Þú komst við kaunin í mér

Nýlega sá ég í Málvöndunarþættinum að gerð var athugasemd við setninguna „Það kom við kaunin í mér“ sem innleggshöfundur hafði heyrt í útvarpi og vildi frekar hafa kaunin á mér. Um forsetninguna í í þessu sambandi eru þó gömul dæmi og henni bregður fyrir öðru hverju. Elsta dæmið er í Skírni 1886: „en þar óvægilega komið við kaunin í landstjórnarfarinu.“ Í Nýjum kvöldvökum 1924 segir: „jeg hafði gaman af að koma við kaunin í trúarvinglssamvisku hans.“ Í Lífi og list 1950 segir: „sú list, sem kemur svo oft við kaunin í friðsömum og raunhæfum borgurum.“ Í Alþýðublaðinu 1957 segir: „Þetta virðist hafa komið heldur illa við kaunin í aðalritstjóranum.“ Í Vísi 2010 segir: „Fjármálakreppan kom við kaunin í rekstri Hamleys.“

Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er hvorki að finna koma við kaunin á kaunin í en þar er hins vegar gefið sambandið koma við kaunin hjá e-m í sömu merkingu. Þessu sambandi bregður fyrir öðru hverju – elsta dæmi um það er í Vestra 1905: „Það virðist hafa komið við kaunin hjá ritstj.“ Í Morgunblaðinu 1930 segir: „Mjer er það sjerstök ánægja að dómur norðlensku kvennanna um „óvandaða lesmálið“ hefir komið við kaunin hjá ritstjóra Tímans.“ Í Vikunni 1954 segir: „En það kom við kaunin hjá republikunum.“ Í Skírni 1960 segir: „Víða í sögunni er og komið við kaunin hjá auðstéttunum.“ Í Vísi 2010 segir: „Matvælafyrirtæki segja óhjákvæmilegt að þessar miklu verðhækkanir komi við kaunin hjá neytendum.“

Í umræðum í Málvöndunarþættinum kom fram að flestum fannst óeðlilegt að tala um kaunin í mér og vildu tala um kaunin á mér – orðið kaun merkir 'sár' og sár eru utan á líkamanum, ekki inni í honum. Þetta er út af fyrir sig rétt svo langt sem það nær, en hér skiptir máli að sambandið koma við kaunin er aldrei notað um líkamleg sár heldur ævinlega í yfirfærðri merkingu – koma við kaunin á er skýrt 'nefna það sem er viðkvæmast' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'koma við aumu blettina á e-m' í Íslenskri orðabók. Þess vegna er ekki endilega ljóst að það þurfi að nota sömu forsetningu og er notuð þegar talað er um líkamleg sár – þeir aumu blettir sem um er að ræða eru ekki líkamlegs eðlis heldur tilfinningalegs, og því ekki útvortis.

Vitanlega getur fólk eftir sem áður kosið að halda upphaflegu líkingunni og tala um kaunin á – það er elst þessara sambanda: „Konáll hefir komið við kaunin á þeim sambandsríkjamönnum“ segir í Skírni 1844. Næsta dæmi kemur reyndar ekki fyrr en hálfri öld síðar og sambandið var sárasjaldgæft fram um 1930 en hefur verið algengt síðan, einkum eftir 1970. Það er ljóst að rík málvenja er fyrir því að tala um kaunin á og mér dettur ekki annað í hug en mæla með að fólk haldi sig við hana. En þótt eitt sé rétt þarf annað ekki að vera rangt – það er skiljanlegt að í eða hjá sé notað í þessu sambandi vegna þess að um yfirfærða merkingu er að ræða, og engin ástæða til þess að amast við því að það sé gert enda gömul fordæmi fyrir því úr vönduðu máli.