Gögn fyrir stjórnsýslu eiga að vera á íslensku

Athygli mín var vakin á efnisatriði í umsögn Orkustofnunar um umhverfismatsskýrslu fyrir áform Coda Terminal hf. um uppbyggingu móttöku- og geymslustöðvar fyrir koldíoxíð í Straumsvík. Það mál er ekki á verksviði þessa hóps en þessi efnisgrein á hins vegar fullt erindi hingað: „Gera verður að lokum athugasemd við að skýrsla í viðauka sem skrifuð er af íslenskri verkfræðistofu fyrir íslenskt fyrirtæki til notkunar fyrir íslenska stjórnsýslu og almenning sé höfð á ensku. Í skýrslunni eru ýmis tækniorð sem geta flækst fyrir þeim sem ekki eru inni í viðkomandi fræðigreinum. Um er að ræða helstu umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á grunnvatn og mikilvægt að slík gögn séu aðgengileg almenningi sem og sérfræðingum.“

Það er vitanlega grundvallaratriði að mikilvæg gögn sem eiga erindi við almenning séu á íslensku og við eigum ekki að láta bjóða okkur að slík gögn séu eingöngu á ensku. Í þessu tilviki er um að ræða mál sem hefur verið mikið í umræðunni, er umdeilt, og búast má við að mörgum þyki mikilvægt að geta myndað sér rökstudda skoðun á. Í skýrslunni eru vissulega efnisútdrættir á íslensku en það er fjarri því að vera fullnægjandi. Hér skiptir líka máli eins og nefnt er í umsögninni að skýrslan er skrifuð fyrir íslenska stjórnsýslu og „Íslenska er mál […] stofnana sem hafa með höndum framkvæmdir og veita almannaþjónustu“ samkvæmt lögum um stöðu íslenskrar tungu. Orkustofnun á skilið hrós fyrir að halda merki íslenskunnar á lofti.