Smækó

Nýlega var hér spurt um uppruna lýsingarorðsins smækó sem ekki er að finna í almennum orðabókum. Elsta dæmi sem ég þekki um það er í Sunnudagsblaði Tímans 1971, þar sem kennari birtir lista af slanguryrðum sem hann hafði safnað hjá nemendum sínum. Þar á meðal er orðið smækó sem er skýrt 'fallegt'. Í kvikmyndagagnrýni í Vísi 1978 segir: „Svo er landslagið líka smækó.“ Í lesendabréfi í Vísi viku síðar er vitnað í þessa grein og sagt: „Þar stóð á einum stað að landslagið væri SMÆKÓ. Hvað er eiginlega átt við með slíku orðafari?“ Höfundur greinarinnar svarar í sama blaði og segir: „Smækó hefur svipaða merkingu og algeng orð önnur, eins og „smart“, „kjút“, „næs“, „skæs“ og „svaka skæs“, „lekker“, „bjútí“ og jafnvel „töff“.“

Þetta samræmist skýringu orðsins í Orðabók um slangur slettur bannorð og annað utangarðsmál frá 1982: 'frábær, æðislegur, töff'. Í umræðu um áðurnefnda fyrirspurn kom fram að mörg þekktu orðið – ein sagðist muna eftir orðinu um 1960 og önnur sagði að það hefði verið töluvert notað um miðjan áttunda áratuginn. Það hefur hins vegar greinilega verið bundið við talmál því að aðeins tvö önnur dæmi er að finna á tímarit.is. Í Morgunblaðinu 2011 segir: „Helgarfríið er handan við hornið og sumir eru farnir að láta sig dreyma; tveir fyrir einn á smart og smækó bar.“ Í Morgunblaðinu 2014 er vísað til sjöunda áratugarins og sagt: „á þeim tíma hefðu orðin „lekkert“ og jafnvel „smækó“ verið notuð um fagurlega fram bornar veitingarnar.“

Uppruninn er mjög óljós og hér er aðeins hægt að koma með getgátur. Í umræðunni komu fram hugmyndir um að þetta gæti verið komið af smuk í dönsku eða stytting á smekklegt, en í báðum tilvikum er óljóst hvers vegna sérhljóðið hefði breyst í æ. En einn þátttakandi nefndi að smækó hefði verið notað um kossaflens, með vísun til þess að þegar Andrésína Önd kyssti Andrés stóð iðulega smækkys við það. Þetta þekkti ég mætavel, og þótt þessi orðskýring rími ekki við venjulega notkun orðsins rifjaði hún upp fyrir mér að þegar ég var að lesa Andrés Önd löngu áður en ég lærði nokkuð í dönskum framburði bar ég æ í dönskum orðum fram eins og íslenskt æ, og hef örugglega ekki verið einn um það. Kannski liggur skýringin á smækó í þessu.

Í dönsku er til lýsingarorðið smækker sem merkir 'slank og smidig, ofte på en tiltalende måde – især om person eller legemsdel' eða 'grannur og liðugur, oft á aðlaðandi hátt – einkum um mannveru eða líkamshluta'. Þetta er ekki langt frá merkingunni í smækó og þótt framburðurinn sé annar (en þó ekki ýkja fjarri) finnst mér ekki óhugsandi að smækó sé komið af dönsku ritmyndinni smækker. Ég held mig a.m.k. við það þar til trúverðugri skýring kemur fram. En annars virðist orðið vera að hverfa – þótt fram komi í fyrirspurninni að orðið sé enn í dag notað í sömu merkingu og áðurnefndum dæmum virðist það vera sárasjaldgæft núorðið. Aðeins fimm dæmi eru um það af samfélagsmiðlum í Risamálheildinni og leit á netinu skilar ekki neinu.