Þérun og þéringar

Hér var spurt í dag hvort orðið þérun væri ekki til – sem það er vissulega.  Hins vegar vandist ég því að kalla þetta fyrirbæri þéringar – í fleirtölu eins og algengast er. Eintölunni þéring bregður að vísu fyrir en er sárasjaldgæf. Elsta dæmi um þéringar í Ritmálssafni Árnastofnunar er frá 1854, en elsta dæmið á tímarit.is er frá 1886. Orðið þérun er yngra – elsta (og raunar eina) dæmi um það í Ritmálssafni Árnastofnunar er frá Ólafi Davíðssyni og væntanlega síðan kringum 1900, en elsta dæmi á tímarit.is er frá 1919. Fyrrnefnda orðið var lengst af mun algengara, en í Risamálheildinni eru dæmi um orðin álíka mörg. Öfugt við þéringar er þérun langoftast höfð í eintölu þótt fleirtalan sé einnig stundum notuð.

Viðskeytin -ing og -un eru bæði virk til nýmyndunar í málinu og hafa u.þ.b. sama hlutverk – að búa til verknaðarnafnorð af sögn. X+ing og X+un merkir hvort tveggja 'það að gera X', þannig að bæði þéring(ar) og þérun merkir 'það að þéra'. Það er nokkuð um slíkar tvímyndir í málinu – stundum í sömu merkingu en stundum hefur merking -ing-orðsins breyst. Bæði þéring(ar) og þérun eru því eðlileg og rétt mynduð orð. Ein ástæða þess að síðarnefnda orðið er hlutfallslega meira notað á síðustu áratugum gæti verið sú að oft er talað um þérun og þúun í sömu andrá og fólki finnist því eðlilegt að nota sama viðskeytið, frekar en tala um þéringar og þúun – myndin þúing er varla til, þótt eitt dæmi um hana megi finna á tímarit.is.

En ýmis vandi gat fylgt þéringum. Í Málfarsbankanum segir: „Sögn, sem með fornafninu stendur, er ávallt í fleirtölu. Þér verðið að koma seinna, Jón. Hins vegar er sagnfylling (lýsingarorð eða lýsingarháttur) ýmist höfð í eintölu eða fleirtölu þegar einn er ávarpaður. Þér eruð krafinn eða krafnir um svar, Guðmundur. Þér eruð dónaleg eða dónalegar, stúlka mín.“ Hins vegar segir Björn Sigfússon í Samtíðinni 1943: „Við þérun á einum manni skal hafa lo. og lh. í eintölu: Verið þér velkominn, þér eruð ferðlúinn, – þér eruð, frú, sjaldséð hér, sjaldséður gestur. Undantekning sakir málvenju um sinn: Komið þér sælar, – verið þér sælir og blessaðir eða verið þér sæll og blessaður, – og mega menn velja þar um et. og ft. í ávarpinu eftir smekk.“

Hugsanlega hefur verið einhver mállýskumunur á þessu ef marka má það sem haft er eftir Baldri Jónssyni prófessor í Morgunblaðinu 1999. Baldur „greindi eftir að hann kom suður mun á þérun í MA og Menntaskólanum í Reykjavík. „Það var ekki þérað á sama hátt í þessum skólum. Kennari fyrir norðan gat sagt við nemanda: „Eruð þér eitthvað lasin.“ „Eruð þér þreytt“. „Þér eruð dugleg.“ En í MR var fleirtalan notuð til enda og kennarinn sagði: „Eruð þér eitthvað lasnar?“ „Eruð þér þreyttar?“ Bæði norðan- og sunnan sögðu hins vegar: „Komið þér sælir/sælar“ og „Verið þér sælar/sælir“.“ En nú er fólk nokkurn veginn alveg hætt að þéra og þetta vandamál því væntanlega úr sögunni að mestu leyti.