Meðan öndin þöktir í vitunum
Í frétt á mbl.is í gær er talað um „dag sem Auði líður ekki úr minni á meðan öndin þaktir í vitum hennar“. Myndin þaktir vafðist greinilega fyrir sumum og var spurt um merkingu þessarar setningar í Málvöndunarþættinum, en í umræðum var bent á að þarna ætti að vera þöktir en ekki þaktir. Þetta er sem sé sögnin þökta sem er skýrð 'blakta dauflega, vera um það bil að slokkna' og 'vera um það bil að deyja' í Íslenskri orðabók. Það er svo sem ekkert undarlegt að þessi sögn skyldi vefjast fyrir bæði blaðamanni og lesendum því að hún virðist nánast vera horfin úr málinu – og hefur svo sem aldrei verið algeng. Aðeins um fjörutíu dæmi eru um hana á tímarit.is, aðeins níu dæmi í Risamálheildinni, og hana er ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók.
Það er ekki nýtt að blaðamenn skripli á skötu í meðförum þessarar sagnar eins og fram kemur í pistli sem B.E. (sem var dr. Bjarni Einarsson handritafræðingur) skrifaði í Þjóðviljann 1984: „Um daginn heyrðist í útvarpsfréttum að Sverrir Hermannsson iðnaðarráðherra hefði komist svo að orði í umræðum á alþingi, að enn „hökti lífsandi í nösum núverandi ríkisstjórnar“. Sverrir er kunnur að því að bregða fyrir sig skemmtilegum orðatiltækjum, en þarna hefur honum orðið á í messunni, ef rétt er eftir haft. Reyndar kom fyrst í hugann grunur um að fréttamaður hefði þarna sökum misheyrnar (og fákunnáttu) skipt um sagnorð og tekið upp alkunnugt orð í stað sjaldgæfs, þ.e. þöktir. Slíks eru mörg dæmi.“ Þessi grunur reyndist réttur – Sverrir sagði þöktir.
Í Íslenskri orðsifjabók kemur fram að sögnin þökta sjáist fyrst í heimildum á sautjándu öld en ég hef ekki fundið eldri dæmi um hana en „á meðan þökti eitthvað töluvert eptir í Höfn af Íslendingum af því tagi“ í Sunnanfara 1912. Sögnin er gefin í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 í samböndunum það þöktir á bláskarinu 'ljósið á kertinu er að slokkna', öndin þöktir aðeins fyrir brjóstinu á e-m 'er í andarslitrunum' og það þöktir á flöskunni 'það er smávegis eftir í flöskunni'. Í áðurnefndum pistli í Þjóðviljanum 1984 segir Bjarni Einarsson að sagnorðið þökta „virðist nú vera orðið fágætt í mæltu máli, en hefur til skamms tíma verið vel þekkt í vissum samböndum“ – og nefnir sömu sambönd og í Íslensk-danskri orðabók.
En fyrir utan dæmið úr Sunnanfara eru elstu dæmi sem ég hef fundið um sögnina úr Sjálfstæðu fólki Halldórs Laxness frá 1934-1935: „hér stend ég meðan öndin þöktir í vitunum á mér“ og „Maður á þó altaf öndina sem þöktir í vitunum á manni“. Halldór notaði þetta samband einnig í Húsi skáldsins 1939: „mikið hvað öndin þökti í vitunum á því.“ Í nær öllum dæmum um þökta er hún notuð í sambandinu öndin þöktir í vitunum – með smávægilegum tilbrigðum svo sem öndin þöktir í nösunum, öndin þöktir í brjósti, golan þöktir í vitum manns og andinn þöktir. Mörg þessara dæma eru tilvitnanir í Halldór og hvort sem hann er upphafsmaður þessa orðasambands eða ekki virðist a.m.k. ljóst að flest dæmin má rekja til hans beint eða óbeint.
Fáein dæmi eru þó um aðra notkun sagnarinnar, merkinguna 'blakta dauflega'. Í Frelsisálfunni eftir Jóhannes úr Kötlum frá 1951 segir: „Ófeigur Snorrason þöktir í bekknum eins og stirðnað hrör.“ Í Úr snöru fuglarans eftir Sigurð A. Magnússon frá 1986 segir: „Sá urmull af skynsemi sem enn blakti í heilabúinu.“ Í Morgunblaðinu 1986 segir: „Þá kviknuðu hugmyndir sem enn þökta í margs manns huga.“ Í Vestfirska fréttablaðinu 1994 segir: „drusluverk sem hékk yfir miðjum gatnamótum Hafnarstrætis og Austurvegar og þökti þar í veðri og vindum.“ Merkingin 'það er smávegis eftir í flöskunni' kemur líka fyrir í Hlíðarbræðrum eftir Eyjólf Guðmundsson frá 1953: „Og Grímur bætti kaffið með því sem þökti í lögg á kaffibrúnni flösku.“