Posted on Færðu inn athugasemd

Meðan öndin þöktir í vitunum

Í frétt á mbl.is í gær er talað um „dag sem Auði líður ekki úr minni á meðan öndin þaktir í vitum hennar“. Myndin þaktir vafðist greinilega fyrir sumum og var spurt um merkingu þessarar setningar í Málvöndunarþættinum, en í umræðum var bent á að þarna ætti að vera þöktir en ekki þaktir. Þetta er sem sé sögnin þökta sem er skýrð 'blakta dauflega, vera um það bil að slokkna' og 'vera um það bil að deyja' í Íslenskri orðabók. Það er svo sem ekkert undarlegt að þessi sögn skyldi vefjast fyrir bæði blaðamanni og lesendum því að hún virðist nánast vera horfin úr málinu – og hefur svo sem aldrei verið algeng. Aðeins um fjörutíu dæmi eru um hana á tímarit.is, aðeins níu dæmi í Risamálheildinni, og hana er ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók.

Það er ekki nýtt að blaðamenn skripli á skötu í meðförum þessarar sagnar eins og fram kemur í pistli sem B.E. (sem var dr. Bjarni Einarsson handritafræðingur) skrifaði í Þjóðviljann 1984: „Um daginn heyrðist í útvarpsfréttum að Sverrir Hermannsson iðnaðarráðherra hefði komist svo að orði í umræðum á alþingi, að enn „hökti lífsandi í nösum núverandi ríkisstjórnar“. Sverrir er kunnur að því að bregða fyrir sig skemmtilegum orðatiltækjum, en þarna hefur honum orðið á í messunni, ef rétt er eftir haft. Reyndar kom fyrst í hugann grunur um að fréttamaður hefði þarna sökum misheyrnar (og fákunnáttu) skipt um sagnorð og tekið upp alkunnugt orð í stað sjaldgæfs, þ.e. þöktir. Slíks eru mörg dæmi.“ Þessi grunur reyndist réttur – Sverrir sagði þöktir.

Í Íslenskri orðsifjabók kemur fram að sögnin þökta sjáist fyrst í heimildum á sautjándu öld en ég hef ekki fundið eldri dæmi um hana en „á meðan þökti eitthvað töluvert eptir í Höfn af Íslendingum af því tagi“ í Sunnanfara 1912. Sögnin er gefin í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 í samböndunum það þöktir á bláskarinu 'ljósið á kertinu er að slokkna', öndin þöktir aðeins fyrir brjóstinu á e-m 'er í andarslitrunum' og það þöktir á flöskunni 'það er smávegis eftir í flöskunni'. Í áðurnefndum pistli í Þjóðviljanum 1984 segir Bjarni Einarsson að sagnorðið þökta „virðist nú vera orðið fágætt í mæltu máli, en hefur til skamms tíma verið vel þekkt í vissum samböndum“ – og nefnir sömu sambönd og í Íslensk-danskri orðabók.

En fyrir utan dæmið úr Sunnanfara eru elstu dæmi sem ég hef fundið um sögnina úr Sjálfstæðu fólki Halldórs Laxness frá 1934-1935: „hér stend ég meðan öndin þöktir í vitunum á mér“ og „Maður á þó altaf öndina sem þöktir í vitunum á manni“. Halldór notaði þetta samband einnig í Húsi skáldsins 1939: „mikið hvað öndin þökti í vitunum á því.“ Í nær öllum dæmum um þökta er hún notuð í sambandinu öndin þöktir í vitunum – með smávægilegum tilbrigðum svo sem öndin þöktir í nösunum, öndin þöktir í brjósti, golan þöktir í vitum manns og andinn þöktir. Mörg þessara dæma eru tilvitnanir í Halldór og hvort sem hann er upphafsmaður þessa orðasambands eða ekki virðist a.m.k. ljóst að flest dæmin má rekja til hans beint eða óbeint.

Fáein dæmi eru þó um aðra notkun sagnarinnar, merkinguna 'blakta dauflega'. Í Frelsisálfunni eftir Jóhannes úr Kötlum frá 1951 segir: „Ófeigur Snorrason þöktir í bekknum eins og stirðnað hrör.“ Í Úr snöru fuglarans eftir Sigurð A. Magnússon frá 1986 segir: „Sá urmull af skynsemi sem enn blakti í heilabúinu.“ Í Morgunblaðinu 1986 segir: „Þá kviknuðu hugmyndir sem enn þökta í margs manns huga.“ Í Vestfirska fréttablaðinu 1994 segir: „drusluverk sem hékk yfir miðjum gatnamótum Hafnarstrætis og Austurvegar og þökti þar í veðri og vindum.“ Merkingin 'það er smávegis eftir í flöskunni' kemur líka fyrir í Hlíðarbræðrum eftir Eyjólf Guðmundsson frá 1953: „Og Grímur bætti kaffið með því sem þökti í lögg á kaffibrúnni flösku.“

