Posted on Færðu inn athugasemd

Að varsla skotvopn

Í gær vitnuðu bæði mbl.is og Vísir í tilkynningu á vef Lögreglunnar í gær þar sem segir: „Sömuleiðis eru nokkur brögð að því að í fórum manna finnist gömul skotvopn sem í flestum tilfellum reynast hafa komið „frá afa“ en eru ekki skráð á þann sem varslar þau. Afar mikilvægt er að skotvopnaleyfishafar séu meðvitaðir um að óheimilt er að varsla skotvopn án tilskilinna leyfa.“ Þarna er sögnin varsla notuð tvisvar og í  hópnum Skemmtileg íslensk orð var spurt hvort fólk kannaðist við hana. Sögnina er hvorki að finna í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók en eitt dæmi um lýsingarháttinn varslaður er í Ritmálssafni Árnastofnunar: „Umhyggjusamlega var hann varslaður þessi blettur“ segir í Andvara 1962.

Í þessu dæmi er verið að tala um afgirtan blett og varslaður merkir greinilega 'varinn' en sú merking kemur ekki fram í öðrum dæmum. Næstelsta dæmi sem ég finn um orðið er úr ræðu á Alþingi 1987: „Ef menn fara yfir þann lista um alla þá sjóði sem varslaðir hafa verið í Seðlabankanum.“ Hér merkir varslaðir augljóslega 'varðveittir' og sama máli gegnir um öll yngri dæmi að því er virðist. Í Austra 1997 segir: „verður leitað tilboða frá til þess bærum aðilum, að varsla þessa peninga og ráðstafa þeim.“ Í Morgunblaðinu 1998 segir: „Átekin myndbönd skulu vörsluð í læstri hirslu og geymd í 30 daga.“ Í Morgunblaðinu 2003 segir: „menn sem séð hafi um að taka á móti fíkniefnunum, varsla þau og koma þeim í verð.“

Undanfarin tuttugu ár hefur sögnin varsla verið nokkuð notuð, einkum í dómum og lagafrumvörpum þar sem talað er um að varsla fíkniefni, varsla barnaklám, varsla skotvopn o.fl. En sögnin er einnig nokkuð notuð í fréttum fjölmiðla af dóms- og lögreglumálum, sem og fjármálafréttum – talað er um að varsla fé, varsla lífeyrissparnað, varsla skuldabréf o.fl. Í öllum tilvikum er verið að tala um varðveislu og því má spyrja hvort einhver þörf sé á sérstakri sögn – hvort ekki mætti einfaldlega nota sögnina varðveita. En varsla merkir ekki alveg það sama – í henni felst að varðveislan sé tímabundin og oftast í einhverjum sérstökum tilgangi öðrum en bara varðveita það sem um er að ræða. Þetta er gagnsæ og lipur sögn sem sjálfsagt er að nota.

Posted on Færðu inn athugasemd

1138

Í yfirliti á heimasíðu minni um þá pistla sem ég hef skrifað hér má sjá að þessi er sá 1138. í röðinni. Það er í sjálfu sér ekkert merkileg tala en þó takmark sem ég hef lengi stefnt að. Þetta er nefnilega sama tala og fjöldi þáttanna um „Íslenskt mál“ sem Gísli heitinn Jónsson skrifaði í Morgunblaðið á árunum 1979-2001. Pistlum mínum svipar um margt til þátta Gísla – hann skrifaði fróðleiksmola um ótal málfarsatriði og svaraði fyrirspurnum lesenda. Ég hef margoft fjallað um sömu eða svipuð atriði og Gísli og vitna oftar í hann en nokkurn annan, enda veit ég ekki til að meira liggi eftir nokkurn á prenti um daglegt mál og málnotkun – Árni Bövarsson fjallaði mjög mikið um þetta en þættir hans um daglegt mál eru ekki aðgengilegir á prenti.

Gísli kenndi mér íslensku á öðrum vetri mínum í Menntaskólanum á Akureyri fyrir rúmri hálfri öld, 1972-1973. Hann fór yfir Íslenzka málfræði handa æðri skólum eftir Halldór Halldórsson þar sem fjallað er um hljóðfræði og beygingafræði fornmálsins. Mörgum fannst þetta óheyrilega leiðinlegt og strembið en ég hafði býsna gaman af því enda löngum verið nörd. Einnig fór hann yfir Gylfaginningu og gerði það á mjög málfræðilegan hátt – rakti orðsifjar þannig að ég varð á tímabili mikill áhugamaður um orðsifjafræði. Ég á einhvers staðar í skúffu glósur mínar úr tímum Gísla og man jafnvel einstök atriði úr því sem hann sagði, svo sem að orðin spjald og fjöl séu skyld (þótt ég geti ekki rakið smáatriðin í skýringu á þeim skyldleika).

Þegar ég var að endurskrifa pistla sem ég hafði birt á Facebook til birtingar í bók minni Alls konar íslenska fór ég yfir alla þætti Gísla og fann þá margt sem ég gat bætt inn í umfjöllun mína. Gísli var vitanlega málvöndunarmaður af gamla skólanum og ég er oft á öndverðum meiði við hann, en í ýmsum tilvikum vék hann líka frá einstrengingslegum hugmyndum um eitt rétt afbrigði. Þegar hann var að skrifa sína þætti var aðgangur að heimildum mjög takmarkaður miðað við það sem nú er – engin rafræn gagnasöfn komin til og hann á Akureyri fjarri söfnum Orðabókar Háskólans, og blöð og tímarit eingöngu á prentuðu formi en ekki leitarbær í gullkistunni tímarit.is. Þess vegna er aðdáanlegt hversu fjölbreytt og ítarleg skrif hans voru.