Að eiga skæs og vera skæslegur

Í umræðu um lýsingarorðið smækó hér fyrr í dag bar lýsingarorðið skæslegur á góma. Í Slangurorðabókinni frá 1982 er það skýrt 'skemmtilegur, æðislegur, girnilegur, skvæslegur' – undir skvæslegur er hins vegar bara vísað á skæslegur.  Þetta orð er að mestu bundið við óformlegt mál en hefur þó komist í Íslenska orðabók þar sem það er merkt „slangur“ og skýrt 'skemmtilegur, æðislegur', og þar er einnig að finna lýsingarorðið skæs sem sagt er merkja 'skæslegur'. En í Íslenskri orðabók og Slangurorðabókinni er einnig samhljóða nafnorð sem sagt er merkja 'peningar' eða 'gaman, fjör'. Í Íslenskri orðsifjabók er nafnorðið (í merkingunni 'peningar') sagt komið úr skejs í dönsku, en það orð aftur af Scheiß í þýsku sem merkir 'skítur'.

Í elstu dæmum um orðið skæs á tímarit.is er það nafnorð og merkir 'peningar' eins og í dönsku. Í Skólablaðinu 1951 segir: „Áttu skæs?“ Í gamankvæði í Mánudagsblaðinu 1954 segir: „hann var ekki að spyrja um splæs / en spændi í hana plenty skæs.“ Í skýringum við kvæðið segir: „Skæs, að oss er tjáð, þýðir peningar.“ Í sama kvæði kemur fyrir sambandið „tékka spíru“ sem sagt er merkja „að slá 10-kall“ og hliðstæð merking kemur væntanlega fram í Þjóðviljanum 1954: „Hann […] getur kennt manni ýms ráð til að tékka skæs, ef maður er brók.“ Í Speglinum 1958 segir: „Djúdí litla fékk ekki nokkurn skæs fyrr en aurarnir fóru að berast frá útlandinu.“ Í Tímariti Máls og menningar 1958 segir: „Plentí skæs og rólegheit.“

En í Skólablaðinu 1959 segir: „Hún er líka eins og ómenntaðir tuffar mundu segja – svaka skæs“. Þar er merkingin greinilega 'skæsleg' en elsta dæmi um það orð er í Alþýðublaðinu 1960: „María hlýtur að vera fautalega skæslegur kvenmaður.“ Í Heima er bezt 1962 er dæmið „skæslegt sveitaball“ úr textanum „Sveitaball“ eftir Ómar Ragnarsson. Í Alþýðublaðinu 1962 segir: „Hin fagra Judith, sem var hin skæslegasta skvísa á sinni tíð.“ Í Vísi 1966 segir: „Uppi á pallinum lék skæslegt bítlaband fyrir iðandi kösinni á gólfinu.“ Í sama blaði sama ár segir: „Þeir […] áttu líka sinn stæl – kannski ekki alveg eins „skæslegan“.“ Í Þjóðviljanum 1966 segir: „skæslegar skvísur og smart gæjar.“ Í Vísi 1970 segir: „þær bifreiðir sem „skæslegastar“ þóttu.“

Það er greinilegt að merkingin 'peningar' er elsta merking orðsins skæs í íslensku, en hvort og þá hvernig merkingin í skæslegur er komin af henni er ekki ljóst – auðvitað má samt segja að það sem er skæslegt sé verðmætt í einhverjum skilningi og tengist þannig peningum. Eins er spurning hvort skæs sé stytting á skæslegur eða hvort því sé öfugt farið – skæslegur myndað með því að bæta viðskeytinu -legur við skæs. Elsta dæmi um skæs í merkingunni 'skæslegur' er eldra en elsta dæmi um skæslegur en þar munar þó aðeins ári sem er ómarktækur munur. Hins vegar hef ég ekki fundið erlendar fyrirmyndir að skæslegur – a.m.k. virðist *skejslig ekki vera til í dönsku. Því er trúlegra að skæslegur sé íslensk nýmyndun en skæs sé stytting á því.

Orðið skæs í merkingunni 'peningar' virðist vera horfið úr málinu og í merkingunni 'skæslegur' er það líka að hverfa. Á Bland.is 2004 segir: „að vera skæs = að vera lekker eða hvað svo sem er notað núna.“ Á Málefnin.com 2006 segir: „mér skilst að amma mín og afi hafi notað orðið skæs yfir töffara á fyrri hluta síðustu aldar.“ Heldur meira líf er í skæslegur sem má að einhverju leyti rekja til Stuðmannatextans „Herra Reykjavík“ frá 1976 þar sem fyrir kemur línan „skæsleg læri, loðin bringa“. Á tímarit.is eru um hundrað dæmi um orðið en það er þó á niðurleið og hefur verið lengi – í umræðu um unglingamál í Morgunblaðinu 2018 sagði kona fædd 1970: „Kennari minn í grunnskóla sagði að ég væri skæsleg. Það fannst mér rosalega hallærislegt.“