Mjór munur

Í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins í dag segir: „Trump sigurstranglegri en munurinn þó afar mjór“. Mér kom þetta orðalag ókunnuglega fyrir sjónir og datt fyrst í hug að það væri bein yfirfærsla úr ensku þar sem talað er um narrow margin / edge eða eitthvað slíkt í þessari merkingu. Örfá dæmi má finna um þetta orðalag – níu á tímarit.is og þrjú í Risamálheildinni, m.a. „við Ólafur Ragnar skiptum um sæti, en á afskaplega mjóum mun“ í Morgunblaðinu 1983, „Annars er mjór munur á honum og Haughey og Fitzgerald“ í DV 1987, „Í sumum fylkjum er svo mjór munur á frambjóðendunum að ekki er hægt að skera úr um hver muni fara með sigur af hólmi“ í DV 2008 og „Aldrei eins mjór munur“ á vef Ríkisútvarpsins 2020.

En þegar betur er að gáð er ástæðulaust að rekja orðalag fyrirsagnarinnar til ensku. Í umræddri frétt er nefnilega notað mjög svipað orðalag, „Afar mjótt er á munum“, sem er gamalt og mjög algengt í málinu – oft með greini, mununum. Annað skylt og þekkt orðalag er þar munaði mjóu sem er einnig gamalt. Þriðja orðalagið þessu skylt, sem ég þekkti ekki áður, er mjórra muna vant sem tíðkaðist nokkuð á seinni hluta nítjándu aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu, t.d. „Milli þessara tveggja ríkja hefir opt verið grunt á vináttunni, og einatt mjórra muna vant að friður héldist“ í Skírni 1862. Þetta er nú líklega horfið – yngsta dæmi sem ég finn er í Vestfirska fréttablaðinu 1994: „Enginn varð fyrir alvarlegu slysi, þó að oft væri mjórra muna vant.“

Þarna eru sem sé þrjú mismunandi orðasambönd með langa hefð í málinu þar sem lýsingarorðið mjór er notað með nafnorðinu munur eða sögninni munamjótt á mun(un)um, muna mjóu og mjórra muna vant. Sambandið sem notað er í áðurnefndri fyrirsögn, mjór munur, fellur eðlilega í þennan hóp. Vissulega er hugsanlegt að orðalag enskrar fréttar hafi legið að baki áðurnefndri fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins en það skiptir ekki máli – orðalag fyrirsagnarinnar er fullkomlega eðlileg útvíkkun á orðalagi sem á sér langa hefð í málinu. Þetta er gott dæmi um að við þurfum að varast að afgreiða orðalag sem við þekkjum ekki sem ensk áhrif jafnvel þótt það virðist eiga sér hliðstæður í ensku. Stundum er uppruninn nefnilega alíslenskur.