Hvað merkir ekki ennþá?

Í innleggi hér í gær var nefnt að setningar eins og þetta er ekki svona ennþá væru núorðið stundum hafðar í merkingunni 'þetta er ekki svona lengur' í staðinn fyrir 'þetta er ekki enn orðið svona' sem væri hefðbundin merking. Þetta er eins og setningin ríkisstjórnin er ekki ennþá í vanda væri notuð í merkingunni 'ríkisstjórnin var í vanda en því ástandi er lokið' í staðinn fyrir 'ríkisstjórnin siglir lygnan sjó þótt hún kunni að lenda í vanda síðar'. Út frá þessu fór ég að velta fyrir mér merkingu atviksorðsins ennþá (sem oftast er haft í einu orði þótt það eigi að vera enn þá í tveimur orðum samkvæmt ritreglum). Það kom í ljós að skýringar orðabóka á ennþá eru á margan hátt ófullnægjandi vegna þess að þær nefna ekki samspil ennþá við neitun.

Í Íslenskri orðabók er ennþá skýrt 'á nýjan leik, einu sinni enn' og í Íslenskri nútímamálsorðabók 'nú sem fyrr, núna eins og hingað til' með dæmunum ertu ennþá reiður út í mig? og það eru ennþá til nokkrir miðar á tónleikana. Þetta er rétt svo langt sem það nær, en það sem vantar er að benda á að þegar ennþá er notað með neitun vísar það til tímapunkts en ekki til viðvarandi ástands. Þannig merkir ég er ennþá svangur að ég hafi verið svangur um tíma og það ástand vari enn, en ég er ekki ennþá (orðinn) svangur merkir að sá tímapunktur að ég verði svangur sé ekki kominn. Í ensku er orðið still notað í fyrrnefndu merkingunni en yet í þeirri síðarnefndu (og þess vegna mætti e.t.v. segja að enska sé nákvæmari þarna en íslenska).

Þegar þetta er ekki svona ennþá er notað í merkingunni 'þetta er ekki svona lengur', eða 'þessu ástandi er lokið', eins og nefnt var í upphafi er atviksorðið ekki látið neita ástandsmerkingunni í staðinn fyrir að búa til tímapunktsmerkingu eins og hefð er fyrir að neitunin geri. Það er í sjálfu sér mjög rökrétt – en það er ekki í samræmi við málhefð. Það rímar hins vegar við það sem hér hefur margoft verið sagt – málið er ekki alltaf „rökrétt“ og þarf ekki að vera það. En reyndar eru til aðstæður þar sem ekki neitar ástandsmerkingunni, t.d. í halaspurningum eins og þetta er ekki svona ennþá, er það? eða þú ert ekki ennþá að vinna, er það? Þar er merkingin 'þessu ástandi er lokið' alveg eðlileg en merkingin 'þessi tímapunktur er ókominn' útilokuð.

Sú breyting á merkingu setninga með ekki ennþá sem nefnd var í upphafi er því mjög skiljanleg. Höfundur innleggsins sem vísað var til taldi hana bundna við yngra fólk og það er hugsanlegt, en þótt ég viti ekki hversu gömul eða útbreidd hún er finnst mér líklegra að henni hafi brugðið fyrir lengi – vegna þess að hún er rökrétt – en að um sé að ræða nýjung sem sé að breiðast út. Vissulega er það almennt séð rétt að tvíræðni getur verið óheppileg en í þessu tilviki held ég að litlar líkur séu á misskilningi – dæmi eins og þetta er ekki svona ennþá þar sem setningagerðin leyfir báðar túlkanir eru tiltölulega fá og í þeim tilvikum myndu setningarlegt umhverfi og ytri aðstæður yfirleitt sýna ótvírætt hvaða merkingu ætti að leggja í sambandið.