Messing, látún – og brass
Á mbl.is sá ég í morgun fyrirsögnina „Stál tekur við af brassi á heimilum“ og í fréttinni sagði: „Þó að þetta sé klassískt efni þá hefur það undanfarin ár vikið fyrir gull- og brasslitu.“ Ég minnist þess ekki að hafa séð orðin brass og brasslitur áður í þessari merkingu og þau er ekki að finna í íslenskum orðabókum en ég þóttist þó sjá að þarna væri um að ræða enska orðið brass sem er skýrt 'messing' eða 'látún' í ensk-íslenskum orðabókum og er 'málmblanda, blanda af kopar og sinki'. Bæði messing og látún eru tökuorð en gömul í málinu – það fyrrnefnda a.m.k. frá því um miðja þrettándu öld en það síðarnefnda a.m.k. frá því um 1400. Þau hafa bæði lengi verið algeng í málinu – á tímarit.is eru rúm 4.300 um messing en rúm 3.100 dæmi um látún.
Orðið brass og samsetningar af því hefur reyndar verið algengt í málinu lengi í tengslum við hljóðfæri og tónlist – brassband, brasshljómsveit, brasshljóðfæri, brasstónlist, brasskvintett, brasstónlistarmaður o.s.frv. Sumar þessara samsetninga eins og brassband koma fyrir í vesturíslensku blöðunum frá því fyrir 1900 (oftast þá í tveimur orðum, brass band) en fara ekki að sjást í blöðum á Íslandi fyrr en um 1970 að því er virðist. En í öðrum merkingum fer ekki að bera á orðinu fyrr en fyrir 20 árum eða svo. Á Málefnin.com 2004 segir: „Ég […] pússa allt silfur og brass.“ Dæmi á Bland.is 2005 bendir til þess að orðið sé þá ekki mjög kunnuglegt í þessari merkingu: „Ég held allavega að það sé kallað brass, svona gullitaður þungur málmur.“
Það er ekki fyrr en eftir miðjan síðasta áratug sem orðið brass og samsetningar af því fara að sjást í þessari merkingu í prentmiðlum. Í Stundinni 2016 segir: „ég fæ sérstaka klígju af gömlum járnhnífapörum, hnífapörum úr burstuðu járni og úr brassi.“ Í Morgunblaðinu 2017 segir: „Fæturnir á borðinu mega gjarnan vera með brass-áferð sem þykir sérlega falleg núna.“ Í Mannlífi 2019 segir: Íbúðin er ansi vönduð en þar mætast marmari, brass og viður á sjarmerandi hátt.“ Á mbl.is 2020 segir: „Ég hef alltaf verið meira fyrir silfur en gull en brassliturinn hefur verið að koma aðeins inn hjá mér í skreytingum.“ Í Vísi 2021 segir: „Þess vegna lá efnisvalið nokkuð augljóst fyrir, þar sem Nero Marquina marmari og burstað brass eru allsráðandi.“
Þótt bæði messing og látún hafi lengi verið notuð í íslensku fellur hvorugt orðið sérlega vel að málinu. Fyrrnefnda orðið er venjulega haft í hvorugkyni en íslensk hvorugkynsorð enda yfirleitt ekki á -ing – reyndar var það frekar haft í kvenkyni áður fyrr eins og sést í dæmum í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, svo sem „á milli þeirra er breið messing, sem vér nefnum látún“ úr Reisubók séra Ólafs Egilssonar frá miðri 17. öld. Einnig eru dæmi um myndina mersing. Síðarnefnda orðið einnig er venjulega haft í hvorugkyni en karlkynsmyndin látúnn kemur þó fyrir í fornu máli. En tvíkvæður stofn af þessu tagi, þar sem hvorugt atkvæðið eða hlutann (lá eða tún) er hægt að tengja öðru íslensku orði, ber greinilega með sér að vera tökuorð.
Aftur á móti fellur hvorugkynsorðið brass ágætlega að málinu og rímar við gömul orð eins og hlass, kjass og skass auk nýlegri tökuorða eins og dass, hass, krass, pass, smass o.fl. Þarna erum við sem sé með þrjú tökuorð – tvö gömul sem bera erlendan uppruna með sér, eitt nýlegt sem gæti formsins vegna verið af norrænum uppruna. Vissulega er almennt séð æskilegt að halda sig við þau orð sem lengi hafa verið notuð í málinu, en á móti kemur að það er líka æskilegt að tökuorð falli vel að þeim orðum sem eru fyrir í málinu. Ef tekin hefði verið meðvituð ákvörðun um að taka upp brass í staðinn fyrir messing og látún fyndist mér það ekki fráleitt, en líklegra er samt að upptaka brass stafi af hugsunarlausri yfirfærslu úr ensku.