftslagsráðherrann og sammælti.“ Ég staldraði við síðasta orðið, sammælti, sem kom mér ókunnuglega fyrir sjónir – þótt miðmyndin sammælast sé vissulega algeng er germyndina sammæla ekki að finna í orðabókum. Hún kemur þó fyrir í Guðbrandsbiblíu frá 1584: „þeir höfðu sammælt með sér að þeir vildu koma og sampínast honum.“ Örfá dæmi má einnig finna um germyndina á tímarit.is en eingöngu í afturbeygðri notkun sem jafngildir miðmyndinni – „Menn hafa frjálsar hendur með að sammæla sig með tíma“ segir t.d. í Tímanum 1981.

Nokkur dæmi um sammælast frá 17. og 18. öld eru í Ritmálssafni Árnastofnunar en elsta dæmið á tímarit.is er í Skírni 1868. En sögnin er fremur sjaldgæf lengi vel – aðeins um hundrað dæmi um hana á tímarit.is fram til 1970. Eftir það fjölgar dæmum ört og þó einkum eftir 1990, og alls eru dæmin á tímarit.is rúmlega 2.600. Í Risamálheildinni eru dæmin hátt í sjö þúsund þannig að þetta er greinilega orð á hraðri uppleið. En merking sagnarinnar hefur reyndar breyst. Í fyrstu tveim útgáfum Íslenskrar orðabókar frá 1963 og 1983 er hún skýrð 'ákveða stefnumót við e-n' – sammælast e-m, sammælast við e-n – og í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er hún skýrð 'aftale Møde el. Følgeskab med hinanden', þ.e. 'koma sér saman um stefnumót eða samfylgd'.

Þessi merking sést glöggt í flestum eldri dæmum um sögnina. Í dæminu í Skírni 1868 segir: „Þeir þingmenn, er áður eru nefndir, og með þeim þrettán blaðaritendur frá Parísarborg, sammæltust til ferðar og komu til Kaupmannahafnar í miðjum ágústmánuði.“ Í Heimskringlu 1895 segir: „Þegar fólk var ferðbúið fór það að sammælast og áttu þá ýmsir samleið, sem nærri má geta.“ Í Nýjum kvöldvökum 1911 segir: „Við sammæltumst, þessir sömu þrír sem haustið áður, og ákváðum að gista á Dynjanda.“ Í Norðurlandi 1912 segir: „Hann hafði sammælst við Hermann Stoll á Brú 8 ágúst, til þess að verða samferða þenna sjaldfarna fjallveg.“ Í Sunnudagsblaði Tímans 1970 segir: „Sammæltust þeir svo daginn eftir á sama stað.“

En í þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 2002 er sögnin hins vegar skýrð 'taka sameiginlega ákvörðun um e-ð' og í Íslenskri nútímamálsorðabók er hún skýrð 'ákveða (e-ð) í sameiningu'. Þessari merkingu bregður vissulega fyrir í gömlum dæmum, t.d. dæminu úr Guðbrandsbiblíu sem vitnað var til hér að framan. Sama gildir um dæmi í Skírni 1869: „Sumir segja, að stjórnin sje farin að sjá sitt óvænna, því hún hafi fengið að vita, að Czekar og Pólverjar i Galizíu sje farnir að sammælast um ráðin.“ Eldri merking sagnarinnar er í raun hlutmengi af þeirri nýrri. Báðar fela í sér sameiginlega ákvörðun, en í nýrri merkingunni getur sú ákvörðun varðað hvað sem er – í þeirri eldri varðar hún hins vegar ævinlega ferð eða stefnumót.

Lengi framan af er eldri merkingin ráðandi í dæmum á tímarit.is þótt víðari merkingunni bregði fyrir stöku sinnum. Hún verður hins vegar smátt og smátt meira áberandi upp úr 1970, samfara fjölgun dæma um sögnina, og eftir 1990 þegar dæmum snarfjölgar er eldri merkingin sárasjaldgæf. En í germyndardæminu úr Heimildinni sem vitnað var til í upphafi er um þriðju merkinguna að ræða – þar er sögnin notuð í merkingunni 'samsinna'. Það er sjaldgæft en þó ekki einsdæmi. Í Bræðrabandinu 1985 segir: „Dómnum yfir honum og þeim sem sammæltu honum var fullnægt á skjótan og áhrifaríkan hátt.“ Í DV 1988 segir: „„Alveg örugglega,“ sammæltu þau.“ Þessi notkun er í sjálfu sér rökrétt án þess að ég mæli sérstaklega með henni.