Vakavörun

Í umræðu í Kastljósi í gær var notað orðasambandið trigger warning sem ég hef svo sem oft heyrt og séð áður enda hefur það verið notað í íslenskri umræðu í rúman áratug og merkir „viðvörun sem skeytt er framan við texta, eða annað efni, ef þar kemur eitthvað fyrir sem gæti mögulega komið fólki í uppnám“ eins og segir í grein í Morgunblaðinu 2015. Nú hef ég almennt séð ekkert á móti tökuorðum sem laga sig að málinu – eða hægt er að laga að því – en trigger warning fellur tæpast í þann hóp. Þess vegna fór ég að velta því fyrir mér hvort ekki hefði verið reynt – eða væri hægt – að íslenska það. Kannski er þetta samt, þrátt fyrir framandleik sinn, orðið of fast í málinu til að hægt sé að hrófla við því, en það skaðar ekki að reyna.

Elsta dæmi sem ég hef fundið um trigger warning í íslenskri umræðu er í greininni „Varúð – hætta á váhrifum“ eftir Guðnýju Elísu Guðgeirsdóttur á vefritinu Knúz árið 2013 þar sem segir: „Kveikjumerkingar (e. trigger warning) eru leið til að gera opinbera umræðu þolendavænni.“ Í athugasemd frá ritstjórn segir: „Hugtakið „trigger warning“ hefur enn ekki fengið íslenska þýðingu, enda nýkomið inn í umræðuna og enn mörgum framandi. Greinarhöfundur notar hér orðin „kveikiviðvörun“ og „að kveikjast“ til að lýsa merkingu hugtaksins og það væri gaman ef lesendur vilja velta því orðalagi fyrir sér og jafnvel koma með fleiri tillögur.“ Í umræðu um greinina var stungið upp á orðinu stuðvörun, sem væri byggt á „að texti innihaldi stuðandi efni.“

Það orð sem oftast hefur verið notað yfir trigger warning í fjölmiðlum er váhrif – t.d. í viðtali í Fréttatímanum 2014, frétt í Vísi 2019, grein á Hugrás 2020, pistli í Fréttablaðinu 2022, og sjálfsagt víðar. Það er mjög óheppilegt að nota váhrif í þessari merkingu (notkun þess hefur e.t.v. komið til fyrir misskilning á heiti greinarinnar á Knúz) því að höfundur þess, Halldór Halldórsson prófessor, ætlaði því að merkja 'áfallastreita' og þannig er það oftast notað. En í athugasemdum við áðurnefnda grein á Knúz stakk Jón Thoroddsen upp á orðinu vávörun sem hann sagði byggt á nýyrðinu váhrif. Ásta Kristín Benediktsdóttir hefur líka notað þetta orð í grein á vefnum Kynvillta bókmenntahornið og Drífa Snædal notaði váviðvörun í Kastljósi í gær.

Mér finnst vávörun ágætt orð en e.t.v. finnst einhverjum vanta í orðið merkinguna 'kveikja' eða 'vekja' sem felst í trigger. Þá má hugsa sér að nýta orðið vaki sem er notað í ýmsum samsetningum í merkingunni 'sem vekur', svo sem gleðivaki og hræðsluvaki, og búa til orðið trámavaki en tráma er komið inn í Íslenska nútímamálsorðabók og skilgreint 'erfið upplifun sem hefur skaðleg áhrif á einstakling lengi eftir atburðinn, andlegt áfall'. Út frá þessu mætti svo búa til orðið trámavakavörun sem felur þá í sér að varað er við því að eitthvað gæti vakið upp tráma. Ef þetta þykir of langt orð (þó styttra en áfallastreituröskun) má láta vakavörun nægja – þar er varað við að eitthvað kunni að vekjast upp en ekki tilgreint hvað, frekar en í trigger.