Posted on Færðu inn athugasemd

Tíu aðgerðir til að bæta stöðu íslensku í ferðaþjónustu

Í dag flutti ég stutt erindi á málþingi á vegum Ferðamálastofu og Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála þar sem m.a. var verið að kynna niðurstöður nýrrar spurningakönnunar um viðhorf Íslendinga til ferðafólks og ferðaþjónustu. Ein spurningin í könnuninni var „Hversu miklar eða litlar áhyggjur hefur þú af því að íslenskan verði útundan í upplýsingagjöf í ferðaþjónustu?“. Niðurstöður voru mjög afgerandi – tæp 70% sögðust hafa mjög miklar eða nokkuð miklar áhyggjur, en aðeins tæp 20% sögðust hafa mjög litlar eða nokkuð litlar áhyggjur. Þetta er sláandi en þarf ekki að koma á óvart – rímar t.d. vel við þrjár skýrslur sem unnar voru á vegum Háskólans á Hólum og Árnastofnunar á árunum 2021-2022 og ég hef áður skrifað hér um.

Í einni þessara skýrslna er bent á að í stefnuramma ferðaþjónustunnar til 2030, Leiðandi í sjálfbærri þróun, sem unninn var árið 2019 í samvinnu ríkisstjórnarinnar, ferðamálayfirvalda, Samtaka ferðaþjónustunnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga, er hvergi minnst á tungumál. Það er furðulegt þar sem ferðaþjónustan byggist að miklu leyti á tungumálinu. Í framhaldi af þessu er spurt í skýrslunni: „Er ekki kominn tími til að spyrja um sjálfbærniáform ferðamálayfirvalda gagnvart íslenskri tungu?“ En slík áform virðast ekki vera til og ég sé ekki betur en ferðaþjónustan stundi ósjálfbæra rányrkju gagnvart íslenskunni með því að þrengja smátt og smátt að henni og útrýma henni af fleiri og fleiri sviðum – meðvitað eða ómeðvitað.

Í júní var samþykkt þingsályktun menningar- og viðskiptaráðherra „um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til ársins 2030“. Einn kafli hennar hefur yfirskriftina „Aukin áhersla á sanngildi og sérstöðu íslenskar menningar“ og í greinargerð segir: „Sýnileiki og notkun íslenskrar tungu er […] órjúfanlegur þáttur upplifunar um sanngildi.“ Sem „dæmi um verkþætti aðgerðar“ er nefnt: „Að stuðlað verði að því að íslenska heyrist og sjáist sem víðast, í samvinnu og samráði við lykilaðila í ferðaþjónustu.“ En engar tillögur um ákveðnar aðgerðir er að finna í þingsályktuninni sjálfri. Ég hef þess vegna tekið ómakið af stjórnvöldum og ferðaþjónustunni og samið lista um tíu aðgerðir sem grípa þarf til nú þegar, ef ekki á illa að fara:

  • Semja og samþykkja málstefnu ferðaþjónustunnar
  • Smíða fleiri íslensk íðorð á sviði ferðaþjónustu
  • Hvetja og styðja starfsfólk til íslenskunáms
  • Gera kröfur um íslenskukunnáttu í ákveðnum störfum
  • Leggja áherslu á þátt tungumálsins í sérstöðu okkar
  • Nota íslensk örnefni en ekki enskar gerðir þeirra
  • Hafa öll skilti og merkingar á íslensku samhliða ensku
  • Hætta að forða ferðafólki frá íslenskunni
  • Umbuna fyrirtækjum sem halda íslenskunni á lofti
  • Vekja öll til vitundar um stöðu og mikilvægi íslensku
Posted on Færðu inn athugasemd

Blendigras, grasblendi, blendingsgras

Í dag var undirrituð viljayfirlýsing um framtíðaruppbyggingu þjóðarleikvanga í Laugardal. Í fyrirsögn um þetta á Vísi segir: „Leggja hybrid gras á Laugardalsvöll og frjálsíþróttir fá aðra aðstöðu.“ Í fréttinni sjálfri segir: „Laugardalsvelli verður breytt og þar lagt hybrid gras, það er að segja blanda af grasi og gervigrasi, í stað grasvallarins sem þar hefur verið.“ Sambandið hybrid gras er svo notað í því sem eftir er af fréttinni. Í fyrirsögn á mbl.is segir: „Blandað gras verður lagt á Laugardalsvöll“ – en leitarvélar sýna að upphafleg fyrirsögn fréttarinnar hefur verið „Hybrid-gras verður lagt á Laugardalsvöll“. Í fréttinni segir: „Blandað gras eða svokallað Hybrid-gras verður lagt á Laugardalsvöll“ og „Hybrid-gras er blanda af grasi og gervigrasi“.

Fyrirsögnin á vef Ríkisútvarpsins er „Frjálsíþróttirnar fluttar og nýtt gras lagt á Laugardalsvöll“ og í fréttinni segir „Fram kom að leggja ætti svokallað hybrid-gras á Laugardalsvöll, blöndu af grasi og gervigrasi.“ Fyrirsögn DV er „Hybrid-gras lagt á Laugardalsvöll“ og í fréttinni sjálfri (sem raunar er tekin orðrétt upp úr fréttatilkynningu á vef Stjórnarráðsins án þess að þess sé getið) segir „Fyrsti áfangi í uppbyggingu Laugardalsvallar verður að skipta út núverandi grasi á vellinum fyrir blandað gras (svokallað hybrid-gras)“ og „Með ákvörðun um notkun hybrid-grass á Laugardalsvelli er þar með útilokuð keppni í kastgreinum frjálsíþrótta“. Á fótbolti.net er fyrirsögnin „Hybrid gras verður lagt á Laugardalsvöll“.

Enska orðið hybrid getur verið nafnorð og má þá þýða sem 'blendingur' en einnig lýsingarorð sem þýða mætti 'blandaður'. Þetta er ekkert flókið eða erfitt í þýðingu enda útskýrt í öllum framangreindum miðlum hvað hybrid gras er. Þess vegna er óskiljanlegt að sumir miðlanna hampi þrátt fyrir það enska orðinu eins og dæmin sýna. Eðlilegt væri að hafa íslensku í fyrirsögn en enska orðið gæti komið inni í fréttinni – sem skýring á því íslenska, en ekki öfugt. Svo er spurning hvaða orð eða orðasamband er best að nota á íslensku um þetta fyrirbæri. Í dæmunum að framan er talað um blandað gras og blöndu af grasi og gervigrasi en einnig má hugsa sér grasblendi, blendigras og blendingsgras – íslenskan er ekki í vandræðum með þetta.