Posted on Færðu inn athugasemd

Að varsla skotvopn

Í gær vitnuðu bæði mbl.is og Vísir í tilkynningu á vef Lögreglunnar í gær þar sem segir: „Sömuleiðis eru nokkur brögð að því að í fórum manna finnist gömul skotvopn sem í flestum tilfellum reynast hafa komið „frá afa“ en eru ekki skráð á þann sem varslar þau. Afar mikilvægt er að skotvopnaleyfishafar séu meðvitaðir um að óheimilt er að varsla skotvopn án tilskilinna leyfa.“ Þarna er sögnin varsla notuð tvisvar og í  hópnum Skemmtileg íslensk orð var spurt hvort fólk kannaðist við hana. Sögnina er hvorki að finna í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók en eitt dæmi um lýsingarháttinn varslaður er í Ritmálssafni Árnastofnunar: „Umhyggjusamlega var hann varslaður þessi blettur“ segir í Andvara 1962.

Í þessu dæmi er verið að tala um afgirtan blett og varslaður merkir greinilega 'varinn' en sú merking kemur ekki fram í öðrum dæmum. Næstelsta dæmi sem ég finn um orðið er úr ræðu á Alþingi 1987: „Ef menn fara yfir þann lista um alla þá sjóði sem varslaðir hafa verið í Seðlabankanum.“ Hér merkir varslaðir augljóslega 'varðveittir' og sama máli gegnir um öll yngri dæmi að því er virðist. Í Austra 1997 segir: „verður leitað tilboða frá til þess bærum aðilum, að varsla þessa peninga og ráðstafa þeim.“ Í Morgunblaðinu 1998 segir: „Átekin myndbönd skulu vörsluð í læstri hirslu og geymd í 30 daga.“ Í Morgunblaðinu 2003 segir: „menn sem séð hafi um að taka á móti fíkniefnunum, varsla þau og koma þeim í verð.“

Undanfarin tuttugu ár hefur sögnin varsla verið nokkuð notuð, einkum í dómum og lagafrumvörpum þar sem talað er um að varsla fíkniefni, varsla barnaklám, varsla skotvopn o.fl. En sögnin er einnig nokkuð notuð í fréttum fjölmiðla af dóms- og lögreglumálum, sem og fjármálafréttum – talað er um að varsla fé, varsla lífeyrissparnað, varsla skuldabréf o.fl. Í öllum tilvikum er verið að tala um varðveislu og því má spyrja hvort einhver þörf sé á sérstakri sögn – hvort ekki mætti einfaldlega nota sögnina varðveita. En varsla merkir ekki alveg það sama – í henni felst að varðveislan sé tímabundin og oftast í einhverjum sérstökum tilgangi öðrum en bara varðveita það sem um er að ræða. Þetta er gagnsæ og lipur sögn sem sjálfsagt er að nota.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.