Eru Danir karlkyns?
Þótt flest starfs- og hlutverksheiti sem enda á -maður séu að nafninu til kynhlutlaus, í þeim skilningi að þau á að vera hægt að nota um fólk af öllum kynjum, fer því fjarri að svo sé í raun í huga málnotenda. Sama gildir um íbúaheiti sem öll eru karlkyns í íslensku – þau hafa greinlega sterk tengsl við karlmenn í huga málnotenda. Til að sýna fram á þetta skoðaði ég í Risamálheildinni hvaða orðalag þar er haft um nafngreinda Dani. Ég leitaði að fimm samböndum – Daninn X, danski *maðurinn X, danska *konan X, hinn danski X og hin danska X. X stendur hér fyrir sérnafn, og * stendur fyrir hvaða fyrri hluta sem er – *maðurinn skilar þá t.d. þingmaðurinn, leikmaðurinn, listamaðurinn o.s.frv., og samsvarandi með *konan.
Alls voru 3.689 dæmi um Daninn X í Risamálheildinni og þar af vísuðu aðeins 32 til kvenna eða tæplega 0,9%. Vissulega er margfalt meira sagt frá körlum en konum í fjölmiðlum en þó er ekki trúlegt að munurinn sé svona mikill og líklegra að þetta stafi að einhverju leyti af því að karlkynsorðið Dani sé síður notað um konur. Svipað kemur út þegar danski *maðurinn X er skoðað. Sú leit skilaði 3.807 dæmum og þar af vísaði ekki nema 31 til kvenna eða rúmlega 0,8%. Hér gegnir sama máli – skýringin á þessum gífurlega mun hlýtur að einhverju leyti að vera sú að málnotendum finnist samsetningar með -maður síður eiga við um konur. Þess í stað eru oft notaðar samsetningar með -kona – leit að danska *konan X skilaði 620 dæmum.
Allt annað er uppi á teningnum þegar ekki eru notuð nafnorð í karlkyni heldur eingöngu lýsingarorð sem beygjast í kynjum. Alls fundust 713 dæmi um sambandið hinn danski X en 529 um hin danska X – hlutfall kvenkynsins er þar tæp 43% af heildinni. Þegar allt er talið saman – Daninn X, danski *maðurinn X, danska *konan X, hinn danski X og hin danska X – er hlutfall dæma sem vísa til kvenna tæp 13% af heildinni. Það má halda því fram að sú tala endurspegli karllægni í umfjöllun fjölmiðla. En tæplega 1% í vísun orðsins Dani og í vísun samsetninga með -maður til kvenna endurspeglar hins vegar karllægni orðanna sem um er að ræða – þá tilfinningu málnotenda að þrátt fyrir meint kynhlutleysi tengist þau fremur körlum en konum.
Mörgum finnst þessi kynjahalli væntanlega ekkert til að gera veður út af, og það er a.m.k. ljóst að á honum er engin einföld lausn. Vissulega eru til ýmsar samsetningar með -kona sem stundum eru notaðar í stað samsetninga með -maður í vísun til kvenna, en sú lausn er oft ekki sérlega heppileg, m.a. vegna þess að eftir sem áður vantar orð um kynsegin fólk. Það væri hugsanlegt að búa til kvenkyns íbúaheiti, *Dana, til að nota í vísun til kvenna, en það væri tæpast raunhæft af ýmsum ástæðum. Í þessu tilviki eins og ýmsum öðrum verðum við, um sinn a.m.k., að búa við málið eins og það er – en það er samt mikilvægt að átta sig á þeim duldu og oftast ómeðvituðu skilaboðum sem við sendum með málnotkun okkar í dæmum eins og þessu.