Misupplýsingar, rangupplýsingar, meinupplýsingar
Í Málvöndunarþættinum sá ég að vakin var athygli á ókunnuglegum orðum í frétt á Vísi nýlega: „Í yfirlýsingu segir hann að ummælin séu byggð á misupplýsingum og að hún beri í raun mikla virðingu fyrir Harris. Rangupplýsinga um fjölskyldusögu Harris hefur gætt á samfélagsmiðlum vestanhafs.“ Þarna koma fyrir tvö nýleg íðorð sem ekki eru í almennum orðabókum en er hins vegar að finna í orðasafninu Alþjóðastjórnmál og stjórnmálafræði í Íðorðabankanum. Skilgreining á misupplýsingar er 'rangar upplýsingar sem deilt er án ásetnings um að valda skaða', rangupplýsingar eru 'rangar upplýsingar sem deilt er til að valda skaða', og við bætast þriðja orðið, meinupplýsingar, sem eru 'réttar upplýsingar sem deilt er til að valda skaða'.
Þessi orð vísa til grundvallarhugtaka á sviði upplýsingaóreiðu (information disorder) og eru þýðingar á ensku orðunum misinformation, disinformation og malinformation. Forskeytið mis- hefur ýmsar merkingar en þarna er merkingin sambærileg við merkingu þess í misskilningur sem má orða sem 'rangur skilningur sem skapast án þess að blekkingum sé beitt'. Orðið rangupplýsingar á sér líka hliðstæðu í rangskilningur sem er mjög sjaldgæft en þó að finna í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924. Í Íslenskri samheitaorðabók er það einnig gefið sem samheiti við misskilningur en rangur tengist þó miklu fremur ætlun en mis- eins og sjá má af samheitunum falsaður, falskur, loginn. Merkingin í mein- er svo augljós út frá nafnorðinu mein.
Upplýsingaóreiða og falsfréttir eru mjög til umræðu þessi misseri og nauðsynlegt að hafa íslensk orð yfir helstu hugtök á því sviði, og umrædd orð eru þegar komin í nokkra notkun. Vitanlega má deila um hversu vel heppnuð þau séu – það fer oft ekki sérlega vel að bæta einkvæðu forskeyti eða forlið framan við orð sem er með einkvætt forskeyti eða forlið fyrir. En það er varla völ á öðru grunnorði en upplýsingar þarna og val forliðanna er eðlilegt eins og hér hefur verið rakið. Svo er rétt að hafa í huga að ekki eiga öll íðorð erindi inn í almenna umræðu og eftir er að koma í ljós hversu víðtæk notkun orðanna misupplýsingar, rangupplýsingar og meinupplýsingar verður. En verði þau notuð eitthvað að ráði venjumst við þeim örugglega fljótt.