Við erum góð í lélegri ensku

Eins og iðulega hefur verið skrifað um á þessum vettvangi eru Íslendingar mjög oft fljótir til að skipta yfir í ensku þegar kemur í ljós að viðmælandinn talar ekki fullkomna íslensku. Fólk skortir þolinmæði til að bíða eftir að viðmælendur finni réttu orðin, réttu beygingarmyndirnar, eða réttu setningagerðina, en einnig skortir umburðarlyndi gagnvart „ófullkominni“ íslensku – erlendum hreim, frávikum í beygingu og setningagerð o.fl. Stundum telur fólk sig vissulega vera að gera viðmælendum greiða með því að skipta yfir í ensku, en einnig kunna að vera dæmi um að enskan sé notuð til að neita viðmælendum um fullan aðgang að íslensku samfélagi. En hver sem ástæðan er leiðir þetta háttalag til þess að fólk fær ekki tækifæri til að æfa sig í málinu.

Fyrir meira en tuttugu árum las ég viðtal við konu sem hafði í æsku átt heima í Afríkuríki – „í alþjóðlegu hverfi þar sem börn af mörgu þjóðerni […] léku sér saman. Samskiptamálið var léleg enska […].“ Konan bætti við: „Ég er nokkuð góð í lélegri ensku.“ Mér fannst þetta athyglisvert orðalag á sínum tíma en var fyrir löngu búinn að gleyma því. Undanfarið hefur það þó iðulega rifjast upp fyrir mér vegna þess að ég sé ekki betur en það stefni hraðbyri í að helsta samskiptamálið á Íslandi verði einmitt þetta tungumál – léleg enska. Við erum nefnilega flest nokkuð góð í henni. En það grátbroslega í þessu er að sú enska sem við skiptum yfir í er örugglega oft lélegri en íslenskan sem viðmælandinn var að reyna að tala við okkur.

En léleg enska er ekki móðurmál neinna. Léleg enska er það sem orðin segja – ófullkomið tungumál sem getur vissulega nýst til einfaldra samskipta á afmörkuðum sviðum en er fjarri því að búa yfir þeim fjölbreyttu möguleikum til tjáningar, samskipta, hugsunar og sköpunar sem móðurmál hafa – og þurfa að hafa. Með því að láta gott heita að samskipti við fólk sem hingað flytur fari fram á lélegri ensku erum við að skerða möguleika fólksins til fullrar þátttöku í samfélaginu og svipta það möguleikanum á að gera íslensku að sínu tungumáli og nýta hana til þeirra fjölbreyttu verkefna sem móðurmál þarf að sinna. Þess vegna verðum við að kenna innflytjendum íslensku – og gefa þeim færi á að nýta og auka íslenskukunnáttu sína.