Aðför að inngildingu
Einu sinni skrifaði ég hér pistil um orðið inngilding sem þá var frekar nýlegt í umræðunni. Í lok pistilsins sagði ég: „Það getur vel verið að það megi finna ýmislegt að orðinu inngilding – ég var ekkert sérlega hrifinn af því þegar ég sá það fyrst. En mér skilst að það sé komið í talsverða notkun og þess vegna væri ábyrgðarhluti að hafna því, nema fram kæmi eitthvert orð sem almenn sátt yrði um þegar í stað.“ Nú er liðið hálft fjórða ár og umræða um inngildingu hefur margfaldast án þess að nokkurt orð kæmi í staðinn. Orðið hefur m.a. verið notað margoft í þingskjölum og umræðum á Alþingi, en þrátt fyrir þetta ber enn nokkuð á því að fólk, jafnvel alþingismenn, misskilji orðið eins og sást á Vísi í gær – nema það sé rangtúlkað viljandi.
Þar er haft eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni: „Nú eru stjórnvöld farin að tala um inngildingu, sem er eitthvað nýyrði og andstaða aðlögunar. Af því að inngilding á að tákna það að við eigum að aðlaga okkur að öðrum.“ Friðjón R. Friðjónsson borgarfulltrúi leiðrétti þetta í grein á Vísi í gær og sagði: „Þessi fullyrðing formanns Miðflokksins er röng. Ef Sigmundur Davíð hefði til þess nennu og orku þá væri honum létt verk að skoða hvað þetta ógagnsæja og að mörgu leyti klúðurslega orð “inngilding” þýðir. Það er íslenskun á hugtakinu “inclusion”. Það er ekki verið að segja að Íslendingar eigi að aðlagast útlendingum. “Inclusion” er að hafa einhvern með, taka tillit til hver hann er og hvaðan viðkomandi kemur.“
Þetta er hárrétt, en áhersla Friðjóns á að orðið inngilding sé „ógagnsætt“ er misskilningur, held ég. Í pistlinum um árið sagði ég um það: „Áðurnefndur misskilningur er mjög skiljanlegur út frá þeim hugmyndum okkar að orð eigi að vera „gagnsæ“ – segja sjálf hvað þau merki, þannig að fólk átti sig á merkingu þeirra þótt það hafi ekki heyrt þau eða séð áður. Því hefur lengi verið haldið að okkur að íslensk orð séu einmitt svona. Það er vissulega sannleikskjarni í því – en bara kjarni. Þótt orð feli oft í sér einhverja vísbendingu um merkingu þurfum við samt oftast að læra nákvæma merkingu þeirra sérstaklega. Og um leið og orð er komið í almenna notkun öðlast það sjálfstætt líf og hættir að vera háð uppruna sínum – gagnsæið hættir að skipta máli.“
Ég bætti við: „Það er auðvelt að benda á tugi og hundruð íslenskra orða sem merkja ekki það sem þau líta út fyrir að merkja, út frá samsetningu sinni og uppruna. En við tökum venjulega ekkert eftir því, vegna þess að við erum vön orðunum og vitum hvað þau merkja án þess að hugsa út í upprunann. Eins og ég hef oft nefnt finnst okkur ný orð oftast skrítin, óheppileg og jafnvel alveg ómöguleg – það þarf að venjast þeim og það tekur tíma.“ En þessi misskilningur um merkingu orðsins inngilding og eðli gagnsæis er útbreiddur og lífseigur. Í gær fékk ég langan nafnlausan tölvupóst þar sem höfundur eyddi tveimur blaðsíðum í að gagnrýna orðið – og ekki síður í að gagnrýna mig fyrir að mæla með því orði. Í póstinum sagði meðal annars:
„Inngilding ber hins vegar öll einkenni tilraunar til gagnsæis. Þetta inn- í fyrra helmingi þess er ekki merkingarlaust að fyrra bragði, sem þýðir að það verður ekki snurðulaust hluti af einfaldlega heiti á skilgreindu hugtaki. Gilding ennþá frekar. Gallinn verður síðan sá að inngilding kallar á leit að gagnsæi án þess að við skilgreiningu hugtaksins hafi fundist það sem leitað var að. Hvernig er hægt að herma inngildingu upp á hugtakið sem á ensku ber heitið inclusion? Þú afgreiðir þá óuppbornu spurningu nokkuð billega með því að segja að orðið muni einfaldlega taka merkingu sína af hugtakinu og til huggunar þeim sem finnst það skrípi upplýsir þú að nýyrði þyki alltaf skrýtin. Það er reyndar alrangt hjá þér.“
Það er ýmislegt rangt í þessum tölvupósti og mér gerð upp orð og skoðanir, en það sem mér finnst sérkennilegast og óviðfelldnast er að höfundur skuli ekki þora að koma fram undir nafni, ekki síst vegna þess að hann byrjar póstinn á að segja: „Ég fékk fyrir nokkru embættispóst vegna starfs míns á sviði menntunar barna þar sem fyrir kom þetta orð, inngilding“ – sem höfundurinn virtist ekki hafa þekkt. Það er óskemmtilegt að hugsa til þess að fólk sem starfar við menntun barna skuli ekki þekkja og ekki vilja skilja „þetta kansellíska orðskrípi sem inngilding sannarlega er“ – og noti nafnlausan tölvupóst í gagnrýni sinni. En það læðist að manni sá grunur að árásir á orðið séu aðeins yfirskin – í raun sé verið að ráðast á það sem orðið stendur fyrir.