Hvað merkir einbýlishús?

Í gær var hér spurt: „Hvað þýðir einbýlishús?“ Tilefnið var fasteignaauglýsing þar sem í lýsingu sagði „Um er að ræða 263,8 fm einbýlishús“ og í framhaldinu „Í húsinu eru fjórar íbúðir“. Augljóst var að innleggshöfundi og ýmsum sem tóku þátt í umræðunni fannst þetta ekki ganga upp þar sem einbýlishús hlyti að vísa til þess að um einbýli væri að ræða, þ.e. aðeins eina íbúð. Það styðst vissulega við skilgreiningar orðabóka – í Íslenskri orðabók er einbýlishús skilgreint 'stakt hús með einni íbúð (þar sem ein fjölskylda býr)' og í Íslenskri nútímamálsorðabók er skýringin 'húsnæði sem reist er til íbúðar fyrir eina fjölskyldu'. Samkvæmt þessu getur húsið í umræddri auglýsingu vitanlega ekki kallast einbýlishús – eða hvað?

Spurningin er hversu bókstaflega við viljum skilja orðið einbýlishús. Hugsum okkur fólk sem hefur búið í húsi með einni íbúð en innréttar aukaíbúð í kjallaranum fyrir börnin – hættir húsið þá að vera einbýlishús? Við getum kannski vísað til skilgreininga orðabókanna og sagt að eftir sem áður sé húsið fyrir fjölskylduna og geti því áfram kallast einbýlishús. En ef börnin flytja út og foreldrarnir leigja óskyldu fólki kjallaraíbúðina – er það á þeim tímapunkti sem húsið hættir að vera einbýlishús af því að það er ekki lengur ein fjölskylda sem býr í því? Eða getum við vísað til skilgreiningarinnar 'sem reist er til íbúðar fyrir eina fjölskyldu' og sagt að húsið sé áfram einbýlishús vegna þess að þannig var því ætlað að vera í upphafi?

Það er líka rétt að hafa í huga að þegar við metum hvort við eigum að kalla tiltekið hús einbýlishús þekkjum við oft ekki til innan dyra, og hús bera það ekki alltaf utan á sér hvort í þeim er ein íbúð eða fleiri – og í sumum tilvikum geta opinberar upplýsingar jafnvel verið rangar, t.d. ef um óleyfisframkvæmd er að ræða. Þess vegna skiptir máli hvort okkur finnst húsið líta út eins og dæmigert einbýlishús utan frá séð, og vitanlega getum við haft mismunandi hugmyndir um slík hús. Mér finnst t.d. hús með risi og kvisti vera dæmigert einbýlishús þótt það sé sambyggt öðrum húsum en ekki ‚stakt hús‘ – þótt raðhús skýrt 'sambyggð einbýlishús í röð' finnst mér ekki hægt að nota það orð nema húsin séu öll eins og byggð sem heild í upphafi.

Samkvæmt mynd hefur húsið í auglýsingunni sem nefnd var í upphafi einmitt þessi dæmigerðu einkenni einbýlishúss að mínu mati – það er með ris og kvist, og þótt það sé vissulega sambyggt öðrum húsum til beggja handa hefur það annan lit og byggingarlag og getur því ekki kallast raðhús, finnst mér. Ekki er ólíklegt að orðið einbýlishús í auglýsingunni vísi til þess að húsið er eitt númer í fasteignaskrá, eins og nefnt var í umræðunni. Auðvitað má kalla þessar vangaveltur um réttmæti þess að kalla húsið einbýlishús orðhengilshátt, en tilgangurinn er bara að benda á hversu snúið getur verið að orða skilgreiningar, jafnvel orða sem okkur finnst hafa augljósa merkingu, og hversu varasamt það getur verið að skilja orð bókstaflega.