Imbi(nn)
Þegar ég var að alast upp í norðlenskri sveit á sjöunda áratugnum hafði maður lítið veður af slangri og hvers kyns unglingamáli – „götumáli“ eða „skrílmáli“ eins og það var stundum kallað í þá daga. Helst var að svoleiðis bærist með frændsystkinum að sunnan sem komu í heimsókn eða sumardvöl. Eitt slíkt tilvik var karlkynsorðið imbi sem ég man eftir að hafa lært af frænda mínum, líklega sumarið 1965, og þótti sniðugt og nýttist oft vel í orðahnippingum. Þetta orð var þá ekki gamalt í málinu eins og marka má af fyrirspurn sem „Póstinum“ í Vikunni barst snemma árs 1963. „Ég hef undanfarið hnotið um orðið imbi, og virðist orðið vera mörgum tamt. Ég finn þetta orð ekki í Blöndal. Getur þú nokkuð frætt mig um uppruna þess?“
„Pósturinn“ var ekki í vandræðum með það og sagði: „Orðið, skilst mér, hefur nýlega rutt sér til rúms, og fer það vel í munni, þótt langt sé frá því, að það eigi sér íslenzkan eða norrænan uppruna. Orðið er komið úr rómönskum málum, t. d. franska: imbécile, enska: imbecile, og þar fram eftir götunum. Þetta þýðir svo fábjáni eða heimskingi og virðist hafa haldið sömu merkingu í sinni nýju, íslenzku mynd.“ Í Nýjum vikutíðindum skömmu síðar sagði: „Tvö orð virðast vera orðin algeng í talmáli Reykvíkinga, og þau eru ,,alki“ og „imbi“. Imbi þýðir fáráðlingur, en alki áfengissjúklingur.“ Í Þjóðviljanum 1967 sagði: „Mér er sagt, að orðið imbi, sem algengt er að verða í Reykjavík, sé dregið af imbecil, sem líklega er latína.“
Um miðjan sjöunda áratuginn var orðið útbreitt og hafði getið af sér afkvæmi eins og kemur fram í Þjóðviljanum 1966: „Nýju orði skýtur upp í viðræðum manna og virðist eiga enskan uppruna eins og fleiri á hinum síðustu dögum. „Heldurðu að ég sé imbi?“ spyrja krakkar ef telja á þeim trú um eitthvað ótrúlegt. Og nú sé ég prentað í Alþýðublaðinu á sunnudaginn orðið „imbakassi“, sem virðist orðið allalgengt nafn á sjónvarpstæki. Mér skilst að „imbi“ sé notað í merkingunni auli eða flón og er líklega komið gegnum enska orðið „imbecile“ úr hinu latneska „imbecillus“, sem mun svipaðrar merkingar. Orðið imbakassi segir þá nokkra sögu um álit manna á hermannasjónvarpinu, en það er eina sjónvarpið sem Íslendingum hefur verið tiltækt.“
Elsta dæmi um orðið imbakassi á tímarit.is er þó aðeins eldra, í Fálkanum í ársbyrjun 1965: „Þá er sjónvarpið, eða „imbakassinn“, komið inn á annað hvert heimili Reykjavíkur, og í þetta þokkatæki glápir fólkið daginn út og daginn inn.“ Eins og bent er á í Slangurorðabókinni er orðið hliðstætt idiot box sem hafði verið notað í sömu merkingu í ensku síðan um miðjan sjötta áratuginn. Það er athyglisvert að enska orðið skuli ekki hafa verið tekið beint inn sem *idjótabox (eða *idjótakassi) því að bæði idjót og box voru algeng tökuorð í málinu á þessum tíma. Þótt einhver dæmi finnist vissulega um imbecile box í þessari merkingu í ensku virðist það vera mjög sjaldgæft og allar líkur eru þess vegna á því að imbakassi sé íslensk nýmyndun.
En fljótlega var farið að stytta imbakassi í imbi – elsta dæmi sem ég finn um þá merkingu er í Vísi 1976. Orðið var þá oftast haft með ákveðnum greini eins og sést í samtali í smásögu í Vikunni 1983: „Sést ekkert illa í imbanum hjá þér?“ – „Imbanum?“ – „Já, sko sjónvarpinu. Maður kallar það stundum imbakassa, eða barasta imba, af því maður verður algjör imbi af því að horfa of mikið á það. Imbi er sko bjáni.“ Þetta er í raun mjög áhugaverð orðmyndun – enska orðið imbecile er stytt í imbi og af því er mynduð samsetningin imbakassi sem síðan er aftur stytt í imbi – sem varð fljótlega aðalmerking orðsins. Í Risamálheildinni virðast vera a.m.k. tíu sinnum fleiri dæmi um orðið í merkingunni ‚sjónvarp‘ en í merkingunni ‚fábjáni‘.
Orðið imbi fer ágætlega í málinu, bæði hljóðfræðilega og beygingarlega, og í þættinum „Tungutak“ í Morgunblaðinu 2011 segir að það hafi „greinlega öðlast þegnrétt“ í íslensku, enda er það gefið athugasemdalaust í Íslenskri nútímamálsorðabók – þó aðeins í merkingunni 'sá eða sú sem er heimskur, heimskingi' – en imbakassi er þar merkt „óformlegt“. Í Íslenskri orðabók en imbi merkt „óforml.“ en þar er imbinn einnig flettiorð merkt „slangur“ og vísað á imbakassi. Bæði imbi(nn) og imbakassi áttu sinn blómatíma á seinustu tveim áratugum tuttugustu aldar en eru nú orðin frekar sjaldgæf og jafnvel hallærisleg – í Morgunblaðinu 2014 segir: „Ég fletti upp orðinu sjónvarp í samheitaorðabók enda imbi eða imbakassi löngu orðið klént.“