Ég get svarið fyrir það
Í innleggi hér fyrr í dag sagðist höfundur vera hissa á því að fólk segðist oft geta svarið fyrir eitthvað „þegar ljóst má vera af samhenginu að það er reiðubúið að leggja eið að því að eitthvað sé eins og segir“. Sambandið sverja fyrir er skýrt 'neita e-u með eiði' í Íslenskri orðabók og var áður – fyrir daga DNA-prófa – ekki síst notað í sambandinu sverja fyrir barn, þ.e. 'sverja að maður væri ekki faðir að barni'. En þótt sögnin sverja merki upphaflega ‚vinna eið‘ er hún í venjulegu máli oftast notuð í merkingunni 'fullyrða, vera alveg viss um, standa fast á' í samböndum eins og ég get (svo) svarið það – sú merking er reyndar talin „óformleg“ bæði í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók.
Það sem átt er við í áðurnefndu innleggi eru væntanlega setningar eins og þessi í Fréttablaðinu 2004: „Ég er búin með einhverjar 50 blaðsíður í bókinni og get svarið fyrir það að ég skil það sem ég er að lesa.“ Upphaflega merkingin í sverja fyrir er 'neita' eins og áður segir en af samhenginu er ljóst að lesarinn skilur textann sem um er að ræða. Það má því segja að sambandið sé þarna notað í þveröfugri merkingu við orðabókarskýringuna, þ.e. í sömu merkingu og sverja. Það er ekki nýtt og ástæðuna má trúlega rekja til neitandi merkingar sverja fyrir. Í mörgum af eldri dæmum um sambandið er tvöföld neitun sem líklega ruglar málnotendur í ríminu, ef svo má segja, og veldur því að farið er að skilja sverja fyrir eins og sverja.
Í þýddri sögu í Hauki 1900 segir: „Hann […] fann loks í koffortinu hennar ýmsa muni, er hún gat svarið fyrir, að hún hefði aldrei áður sjeð.“ Ef svarið fyrir merkir hér 'neitað' inniheldur málsgreinin tvöfalda neitun (svarið fyrir og aldrei) og merkir 'er hún gat neitað að hún hefði aldrei áður séð'. Neitanirnar eyða áhrifum hvor annarrar og því verður merkingin í raun að hún játaði að hafa séð munina. Samhengið sýnir hins vegar að það á setningin ekki að merkja, og í annarri þýðingu sögunnar í Heimilisvininum 1910 segir: „Hann […] fann fjölda gripa í kistu hennar, er hún gat svarið fyrir að hafa nokkru sinni séð á ævi sinni.“ Þarna er engin neitun í aukasetningunni og ljóst að svarið fyrir er notað í merkingunni 'neita' – öfugt við fyrra dæmið.
Í Suðurlandi 1913 segir: „Ekki get eg svarið fyrir það, að hér sjáist ekki vatnsdropi.“ Í Vikunni 1942 segir: „En þau skjöl voru ekki hér, það get ég svarið fyrir.“ Í Þjóðviljanum 1943 segir: „Ég get svarið fyrir það, að aldrei hefur mér dottið til hugar að ég mundi fá konur handa sonum mínum á þennan hátt.“ Í Morgunblaðinu 1953 segir: „Ég get svarið fyrir það, að hann man ekki meira.“ Í Alþýðublaðinu 1953 segir: „Já, það get ég svarið fyrir, að þetta hefur engin gert fyrr.“ Í Þjóðviljanum 1954 segir: „Það hélt ég að ég gæti svarið fyrir að ég ætti ekki eftir að skrifa í Þjóðviljann.“ Í Fálkanum 1961 segir: „Hann gat svarið fyrir, að hún væri ekki frá Tübingen.“ Í öllum þessum dæmum er tvöföld neitun og sverja fyrir merkir sama og sverja.
En það eru líka gömul dæmi um að geta svarið fyrir merki sama og sverja án þess að nokkur neitun sé í málsgreininni. Í Syrpu 1915 segir: „Ég gætti að Stewart og hefði getað svarið fyrir að hann sagði sannleikann, eins og við hinir.“ Í Morgunblaðinu 1919 segir: „Þetta er verk þessarar djöfullegu Estellu, það get eg svarið fyrir, hrópaði Kathleen upp.“ Í Vikunni 1940 segir: „Þegar ég lagði mig fyrir eftir hádegið, var aðalleiðslan lokuð, það get ég svarið fyrir.“ Í Morgunblaðinu 1950 segir: „hún hefði getað svarið fyrir að hún sá snöggvast, á broti úr sekúndu, Rosönnu bregða fyrir.“ Í Morgunblaðinu 1951 segir: „Gætir þú ekki svarið fyrir að þetta er Norma?“ Í Vikunni 1959 segir: „Þeir settust á akurinn hjá mér, það get ég svarið fyrir.“
Sambandið geta svarið fyrir var því notað í tveimur mismunandi merkingum alla tuttugustu öldina, ýmist 'neita' eða 'fullyrða, sverja', en síðarnefnda – og yngri – merkingin hefur þó smám saman verið að sækja í sig veðrið og er nú greinlega aðalmerking sambandsins. Hún er notuð í langflestum dæmum í Risamálheildinni, þ. á m. öllum dæmum af samfélagsmiðlum sem eru meginhluti dæmanna – þetta samband er greinilega mikið notað í óformlegu málsniði. Oftast er ljóst af samhengi og setningagerð um hvora merkinguna er að ræða – sú eldri tekur t.d. frekar með sér viðtengingarhátt eða nafnhátt en hin framsöguhátt. Stundum koma þó báðar merkingar til greina og það er vissulega óheppilegt en við því er lítið að gera.