Posted on Færðu inn athugasemd

Út í öfga(r)

Í Málvöndunarþættinum var spurt hvort ætti að segja öfgarnar eða öfgarnir, þ.e. hvort orðið öfgar væri kvenkyns- eða karlkynsorð. Orðið er venjulega aðeins í fleirtölu en á tímarit.is má þó finna tvö dæmi um eintöluna öfg – „Ein öfgin býður annarri heim“ í Tímanum 1962 og „Hin öfgin er sú“ í Alþýðublaðinu 1968. Allar orðabækur segja orðið kvenkynsorð en bæði í Íslenskri orðabók og Íslenskri orðsifjabók kemur þó fram að staðbundin dæmi séu um karlkynið. Jón G. Friðjónsson segir þó í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2006 „ljóst að kk.-myndirnar hafa ekki náð að festa rætur“ og við þeim er líka varað í Málfarsbankanum: „Nafnorðið öfgar er kvenkynsorð í fleirtölu. Þetta gengur út í öfgar (ekki „öfga“). Þau ræddu málin án öfga.

Nefnifallið öfgar gæti verið hvort heldur sem er karlkyns- eða kvenkynsorð, og sama má segja um þágufallið öfgum og eignarfallið öfga – einnig með greini, öfgunum og öfganna. Það er bara í þremur beygingarmyndum sem munur kynjanna kemur fram. Í nefnifalli með greini er karlkynið öfgarnir en kvenkynið öfgarnar, og í þolfalli er karlkynið öfga og öfgana en kvenkynið öfgar og öfgarnar. Vegna þessa mikla samfalls er iðulega óljóst í hvaða kyni verið er að nota orðið, þótt oft sé vissulega hægt að ráða það af meðfylgjandi fornafni eða lýsingarorði (þessar öfgar kvk., miklir öfgar kk.). Hljóðasambandið -öfg- kemur líka fyrir bæði í karlkyni, eins og í höfgi, og kvenkyni, eins og í göfgi – hvorugt þeirra orða er reyndar notað í fleirtölu.

Fáein gömul dæmi má finna um karlkynsmyndir orðsins, það elsta í Lögbergi 1906: „Vér verðum að bíða rólegir átekta, forðast öfga og árásir.“ Í Austra 1911 segir: „Við öfgana kannast hann sjálfur.“ Í Vestra 1912 segir: „Grein þessari hefir verið svarað af ýmsum Vestur-Íslendingum sem hingað komu í sumar, er telja greinina fara með öfga.“ Í Heimskringlu 1920 segir: „afturhaldið togar í á aðra hliðina en öfgarnir á hina.“ Í Tímariti íslenzkra samvinnufélaga 1924 segir: „Öfgarnir voru hins vegar afsakanlegir.“ Í Bréfum og ritgerðum Stephans G. Stephanssonar má finna bæði „Þrátt fyrir alla öfga, gera þeir stundum við, þar sem hinir ganga frá“ og „eitthvað, sem ég aðeins sagði sem alvörulausa öfga, til að ofbjóða öðrum“.

Vegna þess hve margar beygingarmyndir falla saman og stofngerðin sker ekki úr um kynið er ekki undarlegt að kyn öfga sé á reiki. Við það bætist að fleirtöluendingin -ar er dæmigerðari fyrir karlkyn en kvenkyn svo að búast mætti við því að karlkynið sækti á – og sú virðist vera raunin. Í Risamálheildinni að frátöldum samfélagsmiðlum eru rúm 800 dæmi um nefnifalls- og þolfallsmyndina öfgarnar – fjórtán sinnum fleiri en samtals um samsvarandi karlkynsmyndir, öfgarnir og öfgana. En í samfélagsmiðlahlutanum eru um 350 dæmi um karlkynsmyndirnar en aðeins helmingi fleiri, um 700, um kvenkynsmyndina. Þetta bendir til þess að í óformlegu málsniði sé öfgar á hraðri leið yfir í karlkyn. Ég sé ekki neina ástæðu til að ergja sig yfir því.

