Aðlögun tökuorðs: tank

Í textanum „Hann var einusinni lítill“ úr revíunni „Fornar dyggðir“ sem flutt var í Reykjavík 1938 koma fyrir eftirfarandi línur: „Hann var áður miklu grennri, hann var áður barasta slank, / en hann er orðinn eins og tunna, eða eins og olíutank.“ Það sem þarna er áhugaverðast frá málfræðilegu sjónarmiði er orðið olíutank. Það er nefnilega gott dæmi um það hvernig tökuorð sem festast í málinu aðlagast reglum málsins smátt og smátt, beygingarlega og hljóðfræðilega. Í Íslenskri orðsifjabók er talið að orðið tank í merkingunni 'stórt lokað ílát undir vökva' sé komið úr ensku en líklega í gegnum dönsku. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Morgunblaðinu 1916: „Rétt á eftir var gefin skipun um það frá brúnni, að losa sjó úr „tank“ nr. 2.“

Í Íslenskri orðsifjabók eru nefndar þrjár myndir orðsins – tank, tanki og tankur. Vitanlega er orðið endingarlaust í ensku og dönsku, og þannig er það líka í elstu íslensku dæmunum. Það sést reyndar ekki í dæminu úr Morgunblaðinu 1916 því að þar er orðið í þágufalli sem getur vel verið endingarlaust, en í auglýsingu í Morgunblaðinu 1917 segir: „Tank fyrir 4 smál. af olíu.“ Í Vísi 1930 segir: „Talið er, að tank með „nafta gasoline“ hafi sprungið.“ Í Morgunblaðinu 1939 segir: „Nýr olíutank í Keflavík.“ Við þetta má bæta dæminu úr „Fornum dyggðum“ hér að framan. En annars eru flest dæmin um orðið í þolfalli og þágufalli og því ekki hægt að segja til um nefnifallsmyndina – ýmsar myndir gætu tilheyrt hverri áðurnefndra mynda sem er.

Þegar tökuorð kemur inn í málið fær það alltaf eitthvert kyn. Oft fellur stofngerð þess betur að einu kyni en öðru, eða útilokar eitt eða fleiri kyn. Orð með stofngerðina -ank- getur t.d. varla lent í kvenkyni nema þá með því að breyta a í ö, eins og í hönk. Aftur á móti gæti slíkt orð lent í hvorugkyni, sbr. bank, en karlkynið varð þó fyrir valinu í tank – e.t.v. fyrir áhrif frá dönsku þar sem orðið er samkyns, tank(en). En til að laga sig að málinu beygingarlega þarf karlkynsorð með þessa stofngerð að fá endingu í nefnifalli eintölu, og það getur verið annaðhvort -i (veik beyging), eins og banki, eða -ur (sterk beyging). Fjöldi dæma er um hvort tveggja, en vegna samfalls beygingarmynda er oft útilokað að átta sig á nefnifallsmynd út frá mynd í texta.

Þótt ekki muni miklu virðist veika myndin tanki vera eldri. Í Víði 1931 segir: „Allt í einu kom leki á bensíntankann.“ Í Alþýðumanninum 1932 segir: „Við einn „bensíntankann“ stöðvast ein bifreiðin.“ Í Vísi 1943 segir: „Í sumar var byggður tanki fyrir olíu.“ Elsta dæmi sem ég finn um sterku myndina tankur er í Vélstjóraritinu 1936: „Hvað mundi olían vega mikið, ef tankurinn er fullur?“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1940 segir: „Tankurinn átti að vera næstum samlitur sandinum.“ Sterka beygingin varð ofan á og er nú nær einhöfð og sú veika er líklega að mestu horfin úr málinu en í Morgunblaðinu 2017 er þó fyrirsögnin „Hljómleikar í olíutanka“ og í fréttinni segir: „Undanfarin misseri hefur verið unnið að því að gera tankann manngengan.“

En til að fella tökuorðið tank fullkomlega að íslensku þurfti líka að aðlaga það hljóðfræðilega. Meginþorri Íslendinga ber orð með hljóðaröðinni -ank- ekki fram með a, heldur með tvíhljóðinu á -ánk-. Framan af hefur tank þó væntanlega verið borið fram með a eins og ráða má af því að í dæminu úr „Fornum dyggðum“ rímar (olíu)tank á móti danska tökuorðinu slank sem ég held að hafi alltaf verið borið fram með a. Mér finnst tankur með a en ekki á hljóma mjög kunnuglega og held að sá framburður hafi tíðkast lengi og víða – mun víðar en í heimkynnum einhljóðaframburðarins á Vestfjörðum. En núorðið er tankur líklega yfirleitt borið fram tánkur, með á, eins og við er að búast. Þar með hefur þetta tökuorð lagað sig fullkomlega að málinu.