Köttur úti í mýri, setti upp á sig stýri – eða á sér?

Í Málvöndunarþættinum spannst í kvöld áhugaverð umræða af innleggi um að í barnaþætti í Ríkisútvarpinu hefði verið sagt „Köttur úti í mýri, setti upp á sig stýri“ sem innleggshöfundur taldi að ætti vitanlega að vera setti upp á sér stýri, sperrti stýrið (rófuna) upp í loft – setti upp stýrið á sér. Það virðist rökrétt, og vissulega eru prentuð dæmi um þágufallið sér miklu eldri en dæmi um þolfallið sigsetti upp á sér stýri kemur t.d. fyrir í Íslenskum þjóðsögum og æfintýrum Jóns Árnasonar frá 1862. Elsta dæmi sem ég hef fundið á prenti um setti upp á sig stýri er nærri hundrað árum yngra, frá 1955. Bæði út frá aldri dæma og því hvað er „rökrétt“ virðist því enginn vafi á að setti upp á sig stýri er seinni tíma breyting – sumum gæti fundist það vera afbökun.

En prentuð dæmi segja ekki alla söguna, sérstaklega ekki í tilvikum eins og þessu sem eru dæmigerð fyrir munnlega geymd. Á vefnum Ísmús er hægt að hlusta á upptökur úr þjóðfræðasafni Árnastofnunar af viðtölum við fólk sem sumt var fætt á seinustu áratugum nítjándu aldar og svo nokkuð fram á þá tuttugustu. Í mörgum af þessum upptökum er fólk beðið um að fara með þjóðsögur, kveðlinga og þulur sem það þekki, og romsan köttur úti í mýri kemur fyrir í hátt í fimmtíu upptökum. Í fáeinum þeirra er aðeins haft köttur úti í mýri, setti upp stýri – hvorki á sér á sig. En setti upp á sér stýri er mjög sjaldgæft, kemur aðeins fyrir í tveimur upptökum, sýndist mér – í öllum hinum, hátt á fjórða tug, er setti upp á sig stýri.

Af þessu er ljóst að setti upp á sig stýri hefur verið vel þekkt og útbreitt – miklu útbreiddara en setti upp á sér stýri – á fyrri hluta tuttugustu aldar. Það kemur mér svo sem ekki á óvart – ég lærði þetta þannig fyrir meira en sextíu árum og það hefur aldrei hvarflað að mér að eitthvað væri athugavert eða „órökrétt“ við þolfallið. Það er í sjálfu sér dæmigert fyrir hvers kyns orðasambönd, vísur og romsur sem við lærum í æsku. Við lærum þetta eins og páfagaukar en erum ekkert að greina það málfræðilega eða merkingarlega og uppgötvum svo kannski á fullorðinsaldri – eða ekki – að við höfðum misskilið þetta eða afbakað á einhvern hátt. Við þekkjum örugglega flest einhver dæmi um þetta frá okkur sjálfum eða öðrum.

En það er samt ekki endilega þar með sagt að eitthvað sé „órökrétt“ við setti upp á sig stýri eða það sé einhver „afbökun“. Það eru til sambönd í málinu sem eru ekki ósvipuð, eins og setja upp á sig hundshaus, setja upp á sig spekingssvip, setja upp á sig snúð o.fl. Merkingin í setja upp á sig stýri er hliðstæð – ég hef a.m.k. alltaf skilið þetta svo að það lýsti hroka eða yfirlæti kattarins, frekar en vera myndræn lýsing á því að hann sperri rófuna upp í loftið. Hvað sem því líður er ljóst að setti upp á sig stýri er aðalmyndin á seinni árum – þótt hún sé ekki nema 70 ára gömul á tímarit.is eru dæmin um hana álíka mörg og um setti upp á sér stýri, og í Risamálheildinni eru töluvert fleiri dæmi um þolfallið. Báðar gerðirnar hljóta augljóslega að teljast réttar.