„Ágústi vantar gúmmístígvél“

Vefverslunin Boozt.com fór að auglýsa vörur sínar á Íslandi fyrir fáum árum og framan af eingöngu á ensku, e.t.v. að viðbættu einu íslensku orði eða tveimur. Ég skrifaði oft um þetta hér fyrir tveimur árum og kvartaði þrisvar yfir því til Neytendastofu sem á að hafa eftirlit með því að Lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu sé framfylgt, m.a. ákvæðinu „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku“. Ég skrifaði einnig ritstjórum fjölmiðla sem birtu þessar auglýsingar og benti á ábyrgð fjölmiðla í þessu efni. Ég veit ekki hvort þessar kvartanir og þessi skrif höfðu einhver áhrif, en nokkuð er það að skömmu eftir þetta fór verslunin að auglýsa á íslensku að mestu leyti og hefur gert það síðan, að ég held.

Nú ber hins vegar svo við að Boozt birtir auglýsingu sem vekur mun meiri neikvæð viðbrögð en auglýsingar á ensku gerðu nokkurn tíma, þrátt fyrir að vera á íslensku, vegna þess eins að í henni kemur fyrir setningin „Ágústi vantar gúmmístígvél“. Þarna er komin hin hryllilega „þágufallssýki“ sem barið hefur verið inn í þjóðina áratugum saman að séu einhver verstu málspjöll sem hægt er að hugsa sér. Fólk heitir því að versla aldrei við Boozt vegna þessa og segir „vekur furðu að þetta sé ekki leiðrétt“, „ósköp aumkunarvert að heyra“, „óþolandi þágufallssýki“, „skelfilegt að hlusta á þetta“, „mér verður illt“, „guð minn góður“, „fáráðar eru víst illa að sér“, „tek andköf í hvert sinn“, „óskiljanlegt, af hverju er þetta leyft?“ – o.s.frv.

Þetta er aðeins lítið brot af athugasemdum við áðurnefnda setningu úr hópunum Skemmtileg íslensk orð og Málvöndunarþátturinn og við innlegg um setninguna hafa verið skrifaðar hátt í tvö hundruð athugasemdir sem langflestar taka undir hneykslunina í upphafsinnleggjunum. Ég fann hins vegar ekki nema eitt dæmi um það í þessum hópum að vakin hefði verið athygli á auglýsingum Boozt á ensku á sínum tíma, og sárafá ummæli voru um það innlegg – fólkið sem nú hneykslast sem mest þagði þunnu hljóði. Það mætti ætla að fólk hugsaði svipað og höfundur lesendabréfs í Þjóðviljanum 1950: „En þó leiðinlegt sé, að daglegt mál sé mengað útlendum orðum, með meira og minna röngum framburði, er það illskárra en þágufallssýki og flámæli.“

Mér finnst þetta vera einkar skýrt en jafnframt dapurlegt dæmi um þær villigötur sem umhyggja fyrir íslensku máli leiðist oft út á. Það er engin ástæða til að ætla annað en flest þeirra sem leggja þarna orð í belg beri hag tungunnar fyrir brjósti, en hneykslun og fordæming er ekki til þess fallin að efla íslenskuna eða vekja jákvæðar tilfinningar í garð hennar. Við það bætist að þarna er um að ræða einstaklega lítilfjörlegt atriði sem skiptir í raun engu máli – hefur engin áhrif á málkerfið og skiptir engu fyrir framtíð íslenskunnar eða samhengið í íslensku máli. Bæði frumlags- og andlagsfall mikils fjölda sagna hefur breyst á undanförnum öldum án þess að það trufli okkur nokkuð og oftast án þess að við vitum af því eða tökum eftir því.

En af einhverjum ástæðum hefur hin svokallaða „þágufallssýki“ orðið að tákni hins illa í huga þjóðarinnar – e.t.v. að hluta til vegna sjúkdómsvæðingarinnar sem felst í heitinu sem festist við þessa smávægilegu breytingu sem breiðist smám saman út þrátt fyrir áratuga baráttu gegn henni og er nú eðlilegt mál talsverðs hluta þjóðarinnar. „Þágufallssýki“ hefur iðulega verið notuð til að gera lítið úr fólki og niðurlægja það á ýmsan hátt – ef þið efist um það skuluð þið leita að „þágufallssýki“ á tímarit.is. Það er ljótt og vont – bæði fyrir fólkið sem á í hlut en ekki síður fyrir íslenskuna. Ég treysti því að Ágústi verið útveguð gúmmístígvél á næstunni, en aðalatriðið er að þjóðinni hætti að skorta umburðarlyndi gagnvart tilbrigðum í máli.