Posted on Færðu inn athugasemd

Messing, látún – og brass

Á mbl.is sá ég í morgun fyrirsögnina „Stál tekur við af brassi á heimilum“ og í fréttinni sagði: „Þó að þetta sé klassískt efni þá hefur það undanfarin ár vikið fyrir gull- og brasslitu.“ Ég minnist þess ekki að hafa séð orðin brass og brasslitur áður í þessari merkingu og þau er ekki að finna í íslenskum orðabókum en ég þóttist þó sjá að þarna væri um að ræða enska orðið brass sem er skýrt 'messing' eða 'látún' í ensk-íslenskum orðabókum og er 'málmblanda, blanda af kopar og sinki'. Bæði messing og látún eru tökuorð en gömul í málinu – það fyrrnefnda a.m.k. frá því um miðja þrettándu öld en það síðarnefnda a.m.k. frá því um 1400. Þau hafa bæði lengi verið algeng í málinu – á tímarit.is eru rúm 4.300 um messing en rúm 3.100 dæmi um látún.

Orðið brass og samsetningar af því hefur reyndar verið algengt í málinu lengi í tengslum við hljóðfæri og tónlist – brassband, brasshljómsveit, brasshljóðfæri, brasstónlist, brasskvintett, brasstónlistarmaður o.s.frv. Sumar þessara samsetninga eins og brassband koma fyrir í vesturíslensku blöðunum frá því fyrir 1900 (oftast þá í tveimur orðum, brass band) en fara ekki að sjást í blöðum á Íslandi fyrr en um 1970 að því er virðist. En í öðrum merkingum fer ekki að bera á orðinu fyrr en fyrir 20 árum eða svo. Á Málefnin.com 2004 segir: „Ég […] pússa allt silfur og brass.“ Dæmi á Bland.is 2005 bendir til þess að orðið sé þá ekki mjög kunnuglegt í þessari merkingu: „Ég held allavega að það sé kallað brass, svona gullitaður þungur málmur.“

Það er ekki fyrr en eftir miðjan síðasta áratug sem orðið brass og samsetningar af því fara að sjást í þessari merkingu í prentmiðlum. Í Stundinni 2016 segir: „ég fæ sérstaka klígju af gömlum járnhnífapörum, hnífapörum úr burstuðu járni og úr brassi.“ Í Morgunblaðinu 2017 segir: „Fæturnir á borðinu mega gjarnan vera með brass-áferð sem þykir sérlega falleg núna.“ Í Mannlífi 2019 segir: Íbúðin er ansi vönduð en þar mætast marmari, brass og viður á sjarmerandi hátt.“ Á mbl.is 2020 segir: „Ég hef alltaf verið meira fyrir silfur en gull en brassliturinn hefur verið að koma aðeins inn hjá mér í skreytingum.“ Í Vísi 2021 segir: „Þess vegna lá efnisvalið nokkuð augljóst fyrir, þar sem Nero Marquina marmari og burstað brass eru allsráðandi.“

Þótt bæði messing og látún hafi lengi verið notuð í íslensku fellur hvorugt orðið sérlega vel að málinu. Fyrrnefnda orðið er venjulega haft í hvorugkyni en íslensk hvorugkynsorð enda yfirleitt ekki á -ing – reyndar var það frekar haft í kvenkyni áður fyrr eins og sést í dæmum í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, svo sem „á milli þeirra er breið messing, sem vér nefnum látún“ úr Reisubók séra Ólafs Egilssonar frá miðri 17. öld. Einnig eru dæmi um myndina mersing. Síðarnefnda orðið einnig er venjulega haft í hvorugkyni en karlkynsmyndin látúnn kemur þó fyrir í fornu máli. En tvíkvæður stofn af þessu tagi, þar sem hvorugt atkvæðið eða hlutann ( eða tún) er hægt að tengja öðru íslensku orði, ber greinilega með sér að vera tökuorð.

Aftur á móti fellur hvorugkynsorðið brass ágætlega að málinu og rímar við gömul orð eins og hlass, kjass og skass auk nýlegri tökuorða eins og dass, hass, krass, pass, smass o.fl. Þarna erum við sem sé með þrjú tökuorð – tvö gömul sem bera erlendan uppruna með sér, eitt nýlegt sem gæti formsins vegna verið af norrænum uppruna. Vissulega er almennt séð æskilegt að halda sig við þau orð sem lengi hafa verið notuð í málinu, en á móti kemur að það er líka æskilegt að tökuorð falli vel að þeim orðum sem eru fyrir í málinu. Ef tekin hefði verið meðvituð ákvörðun um að taka upp brass í staðinn fyrir messing og látún fyndist mér það ekki fráleitt, en líklegra er samt að upptaka brass stafi af hugsunarlausri yfirfærslu úr ensku.