Á einum fæti
Í gær var sett hér inn spurningin „Er ekki frekar algengt að fólk segist hoppa eða standa á einum fæti?“ Í umræðum kom fram að fyrirspyrjanda þætti þetta orðalag rangt og sama máli virtist gegna um mörg þeirra sem tóku þátt í umræðunum og töldu rétt að segja á öðrum fæti. Vissulega hefur síðarnefnda orðalagið lengi verið mun algengara – á tímarit.is eru fjórum til fimm sinnum fleiri dæmi um hoppa / standa á öðrum fæti en hoppa / standa á einum fæti. Munurinn virðist þó fara minnkandi því að í Risamálheildinni eru um 300 dæmi um öðrum fæti í þessum samböndum en um 160 dæmi um einum fæti. Í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar eru álíka mörg dæmi um bæði samböndin sem sýnir enn frekar að einum er í sókn í þeim.
En það er engin nýjung að nota einum í þessum samböndum. Í Ísafold 1892 segir: „Allt í einu setti hann annan fótinn þvert út í loptið […], en stóð á einum fæti upp á öxlum hinna, er efstir stóðu.“ Í Nýjum kristilegum smáritum 1894 segir: „Þeir stóðu nú flestir á einum fæti og lituðust um.“ Í Verði ljós 1896 segir: „En þegar Tomrni stóð og hímdi fyrir utan opinn búðargluggann, hálfnötrandi af kulda og standandi altaf á víxl á einum fæti.“ Í Íslandi 1897 segir: „En hún hoppar ekki á einum fæti.“ Í Hauki 1899 segir: „þar eru menn, sem hoppa að eins á einum fæti, en eru samt sem áður eins hraðfara, eins og vindurinn.“ Í Framsókn 1901 segir: „Þóra stóð á einum fæti, eins og hún var vön að gera þegar hún gladdist ákaflega.“
Það er því ljóst að gömul og rík málvenja er fyrir því að tala um að hoppa og standa á einum fæti. Auðvitað getur fólk haft þá skoðun að betur fari á að segja á öðrum fæti en þótt samböndin séu oft og jafnvel oftast notuð í sömu merkingu er ég ekki viss um að þau séu alltaf nákvæmlega jafngild. Þegar sagt er á einum fæti finnst mér áherslan oft vera á því afreki að nota bara einn fót en ekki tvo, eins og í „komst loks á einum fæti heim til kerlu sinnar aptur“ í Ísafold 1889. En hvað sem þessu líður er þetta skýrt dæmi um tvær málvenjur sem lengi hafa tíðkast hlið við hlið og engar forsendur fyrir því að kalla aðra ranga en hina rétta, þótt fólk geti vitanlega tekið aðra fram yfir hina í eigin máli af vana eða einhverjum öðrum ástæðum.